17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4468 í B-deild Alþingistíðinda. (3884)

115. mál, íslensk stafsetning

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Vegna þessara orða hæstv. forseta, að forseti hafi endanlegt úrskurðarvald í málum af þessu tagi, þá vildi ég aðeins mega benda honum á að þetta er út af fyrir sig rétt, að forseti hefur endanlegt úrskurðarvald. En að sjálfsögðu og eðli máls samkv. á það aðeins við um vafaatriði, það á aðeins við um túlkunaratriði, þegar leggja þarf dóm forseta á mál sem ágreiningi valda og geta valdið ágreiningi. Um þau atriði, sem öllum eru ljós og hljóta að vera ljós, g forseti ekki neitt úrskurðarvald. T.d. gæti forseti ekki úrskurðað það einfaldlega að það nægði að 5 þm. væru viðstaddir þingfund svo að fund mætti setja. Þar væri um að ræða atriði sem stríddi bersýnilega gegn þingsköpum og úrskurðarvald forseta mundi ekki nægja til þess að breyta því atriði í þingsköpum.

Forseti á sem sagt ekki úrskurðarvald um atriði sem öllum eru ljós. Forseti á ekki endanlegt úrskurðarvald um það hvað einstakir þm. heita eða hvort þeir hafi þingmannsréttindi, svo að ég nefni annað dæmi. Þar er um að ræða mál sem menn hafa bara sjálfir rétt til þess að skynja með augum sínum og eyrum, og þar fær engu breytt um þótt forseti sé þessarar eða hinnar skoðunar. Forseti gæti t.d. ekki, ef hann vantaði atkv. í þingsalinn, kallað á þingvörð og beðið hann um að rétta upp höndina til þess að tryggja einhverju máli meiri hl., og ef því væri mótmælt, þá gæti forseti ekki staðið upp og sagt: Ja, ég hef hér endanlegt úrskurðarvald um það hverjir mega greiða hér atkv. og hverjir ekki. — Það segir sig sjálft að slíkt stæðist ekki lögum samkv. Og sama gildir um það að ef þingsköp áskilja að 3/4 hlutar atkv. þurfi að vera með til þess að afbrigði séu veitt og séu þessir 3/4 hlutar atkv. ekki til staðar við atkvgr., þá er gerðin ólög, þá er ekki farið að lögum og fundurinn ekki lögmætur. Ég sé ekki annað en það sé með fullum rökum hægt að líkja afbrigðum við einmitt þetta atriði. Ég veit hins vegar vel að ef menn taka sig til og fara að skoða þetta, þá geta þeir vafalaust deilt um það alllengi og svo mundi vafalaust verða ef málið kæmi til dómstóla.