17.05.1976
Neðri deild: 111. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (3789)

258. mál, kjarasamningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég viðurkenni það fúslega að ég og hv. síðasti ræðumaður erum nokkuð komnir út yfir það eiginlega umræðuefni sem hér er á dagskrá. Ég vil aðeins taka það fram samt sem áður og undirstrika þá skoðun mína mjög sterklega að það verður auðvitað ekkert gert á sviði breytinga um vinnulöggjöf nema í samráði við bæði verkalýðshreyfinguna og vinnuveitendur. Það er þetta sem ég vil undirstrika mjög sérstaklega, að það er ekki hægt að gera þetta. En ef báðir þessir aðilar ásamt löggjafanum geta fundið skynsamlegri leiðir heldur en við höfum farið á undanförnum árum, þá eigum við hiklaust að fara þær.