17.05.1976
Efri deild: 119. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4484 í B-deild Alþingistíðinda. (3907)

287. mál, vegalög

Frsm. minni hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Álit minni hl. n. eða álit mitt hefur enn ekki verið vélritað, mun vera í vélritun núna, en til þess að spara dýrmætan tíma mun ég nú mæla fyrir því eigi að síður, það mun komast á borðin til ykkar innan nokkurra mínútna, að ég vænti.

Það er skoðun mín að ef við athugum vegáætlunina sem þegar hefur verið gengið frá, þá sé hér um að ræða samþykkt á lögbroti öllu fremur en breytingu á lögum. Það er skoðun mín að ríkisstj., sem hefur komið málefnum Vegasjóðs í slíkt horf að hún hlýtur nú nauðug viljug að brjóta lög, eigi það ekki skilið að haldið sé hlífiskildi yfir henni eða öllu heldur hylmað yfir með henni á þennan hátt af hv. Alþ., heldur eigi að biðja hana um að bera sjálf í landa sinn í þessu efni og myndast nú við að koma málefnum Vegasjóðs í það horf að hún geti haldið lög.