17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4458 í B-deild Alþingistíðinda. (3877)

287. mál, vegalög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal verða við tilmælum hæstv. samgrh. að vera stuttorður og að þetta mál geti fengið skjóta afgreiðslu, en vildi aðeins vekja athygli á því að í útvarpsumr. komst ég svo að orði, að svo virtist sem hæstv. ríkisstj. væri stödd í holu á miðjum veginum og gæti sig lítt hreyft. Það hafa kannske margir útvarpshlustendur álitið að þetta væri í gríni talað, en það hefur nú bókstaflega ræst. Þetta frv. er sett fram til þess að koma vagninum lítið eitt á skrið aftur, en svo ömurlega er loftlítið í hjólunum að það nægir aðeins til eins árs að sjá fram á veginn um vegáætlun og er illa farið. Svo hefur verðbólgan leikíð vegáætlun grátt að úr vöndu er að ráða.

Ég impraði á því við fyrri umr. vegáætlunar, sem ráðh. kom lítils háttar inn á, að rétt væri að meta að nýju skattgjöld á bifreiðum. Ég vil enn einu sinni ítreka það, að það er raunar orðið mál allra þm. að meta upp að nýju hversu bifreiðin á að bera mikið í skatta, og ég er ekkert feiminn við að segja það, að við eigum að lækka skattgjöldin á bifreiðum og við eigum að hafa bifreiðainnflutning til landsins sem jafnastan frá ári til árs og það þýðir í raun 7500–8500 bifreiðar á ári. Ég vil miklu fremur að bensin hækki um 5 kr. eða jafnvel meira til þess að tryggja Vegasjóði lágmarkstekjur. Þetta eru bara staðreyndir sem við verðum að þora að horfast í augu við og við leysum ekki vegáætlun fyrir framtíðina nema taka öðruvísi á þessum málum.

Ég skal ekki þvælast fyrir þessu frv. Það hefur verið rakin nauðsyn þess og ég get stytt mál mitt með því að vitna í stuðning við orð síðasta ræðumanns. En ég víl aðeins undirstrika það, að þessi vegáætlun er í algerri sjálfheldu núna, og það er svo nöturlegt að eftir því sem margliggur fyrir, þá er skorin niður núna um 20 millj. verkfræðileg þjónusta á sama tíma og við heimtum meiri verkfræðilegan undirbúning undir vegagerð á Íslandi, og hún er óhjákvæmileg ef við eigum að gera góða vegi. En á sama tíma er verið að draga úr þessari þjónustu. Hér er svo ömurlega unnið að í tillögugerð. En ábyrgð á slíkum tölum og slíkum vinnubrögðum verður meiri hl. að bera einn. Við tökum ekki undir slíkt í stjórnarandstöðunni því að það eru ekki sæmandi vinnubrögð og ætti að leita annarra úrræða.

Vegáætlun sýnir 330 millj. kr. halla og 100 millj. á að jafna núna út, annað á að fara áfram. Það má alveg eins leika sér með tölur í þessu efni og segja: Geymum þennan halla og björgum honum á fjárl., alveg eins og að skera niður verkfræðiþjónustu og vænta þess að þurrt ár verði í ár. Ég bara bið fyrir hæstv. orkumálaráðh. sem sagði það vera framtíð landsins að meðan rigndi vel, þá væri nóg orka tryggð. Ef næsta ár verður líka þurrt, þá fer að verða erfitt um ýmsar virkjanir. En það er úr vöndu að ráða og þess vegna verður bæði að treysta á þurrt ár og kannske gott ár í ýmsu. En þetta frv. staðfestir aðeins það, sem við óttuðumst í stjórnarandstöðunni, að vegáætlun væri gersamlega komin í þrot vegna margra atriða er hæstv. ríkisstj. hefur ekki haft ráð á að sjá í tæka tíð fyrir.