17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (3787)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er síður en svo að ég sé að mótmæla hv. síðasta ræðumanni, heldur vil ég einmitt árétta hans orð, þó að því marki að ég kannske tel að við séum ekki beinlínis skuldbundnir meðan við búum við það í okkar löggjöf að opinberir starfsmenn séu æviráðnir og þó með þeim takmörkunum sem þetta frv. segir, þá tel ég samt sem áður að þarna sé verið að stíga geysilega stórt spor fram á við til þess að koma þeim nokkuð til þess svokallaða jafnréttis sem verkalýðshreyfingin býr við, En það, sem ég taldi samt sem áður rétt að vekja athygli á áðan í minni fyrri ræðu, er að ég er ekki viss um að þetta sé réttlæti gagnvart því fólki sem býr við þetta. Ég er búinn að reka mig á það á undanförnum árum, þótt ég sé yngri maður í verkalýðshreyfingunni heldur en hv. síðasti ræðumaður, þá er ég búinn að reka mig á það margoft að ég er ekki svo viss lengur um að lögin frá 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur séu sú eina náðar- og eilífðarblessun fyrir launþegasamtökin sem þau ættu þó að vera. En ég held að við hljótum þó, ég og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, að vera sammála um að þannig ætti að vera um þessi lög. A.m.k. treystum við því, ef til endurskoðunar kemur á þessum lögum, sem ég hef fyllilega trú á að sé orðin tímabær, þá auðvitað verður það ekki gert nema í fullu samráði bæði við launþegasamtökin og vinnuveitendur. Það er ekki hægt annað, því að ef ætti að fara í stríð við annan hvorn aðilann, þá er þetta dautt og ómerkt á stundinni. Þetta vitum við, sem erum hér í þingsal í dag.

En gagnvart opinberum starfsmönnum, og það er málið sem við erum að ræða, þá vil ég aðeins endurtaka orð mín um það, að ég álit að það sé verið að stíga stóran áfanga fram á við. Ég fagna því að það skuli vera núv. hæstv, ríkisstj. sem stígur það spor í dag að gera þetta sem fyrri ríkisstj. jafnvel hafa lofað, en ekki efnt. Ég fagna því að þarna skuli þó vera stigið þetta spor. Þótt áfangar séu teknir í sambandi við þetta frv. sem að sumu leyti fara nokkuð aftur á bak miðað við það sem gilt hefur í samskiptum launþega og vinnuveitenda fram til þessa samkv. lögunum frá 1938, þá er kannske þó nokkuð stór hópur sem álítur, að við séum kannske á réttri leið, en ekki hitt, þegar það verður samþykkt.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta og sé ekki ástæðu til annars en ítreka þau orð mín að ég mun styðja þetta frv. til hins ítrasta, að það nái fram að ganga, og þakka þeim ráðh., sem hafa átt hlut að, og um leið stéttarfélagssamtökunum, sem hafa átt hlut að því að ná samkomulagi um þetta frv.