18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

301. mál, áætlanagerð Framkvæmdastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson) :

Herra forseti. Eins og þingheimi er kunnugt hafa í haust farið hér fram langar umr. um Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeim er ekki enn lokið, þótt forsetar Nd. hafi séð ástæðu til þess að fresta umr. um það mál að sinni. Þær umr. hafa hins vegar fyrst og fremst snúist um stjórnunarþátt þessarar stofnunar, en inn í þær umr. hafa einnig blandast aths. og skoðanaskipti um áætlunargerð á vegum þessarar stofnunar. Ég og aðrir, sem í þessum umr. hafa tekið þátt, hafa lýst þeirri skoðun að þessi þáttur starfseminnar, áætlunargerðin, sé e. t. v. einhver veigamesti og jákvæðasti þátturinn í starfsemi þessarar stofnunar til þessa. Hins vegar hefur mjög skort á að ítarlegar upplýsingar hafi komið fram um það, hvar hinar ýmsu áætlanir eru á vegi staddar, og ég hef talið nauðsynlegt til þess að fá grundvöll fyrir ítarlegri umr. um þetta áætlunarhlutverk Framkvæmdastofnunar ríkisins að upplýst yrði til viðbótar þeim upplýsingum, sem fyrir hendi eru um þær áætlanir sem lokið er, hvar á vegi hinar ýmsu áætlanir, sem stofnuninni hefur verið falið að gera, væru staddar, vegna þess að það hafa heyrst um það ýmiss konar frásagnir, að jafnvel allverulegur hluti þeirra áætlana, sem stofnuninni hefur verið falið að sinna, væri enn á frumvinnslustigi og allsendis óvíst væri hvenær þeim yrði lokið. Hins vegar eru hundruð, ef ekki þúsundir landsmanna, sem þessar áætlanir snerta, fullir áhuga á því að þessari áætlunargerð verði lokið sem fyrst, enda eru þau fjölmörg, byggðarlögin í landinu sem telja að þessi áætlunargerð sé grundvöllur að framtíðarþróun sinna byggðarlaga.

Til þess að fá þessar upplýsingar skýrt og skorinort fram og hafa þannig grundvöll fyrir áframhaldandi umr. um þann þátt í starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins sem ég tel einna veigamestan, þ. e. a. s. áætlunargerðina, hef ég borið fram eftirfarandi fsp. til hæstv. forsrh.: Hve margar og hvaða áætlanir hefur Framkvæmdastofnun ríkisins verði falið að gera frá upphafi starfsemi stofnunarinnar? Hvaða áætlunum hefur Framkvæmdastofnun ríkisins lokið? Hvaða áætlanir eru nú á vinnslustigi og hvenær er áformað að ljúka þeim? Hvenær er áformað að ljúka þeim áætlunum, sem ekki eru komnar á vinnslustig? Hve marga viðbótarstarfsmenn þarf Framkvæmdastofnun ríkisins til þess að geta lokið fyrir 1980 þeim áætlunum sem henni hefur þegar verið falið að gera? — Það hefur stundum heyrst í umr. um þessa stofnun að það skorti bæði starfsmenn og nægilega menntaða starfskrafta til þess að geta sinnt sem skyldi þeirri áætlunargerð sem stofnuninni hefur verið falið að sinna, bæði almennt og tilteknum áætlunum sem til hennar hefur verið vísað. Ég tel að mjög mikilvægt sé að það komi skýrt fram hvort stofnunin hefur nú yfir að ráða þeim mannafla sem þarf til þess að geta lokið þessum áætlunum á næstu árum eða fyrir lok þessa áratugs.