18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur endurtekið það sama sem hann sagði hér fyrr, að það væri ekki rétt, sem breski ráðh. fullyrti um tilboð íslendinga í viðræðunum, íslendingar hefðu ekki fyrir um 3 vikum gert bretum tilboð um 65 þús. tonna aflamagn eða slíkt tilboð hefði ekki verið gefið af hálfu ríkisstj. En ég tók eftir því að hæstv. ráðh. sagði að það yrði hins vegar að gera verulegan mun á tilboði frá hálfu ríkisstj. og samningamanna hennar og því sem fram kynni að hafa komið hjá sérfræðingum og embættismönnum sem fjallað hefðu um málið. Og hann sagði í þeim efnum að hjá þeim hefðu komið fram margar tölur. Ég gat ekki skilið mál hæstv. forsrh. á annan veg um þetta atriði en að honum hafi verið kunnugt um það að sérfræðingar og embættismenn okkar hafi rætt við breta fyrir um það bil 3 vikum um þessi mál og þar hefðu komið fram þessar og aðrar tölur. En eftir sem áður vildi hæstv. forsrh. halda sér fast við að hér hefði ekki verið um neitt formlegt tilboð að ræða af hálfu ríkisstj. og það eigi að gera hér verulegan mun á.

Ég verð að segja það, að ef þetta er rétt skilið hjá mér, það sem hæstv. forsrh. hér sagði, þá er hér um að ræða nýjar upplýsingar í þessu máli sem hafa ekki komið fram í landhelgisnefnd, því að landhelgisnefnd hefur komið saman á þessu 3 vikna tímabili og það hefði þá verið full ástæða til þess að láta landhelgisnefnd fá að vita um það, hafi íslenskir embættismenn og sérfræðingar verið að fjalla um þessi mál með bretum og haft leyfi til þess að ræða um magntölur og ræða þá um þær á þann hátt að bretar hafi skilið þær tölur sem tilboð og fullyrði síðan um það á þann hátt sem þeir hafa gert. Ég verð að segja það, að mér finnst öll þessi frásögn færast nær og nær því sem gerðist varðandi fyrstu fullyrðinguna um að íslendingar hefðu gert tilboð um ákveðið magn í London, sem þá var borin til baka af íslensku ráðh., en sú fullyrðing hefur nú reynst vera rétt. Mér finnst að þessar skýringar, sem nú koma fram, færist mjög í áttina til þess sama, að það er ekki með öllu rangt sem breski ráðh. segir, að þeim hafi verið boðin 65 þús. tonn, hafi það verið svo að slík tala hafi komið fram á þann hátt að mátti skilja hana sem tilboð af hálfu embættismanna og sérfræðinga sem fjölluðu um málið. Þetta tel ég mjög gallað, hafi þetta verið. En sem sagt, það hefur ekki opinberlega komið neins staðar fram að slíkar viðræður sérfræðinga og embættismanna hafi farið fram, engar nema samanburðarviðræður fiskifræðinga okkar og breta á þessu tímabili.

En ekki meira um þetta sérstaka atriði. Hæstv. forsrh. sagði að ríkisstj. mundi gangast fyrir því að skýrsla um viðræðurnar við breta yrði birt almenningi þegar slík skýrsla væri fullunnin og einnig yrði birt skýrsla um viðræðurnar við þjóðverja þegar þeim væri endanlega lokið. Þetta er út af fyrir sig gott, að fá yfirlýsingu um þetta. En það er þó ekki þetta sem er verið að fara fram á fyrst og fremst. Fyrst og fremst er verið að fara fram á það, að á meðan þessar alvarlegu umr. standa yfir, á meðan allt er óráðið og ósamið í málinu, þá skýri ríkisstj. frá meginkjarna málsins, frá aðalatriði málsins, þannig að þjóðin fái að fylgjast með. Það á ekki að vera nein leynd yfir því gagnvart íslensku þjóðinni nú í dag hafi íslenska ríkisstj. nú þegar boðið þjóðverjum tiltekið aflamagn. Þjóðverjar vita það, og hvaða nauðsyn ber til þess að liggja á því gagnvart íslensku þjóðinni? Af hverju má hún ekki vita það, eins og hún t. d. fær að vita það nú að ríkisstj. bauð bretum 65 þús. tonn? Af hverju má ekki segja þjóðinni hvað búið er að bjóða vestur-þjóðverjum í aflamagni? Ég fór fram á að hæstv. forsrh. gæfi þessar upplýsingar hér. Mér er vel kunnugt um, að ríkisstj. hefur gert hér ákveðið tilboð um ákveðið aflamagn. En hæstv. ráðh. varð ekki við þessari ósk minni, vildi ekki gefa þessar upplýsingar enn.

Hæstv. forsrh. skaut sér líka alveg undan því að ræða það mál, hvort hann vildi á svipaðan hátt og leiðarahöfundur Morgunblaðsins draga hér strik undir og lýsa því yfir að frekari viðræður við breta færu ekki fram um þetta mál fyrr en þeir hefðu dregið allan fiskiskipaflota sinn út úr landhelginni. Hann vék sér alveg undan og vildi ekkert um þetta segja. Það getur þá alveg eins legið fyrir að það séu hafnar viðræður við breta á nýjan leik og farið að spinna við töluna 65 þús. tonn hvenær sem er, þrátt fyrir allt það sem á undan er gengið.

Ég vil einnig fara fram á það við hæstv. forsrh. að hann lýsi því yfir sem mátti skilja, það lá nærri því að maður mætti skilja það þannig, að 65 þús. tonna tilboð hefði verið lokatilboð af hálfu íslendinga. En því þá ekki að láta það koma fram? Ég bjóst ekki við því að fá hæstv. forsrh. til þess að lýsa því yfir að hann tæki þetta tilboð til baka, en sagði hins vegar, að því miður hefði þetta tilboð verið sett fram. Ég tel að það hafi verið alveg rangt, og það væri vitanlega mjög æskilegt að fallið yrði frá því. En það hefði þó verið gagnlegt, að forsrh. hefði sagt að frá þessu tilboði yrði aldrei vikið upp á við. En það fæst ekki heldur. Við höfum það auðvitað í huga að breski samninganefndarmaðurinn lét skýrt koma fram að hann hefði enn verið í þessum talnaleik. Hann fór úr 130 þús. tonnum í 120, íslendingar hefðu hækkað sig úr 50 upp í 65, hann hefði ekki viljað hreyfa sig meira í bili nema íslendingar vildu hreyfa sig. Hann gaf í skyn að hann gæti þó hugsað sér að hreyfa sínar tölur eitthvað, en vildi þá fá íslendinga líka til þess að hreyfa sína tölu. Sem sagt, er þessi talnaleikur enn í gangi?

Hæstv. forsrh. minnist heldur ekkert á það að hann mundi gera ráðstafanir til þess að koma því á framfæri í erlendum blöðum, m. a. í Bretlandi, að formaður bresku sendinefndarinnar hefði hér farið með staðlausa stafi, þ. e. a. s. skýrt algjörlega rangt frá. En auðvitað á að mæta fullyrðingum hins breska ráðh. á þann veg ef allt er hreint af hálfu íslenskra stjórnvalda í þessu máli.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að því mikilvæga atriði í málflutningi hæstv. forsrh. sem alltaf kemur fram þegar hann ræðir hér um hugsanlega samninga við útlendinga, en það er sú trú hans að við íslendingar getum ekki varið okkar landhelgi og verðum því í rauninni að lúta að því í samningum við útlendinga sem þeir svo að segja bjóða okkur vegna þess að annars bara taki þeir þetta eða taki meira. Það er þetta sem hæstv. forsrh. er alltaf að segja. Og svo er hann að reyna að nefna tölur um það, hvað þeir hafi með ofbeldisaðgerðum sínum getað tekið hér í fyrri deilum við okkur og hallar þar stórkostlega réttu máli. En ég ætla ekki að fara út í neinar þrætur um það núna. Við vitum að við höfum fengið tiltölulega stuttan tíma til þess að glíma við breta á þann hátt að við höfum lagt okkur alla fram um að verja landhelgina gegn þeim. Það fór svo að við útfærsluna í sept. 1972 kom ekkert heilt ár sem hægt er að mæla á þann hátt að við hefðum átt að halda bretunum úti allt árið. Það fór svo, það var búið að semja áður. En hitt fer auðvitað ekkert á milli mála og það veit hæstv. forsrh. mætavel, að við höfum síður en svo lagt okkur alla fram í þessum átökum við breta að gæta okkar landhelgi. Einna næst komumst við því þegar við lítum á veiðar þjóðverja, en nú hefur komið fram opinberlega af þeirra hálfu að þeir hafi á eiginlegum Íslandsmiðum ekki veitt nema í kringum 40 þús. tonn á ári, þar sem þeir veiddu árlega áður um langan tíma um 120 þús. tonn, og þetta hefur gerst þegar við vitum mætavel að við hefðum getað gert miklu betur með því að beita því afli, sem við áttum yfir að ráða, gagnvart þjóðverjum. Það liggur nú líka fyrir alveg óumdeilanlega að þekktustu skipherrar okkar í landhelgisgæslunni lýsa því yfir að þeir telji fullkomlega hægt að verja landhelgina fyrir breskum veiðiskipum og útlendum veiðiskipum ef lítillega væri bætt við gæsluna, skipum sem við eigum yfir að ráða hér í landinu nú, og þeim yrði beitt af fullu afli, og hafa þann fyrirvara einan á að komi breskur herskipafloti, þá auðvitað ráði þeir ekki við slíkt, en að öðru leyti sé það hægt. Ég held að það sé enginn vafi á því að við getum varið landhelgina, og okkur ber að gera tilraun til þess, en fara ekki þá leið sem hæstv. forsrh. virðist vilja fara alltaf, en það að byrja á að slá því föstu að við getum í rann og veru ekkert annað en lotið að samningum af því að hinir séu sterkari. Slíkt leiðir okkur auðvitað út í algjörar ógöngur.

Það er nú auðvitað eins og áður, að hæstv. forsrh. fæst ekki til að ræða um það, þannig að hægt sé að átta sig á því, hvað hann meinar hvernig hann hugsar sér að bregðast við þeim vanda sem upp kemur í fiskveiðum okkar íslendinga sjálfra ef samið er við útlendinga t. d. um það aflamagn sem ríkisstj. hefur þegar boðið og mundi leiða af boðum hennar, því að aðrir eru eftir sem á eftir mundu koma. Það dettur engum manni í hug þegar búið er að semja við bæði breta og vestur-þjóðverja, að það verði ekki einnig samið við færeyinga, norðmenn og belga, og allar líkur benda til þess, að það verði einnig samið við Austur-Evrópuþjóðir, eins og hér hefur komið fram í umr. áður. En þá kemur upp þessi mikli vandi: hvernig á þá að halda á málunum verði samið á einhverjum slíkum grundvelli? Það er í rauninni alveg gagnslaust og ekkert viðhlítandi svar að tala þá aðeins um að auðvitað verðum við að gera ráðstafanir til þess að draga eitthvað úr veiðum okkar sjálfra og reyna að hlífa fiskstofnunum o. s. frv. Þetta svarar engu nema þá að það sé meiningin að beita þessu á þann veg að skerða heildaraflamagn íslendinga um svipað magn og samið er um við útlendinga. Þá er auðvitað hægt að ná markmiðinu, sem fiskifræðingarnir hafa bent á að þurfi að gera í sambandi við minnkun á sókn í stofninn. En það þýðir að það þyrfti hreinlega að draga úr aflamagni íslendinga um um það bil 40%.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að það eru eindregin tilmæli mín nú eins og áður til hæstv. ríkisstj. að hún fari ekki að flana út í neina samninga, eins og nú er komið, enga samninga við vestur-þjóðverja heldur. Það er rétt, að það er veruleg hætta á því að verði farið að semja við þá á þeim grundvelli, sem ég veit að ríkisstj. hefur rætt um, þá leiði af því tiltölulega fljótlega samninga við breta og einnig samninga við aðrar þjóðir og þá komi upp sá hrikalegi vandi sem menn hljóta að átta sig á varðandi okkar efnahagsmál. Ég vil því enn einu sinni vara ríkisstj. við því að láta draga sig út í samningaviðræður nú við þjóðverja eða aðra útlendinga sem hér hafa stundað veiðar.