17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4463 í B-deild Alþingistíðinda. (3881)

115. mál, íslensk stafsetning

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég segi nú eins og sumir aðrir ræðumenn hafa sagt hér á undan mér: Ég er ekki staðinn hér upp til að taka þátt í málþófi um þetta z-mál, a.m.k. ekki á þessu stigi. Ég ætla ekki að ræða málið ýkjamikið efnislega, en mig langar til að fara hér nokkrum orðum um málið, fyrst og fremst frá því sjónarmiði að nú er þingi senn að verða lokið og lítill tími aflögu til að skoða þetta mál.

Eins og kunnugt er er það hæstv. ríkisstj. sem tekur ákvörðun um það hvenær þingi skuli slitið, og heyrst hefur að ráðgert sé að slíta þingi á morgun eða á miðvikudag. Hæstv. ríkisstj. þarf að fá afgreidd fjöldamörg mál sem eru á dagskrá beggja deilda þingsins og nægir að vísa í mjög langa dagskrá sem úthýtt var í dag, og hún þarf einnig að tryggja að haldinn sé fundur í sameinuðu þingi því að þar hefur ekki verið haldinn fundur nú um margra daga skeið vegna annríkis í deildum og mjög mörg mál sem biða þar afgreiðslu. Ég get t.d. nefnt það að þar eru ýmis mál sem flutt voru í þál.- formi fyrir páska, en enn hefur ekki gefist tími til að mæla fyrir. Það er því ljóst að það eru býsna mörg mál sem þingið þarf að taka til meðferðar og þeir, sem hafa hug á að koma mörgum málum í gegn, eins og hæstv, ríkisstj. hlýtur að hafa, þeir þurfa að hyggja að því hvernig afgreiðslu mála verði hagað nú á seinustu dögum. Ég efast ekkert um það að stjórnarandstæðingar eru fúsir til samvinnu um að mál geti orðið afgreidd með eðlilegum hætti, svo fremi að hægt sé að skoða hvert og eitt þeirra nægilega, og þeir munu ekki leggja stein í götu þess að unnt verði að slíta þingi hvort heldur er á morgun eða hinn daginn. En hitt er allt annað mál, að ef farið verður að keyra á mál eins og þetta sem bersýnilega þarfnast mikillar skoðunar víð, þá leyfi ég mér að fullyrða að samvinna við marga stjórnarandstöðuþm. er úr sögunni um afgreiðslu mála hér á Alþingi.

Ég bendi á það alveg sérstaklega að þetta mál hefur allmikla sérstöðu. Þetta er í fyrsta lagi þmfrv., en ekki stjfrv., og þmfrv. þurfa að njóta meiri náðar fyrir augum þd. en stjfrv. að því leyti að þess er krafist að 3/4 þm. greiði atkv. með afbrigðum þegar leita þarf þeirra, og það liggur fyrir að þessi meiri hl. er ekki fyrir hendi hér í d. og er því miklu auðveldara að tefja afgreiðslu þessa máls heldur en ef hér væri um stjfrv. að ræða.

Í öðru lagi liggur það fyrir að hér er um illa undirbúið mál að ræða. Það eru alvarlegir ágallar í þessu máli, þannig að ef málið yrði samþ. óbreytt, þá væri það furðuleg afskræming á mörgum stafsetningarreglum sem gilt hafa hér á landi nm áratugaskeið og þarf því bersýnilega að sniða þessa vankanta af frv. Það þýðir að það þarf að senda málið aftur til Nd. ef menn vilja að Alþ. kasti ekki frá sér málunum skoðunarlaust. Ég vil bara nefna hér sem dæmi að í þessu frv., sem ég að vísu hef nú ekki hér við höndina, en hef nú fengið lánað, þar segir m.a. í 8. stafsetningarreglunni: „Í upphafi nafna af erlendum uppruna skal og rita je, t.d. Jens, Jerúsalem, Jesús“, sem sagt, ef um er að ræða önnur nafnorð sem líkt stendur á um, þá á að skrifa þau með einum bókstaf, é. Það þýðir þá

það að t.d. orðið jeppi, sem hefur öðlast nokkurt gildi í okkar tungu, ætti að skrifast héðan í frá með é, Alþ. væri búíð að lögbjóða það að ekki mætti skrifa þetta orð með öðrum hætti. (Gripið fram í: Það er af erlendum uppruna) Já, það er af erlendum uppruna, það er ekki nafn, það jafnast ekki á við Jens, Jerúsalem eða Jesús eða önnur slík sérnöfn og er þar af leiðandi ekki í þeim hópi. Þar af leiðir að um það gildir sú almenna regla sem hér kemur fram, að það á að skrifa það með é. Þetta er auðvitað bersýnilega mikill ágalli á þessu máli. Og ég er sannfærður um að ef grannt væri skoðað, þá finnast sjálfsagt fleiri ágallar á þessu máli. Telja menn fært að þingið fari að senda frá sér svo stórgallaðar stafsetningarreglur? Ætla þm. að láta standa sig að því að þeir séu að samþykkja reglur sem alls ekki standast rökræna hugsun? Að sjálfsögðu ekki. Þar af leiðir að ef Ed. ætlar að standa fast að því að afgreiða þetta mál, þá neyðist hún að sjálfsögðu til að gera breytingar á frv., leiðrétta þetta ákvæði og senda frv. aftur til Nd. og gefa þeim Nd.- mönnum tækifæri til að vaka í nokkra sólarhringa enn.

Í Þriðja lagi er á það að benda að engar umsagnir voru fengnar um þetta frv. í Nd. þegar frv. var þar til meðferðar, en nú, þegar mönnum er ljóst hvað er að gerast, þá rignir yfir þingið ályktunum frá hinum ýmsu samtökum skólamanna og íslenskufræðinga þar sem mjög harðlega er mótmælt setningu þessara laga. Dettur mönnum í hug að við hér í Ed Alþ. getum verið þekktir fyrir að afgreiða þetta mál öðruvísi heldur en menntmn. fái sæmilegt tækifæri til þess að kynna sér röksemdir þeirra sem standa að þessari viðtæku hreyfingu sem ber fram þessi mótmæli? Að sjálfsögðu dettur mér ekki í hug að hv. þm. telji ekki sóma d. vera meiri en svo að þeim detti í hug að fara að afgreiða málíð í einhverju flaustri á einum nefndarfundi eða svo. Það er í fyrsta lagi nauðsynlegt að senda þetta mál til umsagnar, í öðru lagi er nauðsynlegt að fá einstaka menn til viðræðna við n. og í þriðja lagi er nauðsynlegt að athuga nm endurskoðun einstakra ákvæða sem bersýnilega þurfa lagfæringar við. Og það verður ekki gert á einum eða tveimur dögum, það segir sig sjálft.

Í fjórða lagi er svo á það að benda að gífurlegur kostnaðarauki mun fylgja samþykkt þessa frv. og þessi vesalings ríkisstj., sem mun vist ekki mega við miklu meira en orðið er að hennar eigin sögn, þurfa að standa fyrir stórfelldum útgjöldum af samþykkt þessa frv. Ég tel því einsýnt að hv. menntmn. þurfi einnig að skoða þá hlið málsins og hún verði að leita umsagnar fróðra manna um það hve mikil útgjöld það muni hafa í för með sér að frv. þetta nái fram að ganga.

Það er ekki ofmælt, án þess að ég orðlengi það, að vinnubrögð þeirra, sem ýttu fastast á eftir þessu máli í gegnum Nd. Alþ., hafa valdið mikilli hneykslan og reiði um allt land og að þetta skuli eiga sér stað á seinustu dögum þingsins. Ég er sannfærður um að hv. þm. hér í Ed. hafa orðið varir við þessa hneykslan, og breytir þar í raun og veru engu hvaða skoðanir fólk hefur á því hvort eigi að skrifa z eða ekki. Menn furða sig á því að þegar fyrir liggur að hvert málið af öðru liggur óhreyft hér í þinginu vegna þess að ekki er tími til að afgreiða það, m.a. mjög mikilvæg dómsmálafrv., þá skuli þingið hafa tíma til þess að eyða hverjum deginum af öðrum og jafnvel heilum nóttum í að ræða um þetta mál.

Ég endurtek það sem ég sagði hér áðan, að ég sé enga ástæðu til að fjölyrða um þetta mál hér, ætla mér alls ekki að halda hér langa ræðu. Ég vil bara að það komi alveg ljóst fram að það er enginn tími til þess að afgreiða þetta mál hérna úr d. ef þingslit eiga að eiga sér stað í þessari viku og jafnvel í þessum mánuði. Ef á að fara að eyða tíma hv. d. í að ræða þetta mál á löngum fundum, þá er sannarlega brýn þörf á að ræða mörg önnur mál sem góður tími verður tekinn í að ræða. Ég ætla ekki að fara að eyða tímanum í það að fara yfir þau fjöldamörgu mál sem bersýnilega þurfa að hafa forgang í báðum d. þings og í Sþ., en ég bendi bara á að eitt af þeim málum, sem hefur verið til afgreiðslu í dag, samgönguáætlun, hefur verið afgreidd með slíku flaustri að við þm. höfum verið kallaðir á fundi með vegamálastjóra þar sem hafa verið skammtaðar 30 mínútur á hvert kjördæmi, og þetta hefur gerst á sama tíma og eru fundir hér í d., þannig að menn eru af forseta kallaðir til að gegna þingskyldum sínum og sitja á þingfundum, en síðan er ríkisstj. að standa fyrir öðrum fundum á sama tíma úti í Þórshamri. Ég efast um að þetta eigi sér nokkurt fordæmi í þingsögunni, a.m.k. ekki mörg ár aftur í tímann. Ég man aldrei eftir því að þessir fundir með vegamálastjóra, sem ævinlega eru til undirbúnings afgreiðslu vegáætlunar, hafi átt sér stað á þingfundatíma. Þeir hafa ævinlega verið haldnir á morgnana eða jafnvel á helgum degi ef mikið hefur legið við. En að það væri orðið svo þröngt um tíma að það væri ekki hægt að hnoða þeim neins staðar annars staðar niður en á nákvæmlega sama tíma og d. eru að störfum, það er einsdæmi og sýnir hve hratt og fast er keyrt. Og þegar svona stendur á, þá er á það keyrt á sama tíma að fjalla um þetta mál. Hvers vegna á þetta þmfrv. hér einhvern meiri rétt við slíkar aðstæður heldur en t.d. mál sem ég flutti fyrir tveimur mánuðum og ég hef ekki enn fengið tækifæri til að hafa framsögu fyrir? Þannig er sjálfsagt ástatt um mörg fleiri mál. Ég tel að þetta sé hreint hneyksli í vinnubrögðum og mótmæli þessum aðförum.

Ég vil bæta því hér við, að þegar ég segi að ef menn ætla að slita þingi í þessari viku, þá kemur ekki til greina að eyða frekari tíma í þetta mál, þá á ég auðvitað við það einfaldlega að í þingsköpum er minni hl. ætlaður ákveðinn réttur. Minni hl. hefur rétt til þess að neita um afbrigði, og það er alveg víst að það verður gert.

Í öðru lagi hefur minni hl. þann rétt að hann getur haldið uppi löngum umr. um mál. og það er eins víst að sú heimild verði notuð. Ég bendi á það, að þó að menn geti kannske fallist á það að hafa þessa 1. umr. ekki allt of langa, svona til þess að láta á það reyna hvort meiningin sé að keyra á þetta mál, og málið fái þar af leiðandi að fara til n. í kvöld, þá er ekki þar með sagt að menn verði jafnsamstarfsgóðir ef málið kemur aftur fyrir. Ég tel, vegna þess að ég treysti formanni menntmn. til þess að afgreiða ekki þetta mál í neinu flaustri frá n., hann hefur reyndar sagt mér að svo mundi ekki verða, að þá sé einsýnt að þetta mál geti komið frá n. á morgun, þriðjudag. Það er þá í allra fyrsta lagi á miðvikudag sem það kemur frá n. og ég mun telja það persónulega allt of skjóta afgreiðslu innan n. Við höfum haft fyrir vana í þessum n. að hafa umdeild mál af þessu tagi í margar vikur til skoðunar hjá okkur, og að sjálfsögðu er eðlilegt að eitthvað svipað sé um þetta mál. En jafnvel þó að svo fari að menntmn. samþykki að málið komi úr n. á miðvikudag, þá verður að sjálfsögðu ekki hægt að taka það fyrir til 2. umr. vegna ákvæðanna um afbrigði fyrr en í fyrsta lagi á fimmtudag, og það þýðir það að hæpið er að umr. ljúki fyrir helgi. Það er því í fyrsta lagi á mánudag eða þriðjudag — í alfyrsta lagi, með almesta hraða sem hugsast getur — að hægt er að ljúka umr. um þetta mál hér í Ed., og þá er, eins og ég segi, bersýnilega óhjákvæmilegt að senda málíð aftur til Nd. vegna þeirrar breytinga sem augljóslega þarf að gera á þessu frv.

Ég ætla svo aðeins að bæta því við hér, vegna þess að ég tel að það hafi ekki komið nægilega skýrt fram enda þótt mörgum hv. þm. sé vafalaust kunnugt um það, en við afgreiðslu málsins í Nd. áttu sér stað mjög mikil mistök sem valda því að það er mjög umdeilanlegt hvort þetta frv. hafi hlotið löglega meðferð af hálfu Nd. Ég tel, herra forseti, enda þótt ég hafi heyrt hæstv. forseta andmæla því að við séum að gera mál Nd. að umræðuefni hérna í Ed., þá verður ekki hjá því komist að nefna þetta atriði, því að það skiptir svo stóru máli um alla síðari meðferð þessa máls. En ég get upplýst hér að að lokinni 2. umr. þessa máls fór fram atkvgr. í Nd. um það hvort leyfa skyldi S. umr. þegar í stað, en eins og menn vita, þá áskilja þingsköp að ein nótt líði milli umr. að öllu eðlilegu. Við atkvgr. í Nd. greiddu 28 þm. atkv. með því að afbrigði yrðu veitt, en 8 þm. á móti, og þá lýsti forseti Nd. því yfir að afbrigði væru samþykkt. Ég vona að allir hv. þm. geri sér grein fyrir því eftir að mjög svipað hefur gerst hér í Ed., en þó með gagnstæðum úrskurði forseta, sem byggðist á því að réttilega þarf 3/4 hluta atkv. til þess að samþykkja afbrigði þegar um þmfrv. er að ræða, að þessi úrskurður var rangur, vonandi eingöngu byggður á misskilningi, en hann var rangur og umr. var því ólögleg.

Ég tel því fyllstu ástæðu til þess að koma því hér á framfæri að sú skoðun hlýtur að koma upp að meðferð Nd. á þessu frv. hafi verið ólögleg, frv. hafi ekki farið í gegnum þrjár umr. í Nd. og þó að Ed. samþykki það við þrjár umr., þá geti það ekki orðið að réttum lögum. Ég veit að vísu að um þetta geta fræðimenn vafalaust rökrætt. Ég efast nm að það sé nokkurt einasta fordæmi fyrir því hér á landi að lög hafi verið vefengd á þessum grundvelli. En í þessu sambandi skiptir ákaflega miklu máli að atkvgr. um afbrigði fór fram, hún er bókuð og koma skýrt fram á segulbandi úrslit atkvgr., 25:8 atkv., en það sem mikilvægast er, því var mótmælt að afbrigði hefðu verið samþ., því var mótmælt en forseti úrskurðaði að umr. færi fram engu að siður. Þetta er auðvitað það mikilvægasta í málinu, að þm. féllust ekki á þessa niðurstöðu, hún var umdeild á því augnabliki sem komist var að þessari niðurstöðu í Nd. Ef þm. hefðu látið þetta gott heita og hefðu sætt sig við þann úrskurð sem upp var kveðinn, þá hefði kannske málið getað horft nokkuð öðruvísi við. En svo var ekki. Ég þykist vita það að þegar fræðimenn í lögvísindum fara að rökræða þetta mál, þá kemur upp þessi spurning, hvort gildi annað um afbrigði heldur en t.d. það atriði að ekki hafi verið nægilega margir þm. mættir á þingfundi. Það er enginn minnsti vafi á því að ef þingfundur er settur og umr. hefst og það hafa ekki verið nema 15 mættir á fundi í Nd., þá er sú umr. ólögleg, og ég er sannfærður um að enginn dregur það í efa. Það getur hins vegar vel verið að menn mundu vilja rökræða það frekar hvort umr., sem neitað hefði verið um afbrigði, en hefði þó farið fram engu að síður, hvort hún kynni að vera lögleg.

Ég skal viðurkenna að um þetta má vafalaust deila og færa fram rök með og móti. En það breytir í sjálfu sér ekki eðli málsins. Eðli málsins er það að hér hafa átt sér stað mikil mistök og það hafa ekki farið fram nema tvær löglegar umr. í Nd. í staðinn fyrir þrjár. Því verður haldið fram að frv. hafi ekki verið samþykkt löglega á Alþ., og menn geta verið alveg öruggir um það að verði málið afgreitt með þessum hætti, þá munu andstæðingar þessa frv. höfða mál og krefjast þess að afgreiðsla Alþ. verði dæmd ógild. Það er fyllilega hugsanlegt að reka slíkt mál fyrir dómstólum landsins og fyllilega hugsanlegt að dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að samþykkt Alþ. á þessu frv. sé lögleysa. Afleiðingin af slíkum málarekstri, hver sem niðurstaðan verður, getur ekki orðið önnur en sú, að það verður mikil óvissa ríkjandi um niðurstöðu þessa máls og þar með þá niðurstöðu, hvort skrifa skuli z eða ekki z, um nokkurra ára skeið. Og þá geta menn verið alveg vissir um það að z verður ekki kennd í skólum á þeim tíma. Það verður þá látið allt sitja í sama farinu. Ráðh. getur ekki skorið úr og gengið frá reglugerð um þetta mál eins og till. hefur verið lögð fram um. Það er sú lausn sem hæstv. menntmrh. hefur lagt til að fundin verði í þessu máli, síðan verði lögð fram þáltill. á Alþ. því til staðfestingar, og vitna ég þar til þeirrar brtt. sem hefur verið lögð fram. Það verður engin slík lausn hugsanleg vegna þess að Alþ. verður búið að afgreiða þetta mál í þessu dæmalausa flaustri á meira eða minna löglausan hátt og menn koma til með að standa í nokkur ár í algerri óvissu um það hvað er eiginlega lög og hvað ekki lög í landinu.

Ég vil því einnig af þessari ástæðu benda mönnum á að það væri fráleitt með öllu að reyna að þvinga fram afgreiðslu þessa máls hér í Ed. Það eru ekki nema þrjár leiðir til í þessu máli: Í fyrsta lagi sú leið að samþykkt verði brtt. sem lögð var hér fram í dag og ekki þarf að kynna fyrir hv. þm. Í öðru lagi að þessu

máli verði einfaldlega vísað til ríkisstj. Og svo þriðja leiðin og kannske sú eðlilegasta við ríkjandi aðstæður, að þetta mál fái að sofna svefninum langa í menntmn.