17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4473 í B-deild Alþingistíðinda. (3892)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég flutti fyrir kvöldmatinn nokkuð ítarlega framsöguræðu um þær brtt. sem sjútvn. leggur fram einróma og gerði þar grein fyrir hverri einustu till. og aðdraganda hennar. En því miður var hæstv. sjútvrh. þá ekki staddur hér og reyndar minnir mig fyrir utan forseta einn annar dm., svo að það hafa líklega fáir heyrt þau rök sem ég flutti. Og mér finnst að sumt af því, sem kemur nú fram hjá hæstv. sjútvrh., stafi af því að hann gat ekki verið hér þá og fylgst með þeim skýringum, sem fram komu.

Það skal að vísu tekið fram að ég hafði samband við hæstv. ráðh., en var ræddum við aðeins um þau atriði sem mér var ljóst að voru kannske einna erfiðust í þessari meðferð, þ.e. í 8. gr. um „stefnt skal að“ í upphafi þeirrar gr. t.d. og fjölda sólarhringa sem heimilt er að loka með skyndilokunum. Ég gerði hins vegar hæstv. ráðh. grein fyrir því að það væru margar brtt. sem kæmu fram í i. lið þessara brtt. og um þær væri ákaflega erfitt að ná samstöðu. En minn skilningur var sá, að þar yrði það að ráðast sem sjútvn. gæti náð samstöðu um, jafnvel þótt frv. fari þá að sjálfsögðu aftur til Nd. og endaði jafnvel í Sþ. Svo hefur alltaf verið, að frv. til l. um fiskveiðilandhelgi Íslands hefur verið ákaflega viðkvæmt mál, og ég held að það hafi ekki hér á þinginu fengið þá meðferð eða þann tíma til meðferðar sem nauðsynlegur er. Það skal hins vegar tekið fram að um þetta mál hefur verið fjallað lengi og nokkrir þm., m.a. ég, hafa getað unnið að þessu máli í n. og í sjútvrn. En þar hefur margsinnis verið á það bent að þetta mál yrði að fara í gegnum hendur þm. allra kjördæma sem vitað væri fyrir fram að mundu gera við bað margar aths. Ég tel því að meðferð þessa máls í höndum sjútvn. hv. Nd. hafi verið heldur flaustursleg, miðað við þessar aðstæður, einn sameiginlegur fundur aðeins. Og ég vil upplýsa það enn, sem ég sagði í morgun, að það vakti mikla undrun okkar í sjútvn. þessarar d. þegar í ljós kom að Hafrannsóknastofnunin hafði ekkert fengið að fjalla um þetta mál eftir að það kom frá n. Fiskifélagsins og annarra aðila og til sjútvrn. þar sem gerðar voru á því ákaflega miklar breytingar. Og ég held að fiskifræðingar hafi nokkuð til síns máls þegar þeir vísa til ákvæðis í lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins þar sem skýrt er fram tekið að Hafrannsóknastofnunin skuli til kvödd í þeim málum.

Hafrannsóknastofnunin varð við beiðni þessarar n. og skilaði allitarlegri umsögn með mjög litlum fyrirvara, og það er rétt að víða eru teknar upp leiðréttingar frá þeim ábendingum. Það er t.d. áberandi að mjög víða í frv. er talað um botnvörpu, flotvörpu og dragnót, þannig að önnur veiðarfæri eru undanskilin. En hins vegar átti þetta frv. eða þessi lög, ef að lögum verður, að vera viðtækari. Það var ávallt að því stefnt að þessi lög yrðu viðtækari og næðu til fiskveiða almennt. Þannig er ljóst að í meðferð rn. á þessu frv. hefur dálítið flausturslega verið á málum haldið. En ég vil taka það fram að upphaflega frv., eins og kom frá n. sem ég kalla n, sérfræðinga, var algerlega kollvarpað, ekki einu sinni, heldur tvisvar í meðferð sjútvrn.

Ég á nú erfitt með að svara hæstv. ráðh. nema hann sé hér viðstaddur, svo að ég held — með leyfi forseta — að ég geri bara hlé á mínu máli því ég ætlaði sérstaklega að fjalla um þau atriði sem hann tók hér upp og ég hef að vísu nefnt fyrr í dag, en hann var ekki þá viðstaddur.

Ég sé að hæstv. sjútvrh. birtist aftur og þá ætla ég að — (Gripið fram í.) Það er erfitt að vera á mörgum stöðum, ég geri mér grein fyrir því.

Ég get út af fyrir sig fallist á að draga til baka ýmsar till. nú og hafa sameiginlegan fund með sjútvn. Nd. Það er að vísu bara mitt mat. En ég verð að segja það, að það var svo einróma samþykki n. þessarar d. í sambandi við 1. gr. að ég óttast að það verði ákaflega erfitt að ná samkomulagi. Niðurstaða mín eftir að hafa unnið að þessu eins og ég best get sem formaður n. og á fundum þar sem allir nm. voru hvað eftir annað staddir er sú, að þessir liðir væru einróma samþykki n. Ég gerði hæstv. ráðh. grein fyrir því að um væri að ræða margar breytingar sem yrðu erfiðar, og mér skildist að það væri hans sama skoðun og mín, að það yrði þá bara að ráðast, jafnvel þótt málið færi til Sþ.

Ég get getið þess hér að ein till. er hér flutt sem ákaflega mikilvæg, brtt. flutt af hv. þm. Jóni Árnasyni, Ásgeiri Bjarnasyni og Stefáni Jónssyni, sem ekki náðist samstaða um í n., en hæstv. ráðh, minntist ekki á hana. Mér er kunnugt um það að hún mun valda verulegum úlfaþyt, ef samþ. verður. Ég gerði grein fyrir því í n. að þetta mál hefur haft töluverðan aðdraganda í meðferð n. og hjá sjútvrn. Ég gerði grein fyrir því að í upphaflegum till. nefndar þeirrar, sem hæstv. ráðh. skipaði fyrir alllöngu, einu og hálfu ári eða svo, var gert ráð fyrir langtum viðtækari togveiðiheimildum á Breiðafirði en eru nú, t.d. innar á Breiðafirði og alveg upp að Bjargi og meðfram Bjargi út, sem er nú ekki. Jafnframt var gert ráð fyrir því að togarar hefðu heimild upp að 4 sjómílum fyrir Breiðafirðinum öllum, þ.e.a.s. frá Bjargtöngum og suður úr. Ég lagðist gegn þessu þegar ég kom í n., óskaði þá eftir því að þetta yrði fært í fyrra horf, og ég lagði jafnframt til að togveiðiheimildir yrðu takmarkaðar fyrir utan 12 sjómílur allt suður að Snæfellsnesi. En ég fékk því framgengt í þeirri fjölmennu nefnd að togveiðiheimildir á Breiðafirðinum voru færðar út aftur í fyrra horf og togveiðiheimild fyrir togara sömuleiðis, þannig að 12 sjómílna linan er færð frá Bjargtöngum nokkuð suður fyrir miðjan Breiðafjörð. Um þetta varð samkomulag og jafnframt á það bent að netasvæði var þá ráðgert og síðan framkvæmt af hæstv. ráðh. á nokkurn veginn öllu því svæði sem þá var eftir. Þar var lokað, ef ég man rétt, frá 15. febr. til 15. apríl eða þar um bil, en að vísu hefur komið fram hjá ýmsum aths. um það og menn telja að þetta sé ekki nógu langt, til 15. apríl, og ætti að vera til 15. maí. Um þetta var samkomulag, og ég get sagt það að ég lofaði togaraáhugamönnum þar, að ég mundi þar með ekki styðja brtt. um frekari hömlur togveiða á því svæði. Þetta þekkja þeir sem voru í n. Ég mun því ekki standa að þessari brtt. þótt hún væri í mínum upphaflegu hugmyndum. Og ég tel að með netasvæðunum þarna sé farin nokkur millileið. Þarna hefur sem sagt mjög verið aftur hallað á togveiðarnar, og ég vildi satt að segja gjarnan vita hvert álit hæstv. ráðh. er á þessu máli.

Ég mun verða við beiðni hæstv. ráðh. að draga til baka fyrstu till., þó, eins og ég segi, ég geri mér engar vonir um að þar náist samkomulag um — ekki minnstu vonir. Þetta er mín persónulega skoðun að vísu.

8. gr. var mjög mikið til umr., og í henni voru bæði gerðar leiðréttingar á atriðum sem ég tel að hafi verið klaufaleg. Ýmist er talað um eftirlitsskip eða gæsluskip, og við breyttum því til lagfæringar, og hins vegar neituðum við þeirri breytingu, sem mjög rík áhersla var lögð á, að fella niður „stefnt skal að“ í upphafi gr. En það skal tekið fram, að ég fyrir mitt leyti og við í n, töldum saklaust að fallast hins vegar á að „ráðh. setur sérstaka trúnaðarmenn“ og fella þar niður: „ráðh. getur sett sérstaka trúnaðarmenn“, m.a. með tilliti til þess að þar segir á eftir: „eftir því sem þurfa þykir“. Ég lít svo á að hæstv. ráðh. dæmi hvað þurfa þykir í þeim efnum svo að þetta sé í raun og veru algerlega saklaus breyting. Það er rétt að það hefur komið þarna inn: „og skipverjum eftirlits- og rannsóknaskipa þá aðstöðu“. Mér fannst þetta ekki óeðlilegt, því að vitanlega þurfa eftirlits- og rannsóknaskip að hafa alla nauðsynlega aðstöðu til þess að geta sinnt sínum erindum.

Þetta voru þær meginaths. tvær sem ráðh. gerði við þessa till., en mér skilst að hæstv. ráðh. fallist á aðrar breytingar, sem eru margar í till., orðalagsbreytingar og til bóta. Ég vona að hann leiðrétti mig ef eitthvað hefur farið þarna fram hjá mér, en þetta skildist mér að væru tvær meginaths. hans.

Í 15. gr. þótti okkur heimildin æðimikið takmörkuð þar sem segir: „heimilt að veita rannsóknaskipum og vísindamönnum leyfi til að nota botnvörpu, flotvörpu og dragnót í rannsóknaskyni.“ Þarna kemur enn einu sinni inn þessi villa sem er sums staðar í frv., að tekið er upp úr gömlum lögum sem fjölluðu um botnvörpu, flotvörpu og dragnót. Þarna er verið að gera það víðtækara, að þetta er fyrst og fremst fellt úr. Hitt finnst mér satt að segja sjálfsagt, að Hafrannsóknastofnun, okkar vísindastofnun, fjalli um slíkt ef leyfi er veitt, og ég veit satt að segja ekki betur en það sé í öðrum lögum að leita skuli umsagnar Hafrannsóknastofnunar ef erlendum skipum er veitt rannsóknaleyfi innan íslenskrar lögsögu, þannig að ég held að það atriði út af fyrir sig sé sjálfsagt og mér fyrir mitt leyti finnst gr. stórum betur orðuð þarna og réttar orðuð heldur en hún er í 15. gr. í frv.

Um Hafrannsóknastofnun og Fiskifélag Íslands í 16. gr. urðu miklar umr. satt að segja á milli fiskimálastjóra og skrifstofustjóra sjútvrn., og ég held ég verði að taka á mig þá sök að raunar varð kannske aldrei fyllilega ljóst í n., hvernig n. vildi hafa þetta. En ég tók breytinguna inn því að mér fannst viljinn vera á þá leið að rétt væri að leita til Fiskifélagsins vegna þess að hjá Fiskifélaginu, í stjórn þess, sitja trúnaðarmenn þeirra samtaka sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi við 13., 14. og 15. gr. og fiskimálastjóri lýsti því yfir mjög ákveðið að það þyrfti engin töf að verða á þeirra umsögnum. Vera má að reynsla rn. sé önnur, og mér finnst það geta verið eina afsökunin fyrir því að leita ekki umsagnar Fiskifélagsins, ef reynslan hefði orðið sú að þar hefði orðið mjög verulegur dráttur á umsögnum. En það er rétt að umsagnir í mörgum þessum málaflokkum þurfa að berast skjótt. Mér þótti ekki skrifstofustjórinn færa rök fyrir því að orðið hafi mikill dráttur á, heldur væri þetta bara óþarfi í sumum tilfellum. En ég skal einnig verða við því að draga þá till. til baka.

Mér skilst sem sagt að hæstv. ráðh. fari fram á það að við drögum til baka til 3. umr. 1., 3., 5. og 6. brtt. þótt ég sjái nú enga ástæðu til þess um 5. brtt., þá sakar ekki þótt hún fylgi með, en ég vil taka það fram: með hangandi hendi, ég held að ekki verði komist hjá því að frv. fari til Nd. að nýju og mjög líklegt að það endi í Sþ.