18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

293. mál, kvikmyndasjóður

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd heilbr.- og trmrh, svara fram kominni fsp. og byggi ég þar á grg. sem rn. hefur útbúið í mínar hendur, en fsp. er svo hljóðandi :

„Hvenær má vænta þess, að hæli fyrir drykkjusjúka á Vífilsstöðum, sem staðið hefur að heita má fullbúið frá því í maí s. l. vor, taki til starfa, og hvað veldur þeim óhæfilega drætti, sem orðið hefur á því að koma þessari nauðsynlegu stofnun í fullan rekstur?“

Stofnun sú fyrir drykkjusjúka, sem verið hefur í byggingu á Vífilsstöðum undanfarin ár, átti að vera tilbúin samkv. fyrstu áætlun haustið 1974. Ýmsir erfiðleikar ollu því hins vegar að byggingarframkvæmdir drógust á langinn og var húsið að heita má tilbúið 6. júní s. l., en þá tók framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins við húsinu, en verktakar voru að vinnu í og við húsið til 23. júní s. l. Stjórnarnefnd ríkisspítalanna, sem sjá á um rekstur hússins, hefur hins vegar ekki tekið við því enn. Stjórnarnefnd hefur hinsvegar gert ráðstafanir til þess að þessi stofnun komi inn í rekstrarkerfi sjúkrahúsanna og gerði þegar á s. l. vori áætlun um hvernig það mætti verða.

Gerð hefur verið áætlun um breytingar á því fyrirkomulagi sem nú er um meðferð drykkjusjúklinga, þannig að allar meðferðarstofnanir fyrir drykkjusjúklinga koma undir eina heildarstjórn. Var í því skyni auglýst staða yfirlæknis stofnana ríkisins fyrir drykkjusjúklinga og hefur Jóhannes Bergsveinsson læknir verið ráðinn í þá stöðu. Fyrirhugað er að gerðar verði breytingar á fyrirkomulagi, þannig að stofnuð verði sérstök inntökudeild fyrir drykkjusjúklinga á Kleppsspítala, en hingað til hafa þeir verið á inntökudeild með öðrum sjúklingum spítalans, göngudeild fyrir sjúklingana og meðferðardeild verði í núv. Flókadeild og hælið á Vífilsstöðum verði notað sem meðferðarheimili til nokkurra vikna eða mánaða meðferðar. Gæsluvistarhælið í Gunnarsholti kemur síðan inn í þennan meðferðarhlekk með svipuðu fyrirkomulagi og nú er.

Það hefur verið unnið að því, að þessar breytingar gætu gengið fram, en nokkrar fyrirkomulagsbreytingar þarf að gera í Kleppsspítala svo að það geti orðið.

Það er ekki farið að ráða starfsfólk, annað en fyrrgreindan yfirlækni að deildinni að Vífilsstöðum, og eru raunar ekki til starfsmannaheimildir til þess að það fyrirkomulag, sem hér hefur verið lýst, geti gengið fram að fullu. Hins vegar hefur verið gert ráð fyrir því að reynt yrði að koma deildinni í not á þessu hausti, en vafalaust verður erfitt að fá sérhæft starfslið að deildinni.

Ráðuneytið og stjórnarnefnd spítalanna hafa lagt á það meiri áherslu að koma í not Hátúnsdeild Landsspítalans er verður fyrir hjúkrunarsjúklinga og taldi erfitt að koma í gang tveim stofnunum samtímis, enda hefur reynslan sýnt að fullerfitt reynist að koma í not einni hæð Hátúnsdeildar í senn, en þar er um að ræða 22–23 sjúklinga á hverri hæð. Þó er fyrsta hæðin komin í not og síðan væntanlega hver hæðin af annarri þar til deildin verður fullhönnuð og fullskipuð.

Svar við spurningunni er því það, að enn getur dregist nokkrar vikur að meðferðardeildin á Vífilsstöðum komist í not og er ekki hægt að segja fyrir um það endanlega enn hvenær hún kemst í full not.

Önnur atriði má einnig nefna sem hafa valdið því að deildin hefur ekki verið tekin í not, svo sem að símasamband er ekki frá deildinni enn. Það hefur dregist miklu lengur en gert var ráð fyrir að fá símatengingu í húsið og enn munu líða nokkrar vikur þar til svo verður.

Rn. og stjórnarnefnd ríkisspítalanna er ljóst að mikil nauðsyn er á því að Vífilsstaðadeildin komist í not hið fyrsta. Hins vegar taldi stjórnarnefndin jafnbrýnt að áður en deildin tæki til starfa væri búið að skipuleggja hvernig hún kæmi inn í meðferðarkerfið fyrir drykkjusjúka og tilgangslítið væri að opna deildina fyrr en fullákveðið væri um það mál.