17.11.1975
Neðri deild: 18. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

61. mál, kaupstaðarréttindi til handa Garðahreppi

Flm. (Ólafur G. Einarsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., flyt ég ásamt hv. þm. Jóni Skaftasyni, Gils Guðmundssyni, Gylfa Þ. Gíslasyni og Matthíasi Á. Mathiesen.

Á fundi sínum 6. nóv. s. l. samþ. hreppsnefnd Garðahrepps með atkv. allra hreppsnefndarmanna að óska eftir kaupstaðarréttindum til handa sveitarfélaginu. Var þm. Reykn. ritað bréf og þess óskað að þeir gengjust fyrir flutningi frv. þessa efnis. Bréf sveitarstjórans er birt sem grg. með þessu frv. á þskj. 65.

Það er ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þetta mál. Frv. er samhljóða lögunum um kaupstaðarréttindi Seltjarnarness, en þau lög voru samþ. vorið 1974 ásamt fjórum öðrum hliðstæðum. Á því þingi urðu nokkrar umr. um réttarstöðu sveitarfélaganna í tilefni þess að 5 hreppar sóttu þá um kaupstaðarréttindi, af nokkuð mismunandi ástæðum þó. Um það leyti fóru fram nokkrar óformlegar umr. í hreppsnefnd Garðahrepps um það hvort Garðahreppur ætti þá að æskja sömu réttarstöðu. Hreppsnefndarfulltrúum þótt þá sem ekki væri ástæða til að flýta málinu aðeins vegna þess að ýmis önnur sveitarfélög óskuðu þessara breytinga. Engu að síður var mönnum þó ljóst að að því hlyti að koma að slíks yrði óskað að öðru óbreyttu. Það er því nú eindregin ósk sveitarstjórnarinnar að Garðahreppur fái kaupstaðarréttindi.

Rökstuðningur þeirra fimm sveitarfélaga, sem hlutu þessi réttindi 1974, gildir að flestu leyti fyrir Garðahrepp og ég skal ekki tíunda hann hér. En rétt er að nefna sérstaklega að fyrir sveitarfélag sem Garðahrepp er það orðið nokkuð dýrt að heita hreppur, þar sem segja má að með framlögum úr sveitarsjóði til sýslusjóðs og sýsluvegasjóðs Kjósarsýslu sé að verulegu leyti staðið undir rekstri sýslunnar án þess að Garðahreppur njóti þess að nokkru, svo að heitið geti. Þess er kannske ekki heldur að vænta, þar sem um svo ólík sveitarfélög er að ræða sem eru í Kjósarsýslu, bæði að því er tekur til fólksfjölda, atvinnulífs og þó sérstaklega skipulags.

Einhvern tíma hefði það sjálfsagt verið talið til fordildar að hreppur vildi fá kaupstaðarréttindi, — réttindi sem menn væru jafnvel reiðubúnir til þess að borga eitthvað fyrir. Nú er hins vegar svo komið að það kostar orðið nokkrar fjárhæðir fyrir þéttbýlissveitarfélag sem Garðahrepp að njóta ekki kaupstaðarréttinda. Má ætla að á næsta ári greiði hreppurinn í sýslusjóð og sýsluvegasjóð vart undir 4 millj. kr. án þess að njóta að nokkru marki þeirra viðfangsefna sem sýslunefnd tekur sér fyrir hendur. Í hreppnum eru engir sýsluvegir, en úr sveitarsjóði er þó greitt um 50% í sýsluvegasjóð Kjósarsýslu, og viðfangsefni sýslunnar að öðru leyti snerta vart sveitarfélagið, en þó greiðir Garðahreppur um 64% af tekjum sýslusjóðsins.

Ég skal ekki rekja þetta frekar. En það verður að teljast eðlilegt að sveitarfélag sem Garðahreppur hafi allt það sjálfstæði sem stærð þess gefur tilefni og tækifæri til. Eins og segir í grg. með frv., má í því sambandi nefna sjálfstætt sjúkrasamlag, en einnig vonast sveitarstjórnin eftir aukinni löggæslu í kjölfar breytingarinnar, en á aukinni löggæslu er mikil þörf í Garðahreppi.

Ég ræði þetta mál ekki frekar nema sérstakt tilefni gefist, en legg til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. félmn.