18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. svar hans við fsp. minni, og ég vil þangað til annað reynist trúa því að það sé rétt. Vel má vera að annað komi í ljós, en ég vil ekki fyrirfram ætla honum annað en að hann skýri hér satt og rétt frá. Hitt er rétt, að menn minnast þess þegar samningaviðræður fóru fram í London fyrir ca. 3 vikum, að þá fullyrtu talsmenn bresku ríkisstj., sem þátt tóku í þeim samningum, að fram hafi verið lagt tilboð í þeim umr. Því var afneitað, eins og hér kom fram, af hálfu talsmanna íslensku ríkisstj.

Enginn þarf að fara í grafgötur um það að eftir að sú hugmynd — skulum við segja hæstv. utanrrh. í London — kom fram að spyrja: Hvað munduð hið gera ef við gerðum þetta eða hitt? — þá var rætt um þessa hugmynd á grundvelli tilboðs, allt frá því að hún kom fram. Af hálfu breta var þetta gert og því var ekki mótmælt af hálfu íslendinga. En hvað sem um þetta má segja, þá vil ég sem sagt treysta því að hæstv. forsrh. fari hér með rétt mál.

Mér þykir hins vegar á skorta, eftir að slík fullyrðing er fram sett af hálfu breska ráðherrans í gærkvöldi í sjónvarpsviðtali, að mér vitanlega hefur ekki heyrst hósti eða stuna frá hæstv. ríkisstj. í mótmælaskyni við þessa fullyrðingu fyrr en það er knúið hér fram utan dagskrár á Alþ.

Ég vænti þess og tek undir það að hæstv. forsrh. komi greinilega og skilmerkilega á framfæri, bæði í íslenskum fjölmiðaum og breskum, að Roy Hattersley sé með þessum fullyrðingum sínum gerður ber að ósannindum í þessu máli. Ég tel að það sé nauðsynlegt að íslenska þjóðin og kannske ekki síður sú breska sé upplýst um hvers konar meðulum fulltrúar hennar í viðskiptum og viðræðum við íslendinga beita í þessu máli.

Ef þetta væri upplýst, þá er ekki útilokað að almenningur á Íslandi og almenningur í Bretlandi ætlaði sem svo, fyrst þetta getur gerst, svona ósannindi, fullyrðingar að ástæðulausu, þá megi jafnframt búast við því að: margt annað í afstöðu Breta í þessu máli sé mjög óhreint, vægast sagt. Ég ítreka það því að ég vænti þess að hæstv. forsrh. komi leiðréttingu og mótmælum á framfæri í íslenskum og breskum fjölmiðlum vegna þessanar fullyrðingar breska ráðherrans, og ég furða mig á því að sú leiðrétting skuli ekki hafa komið fram strax.

Ég fagna því að sjálfsögðu að við þessar umr. hafa komið fram frekari og gleggri upplýsingar um stöðu málsins og þær hugmyndir eða till., sem hæstv. ríkisstj. hefur boðið bretum, heldur en við umr. utan dagskrár fyrr í þinginu. Það hefur verið svo allt til þessa a. m. k. að það er engu líkara en þurft hafi að toga með töngum út úr hæstv. ráðherrum hvað verið væri að gera í viðræðum við aðrar þjóðir í þessu máli.

Ég fagna því að hæstv. forsrh. skýrði þó hér frá opinberlega hvað hefði gerst í þeim viðræðum sem áttu sér stað við breta nú um helgina. Þetta hefði átt að taka fyrr upp af hálfu hæstv. ríkisstj. í stað þess að halda málinu í leynd viku eftir viku og mánuð eftir mánuð án þess að þing og þjóð fengi neitt um það að vita. Hæstv. forsrh. sagði að ríkisstj. hefði sýnt sanngirni. Ætli það sé litið sömu augum af hálfu almennings í landinu, að það sé sanngirni, eins og málum er nú komið varðandi fiskstofna á miðunum við Ísland, að bjóða 25–30% af veiðandi aflamagni á árinu 1976 erlendum aðilum eingöngu á kostnað íslensku þjóðarinnar? Ég held að það sé engin sanngirni. Það er í raun og veru miklu meira en glæfraskapur. Það er varla nógu sterkt til orða tekið að kalla það glæfraskap.

Hæstv. forsrh. sagði líka: það stefnir ekki að samningum. — Ég vil spyrja hæstv. forsrh.: Er það álit hans að það stefni ekki að samningum við vestur-þjóðverja? Hæstv. utanrrh. hefur látið aðra skoðun í ljós. Ef það er svo, sem ég er sammála utanrrh. um, að það séu meiri líkur á samningum við vestur-þjóðverja en ekki, þá er búið að búa til grundvöllinn að samningum við breta. Ég óttast að sá grundvöllur verði búinn til í þeim viðræðum, sem nú fara fram við vestur-þjóðverja. Ég vil því ganga lengra en hv. þm. Lúðvik Jósepsson þegar hann sagðist vonast til þess að 65 þús. tonna tilboðið til breta væri lokatilboð. Ég vil vona að fyrst bretar neituðu því tilboði, þá verði það ekki tekið upp aftur, því að það tilboð, 65 þús. tonn til handa bretum, 45–50 þús tonn handa vestur-þjóðverjum ásamt öllum hinum skaranum, sem á eftir kemur og ekki verður stætt á að neita ef samið verður við þessar þjóðir, það þýðir 140–150 þús. tonn útlendingum til handa af þeim 370 þús., sem talið er að megi taka á árinu 1976. Með slíku háttalagi er hæstv. ríkisstj. að leiða Ísland inn í svo alvarlega kreppu af mannavöldum að vart finnst nokkur samlíking. Vil ég ekki fallast á að þetta sé sanngirni af hálfu hæstv. ríkisstj. Ég tel því að það sé í raun og veru ljóst í dag, a. m. k. óttast ég það, að grundvöllurinn að samningum við breta og aðrar þjóðir verði lagður í Þýskalandi á morgun.

Ég vil a. m. k. í framhaldi af þessu spyrja hæstv. forsrh., hvort hann líti svo á að samningar við vestur-þjóðverja, takist þeir, sem ég er nærri fullviss um að gerist, hvort hann sé þeirrar skoðunar að það leiði ekki meiri líkur að því að samkomulag takist við breta. Ég vil í áframhaldi af því spyrja hæstv. forsrh.: Ætlar íslenska ríkisstj. þrátt fyrir allt að standa við þetta tilboð sitt til breta eftir að þeir hafa neitað því formlega? Ef hún ætlar að gera það, þá er slíkt glapræði hér á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstj., sem hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslendinga sjálfa.

Ég ætlaði ekki að verða fyrstur til þess hér að ræða um þær skýrslur, sem landhelgisnefndin hefur fengið frá hæstv. ríkisstj. vegna samningaviðræðna. En nú hefur það gerst að meira að segja hæstv. forsrh. hefur rætt hér um innihald og efni í þessum skýrslum, þannig að ég tel mig þá óbundinn af þeim trúnaði sem um var talað að skyldi vera varðandi þessar skýrslur. En ég ætla ekki að þessu sinni að gera það sérstaklega að umræðuefni, en því miður finnst mér að hæstv. ríkisstj. hafi haldið svo á þessu máli að jafnvel landhelgisnefnd, sem átti að vera samnefnarinn í málinu, hefur verið allt of óvirk og tiltölulega lítið tekin með inn í það spil sem átt hefur sér stað varðandi landhelgina. Það kveður svo rammt að því hvernig íslenska ríkisstj. hefur haldið á þessu máli að aðalmálgagn hennar, Morgunblaðið, er nú farið að taka upp ásakanir í hennar garð vegna þess hvernig hún hefur haldið á þessu máli. Hver skyldi hafa trúað því fyrir nokkrum víkum eða mánuðum að Morgunblaðið brýndi hæstv. ríkisstj. með því að hún ætti að setja það skilyrði fyrir viðræðum við breta að þeir tækju alla sína togara út fyrir íslensk fiskveiðimörk ef á annað borð ætti að ræða við þá? Það gengur svo langt í þessu máli, vinnubrögð hæstv. ríkisstj., að hennar dyggustu stuðningsmenn geti ekki unað því lengur.

Herra forseti. Ég skal ekki tala lengur að þessu sinni. Ég taldi til þess fullkomna ástæðu að vekja máls á þessu hér vegna þess sem gerst hefur, og það hefur sýnt sig að til þess hefur verið fullkomin ástæða. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstj., þó að seint sé, sjái að sér í málinu og láti ekki leiðast öllu lengra en nú er orðið út á samningsbrautina. Hún hefur nú til þess tækifæri vegna neitunar breta að taka ekki upp tilboð þeim til handa varðandi veiðiheimildir. Ég vona að það takist ekki samkomulag við vestur-þjóðverja, og þá er stundin til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að taka á sig rögg og afneita því að gera neina samninga við erlenda aðila um veiðiheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu sem allir yrðu á kostnað íslendinga sjálfra.