17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (3894)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð. — Ég held við nánari athugun að sjútvn. Ed. hafi ekki gert þær breytingar sem feli það í sér að allt þurfi að fara á annan endann í Nd. Vissulega hefðu þeir mátt kalla til fulltrúa frá Hafrannsóknastofnun, einn eða fleiri fiskifræðinga, og ræða málið alvarlega við þá, því að það vissu allir sem komu nálægt undirbúningi þessa frv. að meginþátturinn í gerð þess var að hafa nána samvinnu við vísindamenn okkar og gera lágmarksátak í því efni að tryggja aukna friðun og skipulegri sókn. Og ég vil þakka formanni okkar n. í Ed. fyrir mikið starf og mikinn vilja til að ná saman. Eins og þetta álit okkar ber með sér, þá stóðum við allir að því eftir miklar umr. og mikið starf af hans hendi og fleiri embættismanna sem komu til okkar á fundinn. Og ég kalla það hreinlega sagt nálgast hótfyndni af einhverjum örfáum mönnum í Nd. ef þeir hleypa málínu núna í hnút. Það er ekkert nema hótfyndni og illska og ég skil ekki þann hugsunarhátt sem liggur þar að baki, hreinlega sagt: ég skil hann ekki. Þess vegna finnst mér ástæðulaust annað en við getum afgreitt málið núna hér í Ed.

Það hefði jafnvel mátt orða sumt upp í frv. því að með einhverjum hætti er ekki góð íslenska í sumum gr., af því að við erum nú alltaf að tala um íslenskt mál hér í sambandi við annað frv. Ég vil aðeins tilnefna eitt dæmi sem sýnir það að við ræddum um að breyta íslensku máli á frv. á betra veg. Í 6. gr. segir, með leyfi forseta: „Er rn. heimilt með tilkynningu að banna allar togveiðar.“ Þetta er ekki íslenska að mínu mati og okkar fleiri, þetta er ambaga og á ekki að sjást í lögum. Að mínu mati á að standa: „Rn. tilkynnir bann“ o.s.frv., ekki svona ambaga. Þetta fer í gegn, það má ekki breyta neinu, það er ekki tími til að skrifa frv. einu sinni á gott íslenskt mál. Margt fleira gæti ég tínt til. Það má ekki laga neitt, það má ekki breyta neinu, þá snertir það einhverja, en við berum ábyrgð á hlutunum.

Þessa setningu: „Ráðh. setur sérstaka trúnaðarmenn um borð í veiðiskip, eftir því sem þurfa þykir“, telur hæstv. ráðh. fullharða og erfitt kannske að framfylgja. Og einnig stendur: „og er skipstjórum veiðiskipa skylt að veita eftirlitsmönnum þessum og skipverjum aðstoð og aðstöðu“. Það er nú skylt í öllum öðrum lögum. Þar sem löggæslumenn þurfa að fá aðstöðu, þá hafa þeir aðgang að öllu ótiltekið samkv. heiðarlegu og eðlilegu starfi þeirra. Og það er alveg tilgangslaust að setja lög um eitthvað eftirlít ef menn eiga ekki að fá eðlilegan aðgang, og ég get ekki ímyndað mér að þessir sérstöku trúnaðarmenn ríkisins og eftirlitsmenn fari að verða með einhver læti og vitlausar kröfur um borð í veiðiskipi. Ég tel að þessi gr. feli í sér þá nauðsyn fyrir þessa menn að það sé hægt að mæla fisk, það sé hægt að skoða fisk á dekki og eitthvað þess háttar eða í skjóli einhvers staðar á skipinu, það er sú aðstaða sem nauðsynlegt er að láta í té, en að mennirnir eigi að fá þarna fæði og svefnaðstöðu og þar fram eftir götunum og margt fleira, það dettur engum manni í hug. Ég get ekki ímyndað mér það. Ef sérstakur maður er sendur um borð, þá er sett um það ákveðin reglugerð, og það er allt annað. Um það mun hæstv. ráðh. fjalla þegar þetta er orðið að lögum. En hann hefur það alveg á valdi sínu hvað hann setur marga slíka menn um borð, og ég þakka honum fyrir það að hann vilji ákveðið reyna að leysa þennan vanda með sérstök eftirlitsskip. Ég hef sagt það hér áður, ég tel að þau þurfi ekki að vera stór og það sé hægt að komast í gegnum það tiltölulega ódýrt með fiskibátum, einum eða tveimur til að byrja með. En landhelgisskipin eru svo ofboðslega dýr í rekstri að þau þjóna allt öðrum tilgangi heldur en þessi gr. felur í sér að mínu mati og okkar margra annarra sem höfum komið nálægt undirbúningi þessarar löggjafar.

Þegar á aðrar breytingar er litið, eru þær tiltölulega lítilvægar og eðlilegt að þær séu gerðar. Viðmiðunarstaður nr. 38 þótti ekki góður við nánari athugun og var talið betra að halda sig eingöngu við Malarrif vegna þess að sjókort eru ekki einu sinni til það nákvæm og þessi staður var alls ekki á mörgum þeirra og hefði komið þess vegna sumum skipstjórnarmönnum í nokkurn vanda. Það má segja að við hefðum getað prentað ný kort í snarheitum og komið þeim út. En ætli einhver hefði þá ekki skotið sér undan með því að hann hefði engan viðmiðunaratað á kortinu að bera við og þess vegna bara fór hann inn fyrir. Þetta skiptir sáralitlu máli og þessi breyting okkar er til þæginda fyrir skipstjórnarmenn og því ekkert til að steyta á steini yfir.

Ég held að skýringar formanns okkar og frsm. hafi verið það fullnægjandi og góðar að það sé leikur einn að afgreiða þetta og hótfyndni ein hjá einhverjum mönnum í Nd, að hóta upphlaupi á þinginu vegna breytinga okkar, en formaður okkar á miklar þakkir skilið fyrir mikið starf til að koma þessu saman.