17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (3788)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ástæða þess, að ég kvaddi mér hljóðs hér, eru ummæli sem komu fram í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. áðan. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeim ummælum og benda um leið á hvers fyrirboði þau ummæli eru, hvað raunverulega er hér að gerast. Í fyrsta lagi vil ég leyfa mér að minna hv. dm. á það, að hinn 1. maí s.l. flutti forseti Alþýðusambands Íslands, Björn Jónsson, ræðu á útifundi hér í Reykjavík þar sem hann sagði m.a. að hann hefði vitneskju um það að á borðum ráðh, í þessari hæstv. ríkisstj. væru tilbúin drög að frv. um nýja vinnulöggjöf sem þessir aðilar hefðu látið semja án nokkurs samráðs við Alþýðusambandið og án þess að vitað væri til þess að nokkurt samráð hefði verið haft við hinn aðila málsins, Vinnuveitendasamband Íslands, Þá vil ég einnig benda á það, að í blaðafregn nýlega, lítilli fregn sem ekki fór mikið fyrir, var sagt frá því að fundur mundi hafa verið haldinn að tilhlutan ríkisstj. eða einhverra ráðh. hennar þar sem kynnt hefði verið ný vinnulöggjöf eða drög að nýrri vinnulöggjöf fyrir aðilum vinnumarkaðarins. Þegar það svo gerist í kjölfar af þessu að hv. 1. þm. Suðurl., sem er áhrifamaður mikill í stjórnarliðinu, stendur hér á fætur og finnur í ræðu sinni ástæðu til þess að lofta þá hugmynd að sáttasemjari ríkisins eða slíkur aðili fái leyfi til þess að fresta boðuðum verkföllum allt að 60 dögum, þá kemur mér ekki til hugar annað heldur en þessi hv. þm. sé þar að skýra frá vitneskju sem hann hafi um hluti sem sé að finna í þessari vinnulöggjöf sem hæstv. ríkisstj. hefur látíð semja, tilgangur hv. þm. sé m.a. sá að fá fram hér frá þm. hverjar undirtektir mundu verða við slíkri hugmynd yrði hún orðuð í frv. sem ríkisstj. mundi semja og væntanlega leggja fram á Alþ., sennilega næsta haust.

Ef þetta er rétt, sem ég held, þá er sem sagt niðurstaðan fengin af þeim skefjalausa áróðri sem rekinn hefur veríð af afturhaldsöflunum í þessu landi og málgögnum ríkisstj. í allan vetur gegn verkalýðshreyfingunni og þeim vinnubrögðum sem tíðkuð eru við gerð kjarasamninga. Það fer sem sé ekki á milli mála að þessi ákafi áróður átti einhverju markmiði að þjóna, og þetta er þá markmiðið, þetta er niðurstaðan, sú að grafa undan starfsaðferðum launþegasamtakanna í kjaradeilum í von um að með því móti gæti ríkisstj. e.t.v. fengið aukið liðsinni við hugmyndir um að svipta launþega ákveðnum réttindum sem þeir hafa haft til þessa. Ég held að það fari varla fram hjá mönnum, sem hafa fylgst mikið með þessum umr. og þessum áróðri sem rekinn hefur verið af málgögnum stjórnarflokkanna í vetur, — það hefur vart farið fram hjá mönnum hvernig honum hefur verið stýrt. Það hefur veríð sagt að ekkert hafi gerst í samningamálum vikum saman, ekkert hafi verið ræðst við um gerð nýrra kjarasamninga fyrr en í verkfall væri komið og þá yrði að leysa erfiðan vanda á tveimur eða þremur sólarhringum.

Því hefur verið haldið fram að verkalýðshreyfingin eða forustulið verkalýðshreyfingarinnar og þær starfsaðferðir, sem þetta forustulið beitir, gætu ekki skilað verkafólki neinum árangri, þarna yrði að breyta til. Og bjargráðið á sem sagt að vera það sem hv. 1. þm. Suðurl. lýsti hér áðan, að svipta verkalýðshreyfinguna, a.m.k. takmarka rétt hennar til þess að bregða fyrir sig örþrifavopninu þar sem verkfallsvopnið er. Markmiðið með þessum söng, sem hafður hefur verið uppi í allan vetur, hefur sem sé verið sá að grafa undan trausti og tiltrú á núverandi vinnulöggjöf og starfsaðferðum sem verkalýðshreyfingin beitir í kjarasamningamálum með það að markmiði að geta komið fram frv. með þessu ákvæði sem hv. 1. þm. Suðurl. var hér að lýsa.

Ég ætla ekki að halda langa tölu um þetta mál. Það gefst e.t.v. tækifæri til þess að gera það síðar og e.t.v. ekki langt undan að þess þurfi með. En ég vil aðeins leyfa mér að benda á nokkur atriði í þessu sambandi:

1. Stefna Alþýðusambands Íslands í kjaramálunum lá fyrir þegar í des. s.l.

2. Þá þegar hófust viðræður milli Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambands Íslands.

3. Um þetta leyti mótaði verkalýðshreyfingin stefnu varðandi stjórnarfarslegar aðgerðir, sem hún taldi að mundu geta greitt fyrir lausn samningamálanna, og óskaði eftir því að ríkisstj. a.m.k. tæki þessar till. til athugunar og léti álit sitt í ljós.

4. Þegar það fékkst ekki gert gekk verkalýðshreyfingin á fund hins aðila vinnumarkaðarins, Vinnuveitendasambands Íslands, og bað um viðræður um till. um aðgerðir sem síðar yrðu sendar ríkisstj. Þetta var gert. Þá stóð ekki á því af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að hún mótaði sína kjaramálastefnu og hún tæki upp eðlilegar viðræður við samningsaðila og ríkisvaldið með góðum fyrirvara.

Hins vegar reyndist það svo, og það er rétt, að það fór enginn skriður að komast á þessi mál fyrr en verkfall var yfirvofandi. En það er að sjálfsögðu ekki verkalýðshreyfingunni að kenna. Það er að sjálfsögðu ekki henni að kenna að ríkisstj. svarar ekki till, hennar vikum og mánuðum saman, Það er ekki verkalýðshreyfingunni að kenna að atvinnurekendur voru ekki til viðtals fyrr en þeir horfðust í augu við aðsteðjandi verkfall. Það er ekki verkalýðshreyfingunni að kenna að slík stjórn skuli sitja í landinu sem aðeins vill við hana ræða á vígvelli verkfalla. En það á að kenna verkalýðshreyfingunni um þetta. Það á að saka hana fyrir þetta eins og gert hefur verið, og bjargráðið á að vera að knýja fram nýja vinnulöggjöf án samráðs við verkalýðshreyfinguna þar sem verkfallsréttur hennar er takmarkaður.

Og nú vil ég aðeins rétt undir lok máls míns biðja menn að íhuga eina spurningu, og hún er þessi: Telja menn nú líklegt að samið hefði verið í febrúarmánuði, eins og þó var gert, ef sáttasemjari ríkisins eða m.ö.o. ríkisstj. hefði getað haft það vald í höndunum, því að hún getur komið töluverðu áleiðis til sáttasemjara, — telja menn að samið hefði verið í febrúar ef sáttasemjari hefði þá frestað framkvæmd verkfalls um 60 daga? Ég er þeirrar skoðunar að ef það hefði verið gert í febrúarmánuði, þá hefðu samningar varla tekist enn. Það eitt, að verkfall var yfirvofandi, gerði samningana kleifa. Það er rétt að það tók allt of langan tíma að fá niðurstöður af viðræðum aðila vinnumarkaðarins, en það fékkst aðeins vegna þess að verkalýðshreyfingin gat gripið til verkfallsvopnsins. Ef henni hefði verið meinað að gera það, eins og mér virtist að hv. 1. þm. Suðurl. væri að lýsa að gera ætti, þá hefðu viðræðurnar tekið miklu meiri tíma, þá hefði verið miklu lengri bið á því að niðurstaða hefði fengist.

Að lokum þetta: Það er rétt hjá hv. þm. Pétri Sigurðssyni að það er ýmislegt sem þarf að breyta í vinnulöggjöfinni. Það mun vist hafa verið alþfl.- maður sem samdi þá löggjöf, og hún er búin að standa sig nokkuð vel, sú löggjöf, enda samin af ágætum manni. En jafnvel þó að alþfl.- menn semji góð lög, þá getur verið að tíminn krefjist þess að þeim verði breytt til bóta. Ég tel að það sé fullur vilji hjá bæði verkalýðshreyfingunni og Vinnuveitendasambandinu að fá fram breytingar á vinnulöggjöfinni sem þessir aðilar báðir telja að séu eðlilegar. Það eiga sér stað viðræður milli þessara aðila um slíkar breytingar. Ef stjórnvöld hlaupa nú inn í það mál í miðjum klíðum og ganga að eigin frumkvæði frá frv. að nýrri vinnulöggjöf, sem á síðan að kasta fram í þessar viðræður aðila vinnumarkaðarins um breytingar á vinnulöggjöfinni óvænt og með eiginlega fyrirmælum um það að taka nú þegar í stað afstöðu til hugmynda sem meirihlutaríkisstj. í landinu setur fram, þá tel ég að hjá því muni ekki verða komist að upp úr viðræðum aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun vinnulöggjafar slitni, og ef ríkisstj. í beinu framhaldi af því ætlaði að reyna að nota meiri hl. sinn hér í þinginu, sem ég vona að hún reyni ekki að gera, en ef hún ætlaði að gera það til að knýja fram vinnulöggjöf sem aðilar vinnumarkaðarins báðir tveir gætu ekki fyllilega sætt sig við, þá ætla ég eindregið að vara við því og tel að þá sé betur heima setið en af stað farið hjá ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar.