18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hér hefur verið tekið til umr. utan dagskrár alvarlegt mál, spurningin um það hvort íslensku þjóðinni hefur verið sagt satt frá um framgöngu íslensku ríkisstj. í samningaviðræðum við breta, spurningin um það hvort forsrh. Íslands hafi fyrir nokkrum mínútum sagt Alþ. íslendinga satt eða ósatt um afstöðu íslensku ríkisstj. í samningaviðræðum við breta.

Það er eitt af grundvallarlögmálum þingræðisstjórnarfars að þingið geti á hverjum tíma treyst því algjörlega að stjórnvöld, þegar þau ganga fram í löggjafarsamkomunni, segi þm. sannleikann. Þetta lögmál er talið slíkt grundvallarlögmál í þeim löndum þar sem þingræði er í mestum hávegum, að ráðherrar, sem verða berir að ósannindum fyrir þingheimi, segja skilyrðislaust og án tafar af sér. Hér hefur komið fram að aðaltalsmaður breta, Roy Hattersley, hefur lýst því mjög nákvæmlega að íslendingar hafi gert tilboð um 65 þús. tonn. Hann hefur kvartað undan því, að þrátt fyrir þriggja vikna tíma síðan þetta tilboð var gert hafi íslendingar ekki breytt þessu tilboði, þeir hafi að vísu á þessum þremur vikum hækkað sig úr fyrra tilboði, sem var 50 þús., upp í tilboðið fyrir þremur víkum, sem var 65 þús.

Þessi lýsing var, eins og þjóðinni er kunnugt af blaðamannafundi þessa breska ráðherra, meginröksemd hans fyrir gagnrýni á viðræðurnar. Íslenska ríkisstj. sá ekki ástæðu til þess fyrr en í dag þegar hún var til þess knúin hér — eða hæstv. forsrh. — að gera við þetta nokkra athugasemd. Og þá gengur hæstv. forsrh. fram fyrir þingheim og segir: Þessi lýsing breska ráðherrans er röng, hún er ósönn.

En það vill svo til að það eru fleiri vitni í þessu máli en hæstv. forsrh. og talsmaður bresku sendinefndarinnar, Roy Hattersley. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — leiða þetta vitni hér fram. Þetta vitni er formaður utanrmn. Alþ., Þórarinn Þórarinsson, sá maður sem setið hefur á öllum samningafundum, sá maður sem ég ætla að viti eins gjörla og hæstv. forsrh. hvað hefur verið sagt af Íslands hálfu í þessum viðræðum. Og það vill svo til, hæstv. forsrh., að vitnisburður formanns utanrmn. Alþ. styður frekar sögu breska ráðherrans, Roys Hattersleys, heldur en þá yfirlýsingu sem forsrh. Íslands gaf hér áðan.

Í viðtali við málgagn sitt Tímann í dag segir formaður utanrmn. Alþ., með leyfi hæstv. forseta, að „í undirbúningsviðræðum sérfræðinga um sjávarútveg, sem fram fóru fyrir nokkru, hefðu sérfræðingar íslensku ríkisstj. haldið fast við það sjónarmið að veiðiheimild til handa bretum skyldi miðast við 65 þús. tonn og samkomulag um það aðeins ná til eins árs, og jafnframt var það skilyrði sett fram af íslenskum stjórnvöldum að viðurkenning fylgdi á útfærslu landhelginnar auk tollalækkana hjá Efnahagsbandalagsríkjunum.“

Hæstv. forsrh. sagði áðan að það hefði fyrst í einkaviðræðum utanrrh. Íslands og Roys Hattersleys s. l. sunnudag verið minnst á töluna 65 þús. tonn. Formaður utanrmn. lýsir því yfir í málgagni sínu í dag að þessi tala hafi þegar verið eitt af meginatriðum í viðræðum sérfræðinga um sjávarútveg fyrir nokkru. Það munu líklegast vera þær viðræður sem fóru fram fyrir rúmri viku. Og ég hef ekki trú á því að íslenskir sérfræðingar hafi búið þessa tölu til sjálfir. Það væri algerlega andstætt þeirra vinnubrögðum og þeirra starfsemi ef þeir hefðu ekki fengið þessa tölu frá hæstv. ríkisstj., enda kemur fram í viðtali við formann utanrmn. að þeir hafi haldið fast við þessa tölu. Það orðalag gefur til kynna að það sé möguleiki á því að hún hafi komið fram áður.

Því miður er það þannig að þetta viðtal við formann utanrmn. Alþ. styður frásögn breska ráðherrans Roys Hattersleys. Því miður er þetta viðtal viðbótarröksemd fyrir því að hæstv. forsrh. Íslands hafi hér fyrir nokkrum mínútum sagt Alþ. ósatt varðandi þetta mikilvæga mál, eitt mesta grundvallarhagsmunamál þjóðarinnar. Það er nauðsynlegt að þetta mál verði upplýst. Því miður er formaður utanrmn. ekki hér í salnum nú. Það er krafa Alþ. að hann sem formaður þeirrar n., sem þingið felur meðferð þessara mála að öllu jöfnu, útskýri nánar þessi ummæli sín og málið allt sé upplýst, því að annar hvor þeirra, hæstv. forsrh. eða hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, formaður utanrmn. Alþ., segir ósatt. Málið snýst ekki bara um það hvor segi satt, breski ráðherrann eða forsrh. Íslands. Það hefur einn af forustumönnum Alþ. íslendinga líka borið vitni í þessu máli.

Ég vék að því í upphafi að það er talin grundvallarregla í þingsölum að þing geti ávallt treyst því að því sé skýrt rétt frá gangi mála.

Þeir þm., sem áður hafa talað hér í dag, hafa látið skýrt koma fram að það skortir því miður mjög á að hæstv. ríkisstj. hafi í samskiptum við landhelgisnefnd, sem er sú trúnaðarnefnd, sem allir þingflokkar hafa skipað til samskipta við ríkisstj. um þetta mál, sýnt nægilegan áhuga á starfsemi þeirrar n. né verið nægilega hreinskilin í samskiptum við meðlimi þeirrar n. Það hefur verið meginforsendan fyrir því, að íslendingar hafa hingað til unnið sigra í landhelgisdeilum, að þjóðin hefur borið gæfu til þess að standa saman, að stjórnvöld hafa á hverjum tíma virt það sem eina af helgustu skyldum sínum í þessu máli að hafa náið samband við stjórnarandstöðu og sýna þjóðinni allri fullan trúnað í þessu máli. Nú hafa þegar komið fram rökstuddar grunsemdir um að núv. ríkisstj. hafi ekki hagað sér á sama hátt og fyrri ríkisstjórnir í þessu máli, að núv. ríkisstj. hafi vanrækt landhelgisnefnd, hafi leynt hana mikilvægum grundvallarupplýsingum í þessu máli, hafi meinað þjóðinni að fá aðgang að réttum upplýsingum og nú jafnvel gengið fram fyrir Alþ. íslendinga og ekki skýrt rétt frá varðandi grundvallaratriði í þessu máli.

Það er von mín að hæstv. ríkisstj. sjái að sér í þessu máli. Hún er á góðri leið með þessum vinnubrögðum að gera landhelgismál íslendinga að bitbeini meðal þjóðarinnar. Hún hefur haldið þannig á þessu máli að hún er að vekja upp deilur, ótta, tortryggni og ugg í röðum landsmanna sjálfra. Þjóðin þarf á þessum tíma á allri sinni samstöðu að halda, og sú ríkisstj. sem ekki stuðlar með aðgerðum sínum að þeirri samstöðu, er ekki fær um að halda á brýnasta lífshagsmunamáll íslendinga.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, ítreka það, að með yfirlýsingu hæstv. forsrh. lýkur því miður ekki þessu máli. Á móti stendur yfirlýsing formanns utanrmn. Alþ. og þetta mál verður að upplýsa enn frekar. Ég vil taka undir þær kröfur, sem hér hafa komið fram í dag, að ríkisstj, upplýsi nú hvað hún hyggst bjóða vesturþjóðverjum, hvað er það aflamagn sem hún hefur hugsað sér að bjóða öllum öðrum þjóðum í samningaviðræðum og hvað mikið verður þá eftir fyrir íslendinga sjálfa. Það blasir við, að ef útlendingar hefðu samþykkt þau tilboð, sem ríkisstj. virðist begar hafa gert eða ætlar sér að gera á næstu dögum, þá hafa aðgerðir hennar í landhelgismálinu ekki aðeins rekið fleyg í samstöðu íslensku þjóðarinnar í þessum efnum, þá samstöðu sem hefur verið grundvallarforsendan fyrir sigrum okkar á fyrri tíð í þessu máli, heldur hefur hún einnig innleitt mikilvirkustu kjaraskerðingu sem nokkur ríkisstj. hefur á undanförnum árum boðið íslensku þjóðinni, ef á að virða það sjónarmið fiskifræðinga að ekki sé gengið um of á fiskstofnana við landið.

Ég vil óska þess, að ríkisstjórn Íslands beri gæfu til að koma nú heiðarlega fram við þjóðina, við þingið og allan almenning í landinu, birta tafarlaust skýrslur um allt það, sem fram hefur farið í þessum viðræðum, og þær mótsagnir, sem koma fram hjá talsmönnum ríkisstj., hæstv. forsrh. í dag og hv. formanni utanrmn. í viðtali við Tímann í morgun, verði skýrðar til fullnustu.