17.05.1976
Efri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4469 í B-deild Alþingistíðinda. (3886)

115. mál, íslensk stafsetning

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég hef nú verið skamma hríð hér á hv. Alþ., mun skemur heldur en velflestir sem hér eru inni, hef þó haft fyrir því að lesa þingsköp og fræðast nokkuð um starfsreglur Alþingis. En það vissi ég ekki fyrr að forseti gæti úr stóli sínum úrskurðað það að lögleg sé gjörð þingfundar gegn augljósum ákvæðum í þingsköpum, — þegar kveðið er á um það ljósum orðum að til þess að veita afbrigði þurfi 3/4 hluta atkv. og á þessa 3/4 hluta skortir, þá geti forseti kveðið upp þann úrskurð að ekki þurfi nema 2/3 hluta. Það má, eins og hv. síðasti ræðumaður sagði, vafalaust ræða um þetta langt mál, en hér er greinilega um glöp að ræða. En hvað sem því líður, þá vil ég lýsa yfir ánægju minni með það sem fram kom í ræðu hv. þm. Axels Jónssonar, 10. landsk., formanns menntmn., um það hvaða vinnubrögð hann muni viðhafa í sinni n. þegar málið kemur þangað. Hann er augljóslega ekki þeirrar skoðunar að viska, vitneskja, þekking og smekkur hv. alþm. í þessari hv. Ed. skuli óvefengjanlega ráða því með hvaða hætti íslensk orð skuli stafsett á ókomnum árum hér á landi, á sama hátt og hv. formaður menntmn. Nd. virðist hafa gert — eða varaform. Þetta gleður mig, að heyra þetta álit hv. þm. Axels Jónssonar. Sjálfur leyfi ég mér nefnilega að draga stórlega í efa að þrátt fyrir prýðilegar gáfur, langt umfram meðallag, býst ég við, yfirgripsmikla þekkingu, smekk og stíl í íslensku máli, samsetningu þess, hrynjandi og hljóðan, sem mér finnst nú að vísu stundum skorta nokkuð á í máli manna hér á hv. Alþ., — þrátt fyrir það að ég efast ekki um að vitneskja þessi, menntun, smekkur og þessi næma tilfinning er öll til staðar í heilabúi hvers einasta hv. alþm. og þó sérstaklega heilabúum þessara 33 sem undirrituðu áskorunina forðum, þrátt fyrir þetta trúi ég því að við getum sótt e.t.v. staðfestingu á vísindalegum niðurstöðum þessara hv. þm., e.t.v. örlítið aukna vitneskju um það hvernig æskilegt sé að staðsetja orð þessarar fornu tungu.

Og aðeins í lokin vil ég andmæla því, eins og oft hefur verið gert áður hér í sölum hv. Alþ. undanfarna vetur, að z-an, þetta hljóðtákn, sé íslenskri tungu viðkomandi á nokkurn handa máta, að þetta hljóðtákn í málinu komi íslenskri tungu nokkurn skapaðan hlut við. En hitt hefur komið fram, það vil ég viðurkenna út af fyrir sig að skiptir dálitlu máli, að fyrir menn, sem lært hafa að nota þetta hljóðtákn í ritmáli sínu, lært það með blóði, svita og tárum, þá kann að vera dálítið sárt að sjá það fellt í gengi, að eiga það ekki lengur og geta ekki flaggað með því. Svo er með mjög mörg atriði í stafsetningu íslenskrar tungu, að þeim, sem gekk illa að tileinka sér þau í æsku, þeim má þykja sárt að verða sviptir þessari eign sinni, að geta ekki skorið sig úr í því eða státað af því í leyndum hjarta síns að hafa þó heppnast að tileinka sér þessa vitneskju. Ég læt það svo lönd og leið þó þetta séu menn sem aldrei geta orðað hugsun sína skammlaust. Ef þeir geta stafsett orðin sem þeir ætluðu aldrei að láta út af munni sér ganga eða hefðu ekki átt að gera, geta stafsett þau rétt, þá er til nokkurs unnið.

Ég vil ítreka það sem ýmsir góðir menn hafa sagt um deilu þá, sem hér stendur, að þessi undarlega umhyggja hv. alþm. skyndilega fyrir stafsetningu, — stafsetningu sem þeir hafa nú kannske svona mikið vit á eins og þeir hafa látið í ljós, hún er, séð í ljósi þeirra viðfangsefna sem þetta þing hefur við að glíma, hinni fornu, göfugu og virðulegu stofnun til skammar, til hreinnar og klárrar skammar.

Ég mun ekki að þessu sinni eyða í það tíma að ræða um innrætið sem liggur að baki málsmeðferðarinnar í Nd., ekki um hroka hinna vísu manna sem bera fram þau rök skoðun sinni til stuðnings að þeir vilji láta stafsetninguna vera eins og þeir hafi lært hana, — ég vil nú bæta við: eins og ég hef staðfestan grun um að sumir þeirra hafi ekki lært hana þrátt fyrir allt, það kynni að koma í ljós síðar. En aðeins þetta: Ég treysti því, það hvarflar ekki að mér nokkur efi um það að í þessari hv. d. mun þetta frv. fá mennilega meðferð. Skyldi það koma mér á óvart í lokin að svo yrði ekki, þá mun ég við umr. tvær, sem eftir verða, reyna að fara í gegnum nokkur rit höfuðskálda okkar til þess að við fáum að kanna það hér í d. með hvaða hætti þau hafa notað rittákn þetta í máli sinu, jafnvel, af því að ég geri nú ráð fyrir því að tími vinnist til á því sumarþingi sem þá yrði háð hér, gera á því lauslega athugun með hvaða hætti þetta rittákn er notað í máli því og góðum þýðingum sem haft er eftir sjálfum guði almáttugum í heilagri ritningu. Þetta verður yfirgripsmikið verk. Ég mun þá reyna að beita ekki mjög rómi þannig að mér endist nú erindið til nokkurrar tölu. En merkilegt má það vera og ég má þá vera orðinn öllu linari til heilsu heldur en ég hélt að ég væri ef mér ætti ekki að auðnast að komast upp í 90–100 klukkutíma.