17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4454 í B-deild Alþingistíðinda. (3870)

270. mál, ábúðarlög

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að frétta það að hv. 7. landsk. þm. skyldi ekki hafa átt þess kost að heyra ræðu hæstv. landbrh. þegar hann lagði frv. hér fram. Ég taldi að sú ræða hefði verið allgóð skýringarræða við frv. Hins vegar hygg ég að það gæti hugsast að mat þm. á lengd símtals geti nú verið dálítið á reiki og það sannar þess vegna lítið lengd ræðunnar. Mér þykir þó rétt að benda hér á einstök atriði sem ég minntist ekki á áðan og hefur verið breytt frá því sem var í fyrra frv. þegar það var lagt hér fram.

Það er t.d. að því er varðar afskipti sveitarstjórnar af því að koma jörð í ábúð þegar eigandi annaðhvort getur ekki gert það eða hefur ekki á því hug, þá var það í heimildarformi í eldri lögum að sveitarstjórn hefði af því afskipti, en núna er henni gert að skyldu að krefjast þess að jarðeigandi bæti um það sem áfátt er og að öðrum kosti sæti jörðin ráðstöfun sveitarstjórnar. Þetta er sem sagt allmiklu fastar að orði kveðið og byggist á því að það er raunverulega fært að gera það þegar sveitarstjórn hefur afl að styðjast við, eins og gert er ráð fyrir með jarðalögum og sérstaklega með jarðanefnd.

Þá þykir mér rétt að koma lítils háttar að frv., eins og það var lagt fram hér áður. Þá var gert ráð fyrir því að þegar leiguliði — ég leyfi mér að nota það orð — fer frá jörð og eiganda er gert að kaupa eignir sem hann á á jörðinni, þá var það ákvæði í fyrra frv. og lögunum að tún fyrntust það hratt niður að leiguliði var að því leyti til eignalaus þótt hann hafi ræktað upp stór tún og þau væru til þess að gera nýgerð. Þetta þótti endurskoðunarnefndinni óeðlilegt og gerði ráð fyrir því að túnin fyrntust ekki, enda getum við verið vel minnugir þess, að ég hygg, að það séu enn í dag nýtt tún sem fyrst var settur á áburður fyrir fast að 1100 árum án þess að það hafi verið tætt upp. Held ég að það ætti að vera fullgóð skýring til þess að sanna það að tún fyrnast ekki svo fljótt, þó að það megi segja um sum þeirra að það megi bæta þau verulega með því að vinna þau upp að nýju.

Þá er hér eitt atriði enn sem er allveigamikið í þessu frv., en var ekki í fyrra frv., og það er að hér er skýlaust ákvæði um það að hlunnindi fylgi jörð, séu leiguliða til afnota. Það er ein undantekning sem gerð er frá því í 24. gr. þessa frv. og hún er til samræmis við laxveiðilögin, að þar er gert fyrir að það megi gera sérstakan samning um annað, sbr. 2. gr. laxveiðilaga. Það var ekki hjá því komist að gera þá undantekningu, því að við vildum ekki hrófla við ákvæðum þeirra laga hvað þetta snertir.

Eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Breytingar frá eldri ábúðarlögum fernum, sem eru sameinuð í þessu frv., eru ekki ýkjaveigamiklar þótt hér sé að vissu leyti samt styrkt aðhald að búsetu á jörðum með tilkomu jarðalaga einnig þar sem þessi tvenn lög eru samræmd.