17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (3893)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er rétt, ég óskaði eftir því að 1., 3., 5. og 6. till. yrðu teknar aftur til 3. umr.

Út af því, sem hv. þm. spurðist fyrir um mína afstöðu til þeirrar till. sem prentuð er á þskj. 852, þá fer ég ekkert dult með það að ég er mótfallinn þeirri till. vegna þess að hún raskar veiðisvæðum annars staðar. Út af fyrir sig hefði ég ekkert á móti því að þessi breyting yrði gerð, en þessi röskun á veiðisvæðum gerir það að verkum að botnvörpuskipin sækja á tiltölulega fá svæði.

Ég er ekkert að óska eftir því að þessum till. sé frestað, þær komi til atkv. Það verður, eins og ég sagði, að ráðast hvað verður ofan á. Það fær enginn þm. og ekki heldur sjútvrh. allt sitt fram eins og hann helst vill. Það er margt í þessu frv., sem ég hef ekki gert að umræðuefni, sem ég fyrir mitt leyti hefði viljað hafa öðruvísi. En það, sem fyrir mér vakir með þessari beiðni, að menn taki till. aftur til 3. umr., er að reyna til hlítar að ná samkomulagsleið við Nd. ef hægt er að komast hjá því að frv. þyrfti að takast fyrir í Sþ. Mér er alveg ljóst að þetta frv. fer aftur til Nd. því að það verða gerðar á því breytingar. Hitt væri betra og líti betur út ef það væri hægt að ná slíku samkomulagi. En til þess að ná samkomulagi verða báðir aðilar að slá af, og ég fyrir mitt leyti skal gera mitt ítrasta til þess að það verði reynt að ná samkomulagi á milli deildanna, en þá auðvitað verða menn að gera sér ljóst að það er ekki hægt að fá allt sitt fram.