17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4456 í B-deild Alþingistíðinda. (3876)

287. mál, vegalög

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 853 er frv. til l. um breyt. á vegalögum. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir því í vegalögum að gera vegáætlun til fjögurra ára, en frá því hefur oft þurft að breyta og sérstaklega þegar hefur verið erfitt að skipta vegafénu, sem til meðferðar hefur verið þegar vegáætlun hefur verið afgreidd, vegna þeirra verðlagsbreytinga sem hafa orðið á milli ára.

Nú er hvort tveggja til staðar, að verðhreyfingar eru allmiklar, svo sem kunnugt er, og þykir því ógerlegt að gera vegáætlun fram í tímann, og svo hitt, að það er unnið að því að endurskoða vegalögin og breyta þeim í það horf sem betur fer í framkvæmd, vegna þess að reynslan hefur sannað að núverandi gerð vegalaga hentar okkur ekki vegna þeirrar ákvörðunar sem er um hraðbrautir, þjóðbrautir og landsbrautir, en hreyfing á milli þessara brauta á sér stað eftir umferð, en ekki eftir öðrum ákvörðunum. Þetta gerir það einnig að verkum að þm., sem skipta í kjördæmi, vilja gjarnan halda sig við sín kjördæmi með þjóðbrautir og landsbrautir og þjóðbrautir, sem eru á milli kjördæma, verða því út undan þó að það séu hinir mestu nauðsynjavegir.

Á s.l. sumri skipaði ég sem samgrh. n. til þess að vinna að endurskoðun vegalaga og er í n. einn þm. úr hverjum þingflokki. Var reynt að dreifa þeim svo um landið að sjónarmið allra landsmanna kæmu þar til. Auk þeirra eru svo ráðuneytisstjórinn í samgrn., sem er formaður n., og vegamálastjóri.

Það þótti rétt að athuguðu máli, ekki síst vegna þess að ekki var hægt að koma við skiptingu á happdrættisfé við þessa vegáætlun, að skipta bara fé og gera bara áætlun fyrir yfirstandandi ár, 1976, og mun þar í meginatriðum vera byggt á því sem ákveðið var með afgreiðslu vegáætlunar í fyrra. Ég hef áður rætt þetta mál við formenn þingflokkanna hér á hv. Alþ., og hv. alþm. hafa unnið að því í dag að skipta vegafénu á milli kjördæma eftir þessum reglum.

Ég vona því, herra forseti, að þetta mál fái hér fljóta og skjóta afgreiðslu því að það þarf að afgreiða á þessu þingi og er hér til 1. umr., því að svo seint var ákvörðun um þetta tekin þegar menn ráku sig verulega á framkvæmd málsins. Ég vil því gera till. um það að að lokinni þessari umr. verði málínu vísað til hv. samgn., sem ég veit að mun verða fljót að afgreiða málið, og til 2. umr, og leyfa mér að fara fram á að það geti farið hér út úr d. sem fyrst.