18.11.1975
Sameinað þing: 17. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

301. mál, áætlanagerð Framkvæmdastofnunar ríkisins

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég vil hér svara fram komnum fsp. frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og þar sem hann hefur nýlokið við að lesa þær upp, þá held ég að ég þurfi ekki að endurtaka þær, en byggi svör mín á grg. frá áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Fyrst þykir rétt að benda á að í 11. gr. l. um Framkvæmdastofnun, nr. 93 frá 24. des. 1971, segir: „Ríkisstj. skal gefa Alþ. árlega skýrslu um starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins.“ Hefur svo verið gert í apríl- og maímánuði ár hvert og hefur prentuðum ársskýrslum síðan verið dreift til alþm. og standa þær öllum til boða sem óska eftir þeim. Með vísun til þessara skýrslna verður því stiklað hér á stóru.

Varðandi fyrstu fsp.: Áætlanaverkefni stofnunarinnar eiga ýmist upphaf sitt í þál., ákvörðun ríkisstj. eða samþykkt stjórnar stofnunarinnar, en samkv. lögum skal hún ákveða verkefni í samráði við ríkisstj. Í málefnasamningi fyrri ríkisstj. var gert ráð fyrir samningu skuttogaraáætlunar, hraðfrystihúsaáætlunar og iðnþróunaráætlunar, en hin síðast greinda var þó ekki falin stofnuninni, heldur aðeins viss aðild að henni. Undirbúningur landbúnaðaráætlunar var þegar hafinn hjá Efnahagsstofnun og sömuleiðis samgönguáætlunar Norðurlands. Framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir ríkisstj. ásamt skýrslu fjmrh. sama efnis fyrir 1972–1973 voru samdar í stofnuninni skv. fyrri verktilhögun og í samvinnu við hagsýslustjóra. Landshlutaáætlanir hafa verið teknar upp í samræmi við þál. fyrir Norður-Þingeyjarsýslu, Norðurland v. og Strandir, Austurland, Vestfirði og Vesturland. Áætlunarstarf um uppbyggingu í Vestmannaeyjum hefur verið unnið fyrir stjórn Viðlagasjóðs, skv. ákvæði í þar að lútandi lögum, en sérstök Skagastrandaráætlun var fyrst unnin sem hluti Norðurlands-vestra-áætlunar. Húsnæðismálaáætlun hefur verið unnin að frumkvæði stofnunarinnar, og á þessu ári hefur verið samið við iðnrn. um hagræna úttekt orkubúskaparins. Loks er unnið að mannfjölda- og mannaflaáætlunum, auk ýmissa verkefna sem tæpast verða talin hluti heildstæðra áætlana. Alls er hér vikið að 17 skilgreindum áætlunarverkefnum.

Varðandi 2. fsp. er sagt: Auk endanlegra verkskila er áföngum náð í áætlunarstarfinu sem vert er að geta. Hraðfrystihúsaáætlun 1971–1976 var gefin út í júní 1974, en áfangaskýrsla kom út áður. Bráðabirgðaskýrsla skuttogaraáætlunar kom út í júní 1972. Landbúnaðaráætlun, fyrsta skýrsla, innlend eftirspurn landbúnaðarvara, spá um reynslu 1973–1977, kom út í sept. 1973, en skv. ákvörðun landbrh. fluttist það starf til rn., en með aðild Framkvæmdastofnunar að starfinu. Sömuleiðis var gerð iðnþróunaráætlunar falin sérstakri iðnþróunarnefnd, en með aðild Framkvæmdastofnunarinnar að starfinu. Kom skýrsla n : Efling iðnaðar á Íslandi 1975–1985, út í júní 1975. Auk þess hefur verið unnið mikið starf í stofnuninni að úttekt á horfum einstakra iðnaðargreina og er til ákvörðunar innan skamms hvernig það efni verði nýtt. Framkvæmda- og fjáröflunaráætlanir 1972 og 1973 voru gefnar út með skýrslum fjmrh. sem þegar er vikið að. Af landshlutaáætlunum kom út byggðaþróunaráætlun Norður-Þingeyjarsýslu, skýrsla og tillögudrög, í mars 1975, en endanleg áætlun er nú til staðfestingar hjá ríkisstj. Austurlandsáætlun, fyrri hluti, kom út í júní 1975. Samsvarandi fyrri hluta skýrsla um Norðurland-vestra og Strandir er tilbúin til fjölritunar. Samgönguáætlun Norðurlands var lögð til meðferðar stjórnvalda í janúar 1974, en fékkst ekki afgr. þá og var síðan tekin til endurskoðunar og fyllri meðferðar með hliðsjón af nýrri framvindu þeirra mála. Þeirri endurskoðun er nú lokið og er verið að ganga frá skýrslu þar að lútandi til stjórnvalda. Enn fremur mega áætlanir um mannfjölda og mannafla eftir atvinnugreinum og landshlutum og um þróun húsnæðisþarfar teljast fullgerðar og er unnið að frágangi þeirra til birtingar.

Varðandi 3. fsp. er sagt: Á vinnslustigi eru þannig þær landshlutaáætlanir, sem áður greinir, aðrar en Norður-Þingeyjarsýsluáætlun, og auk þeirra fiskiskipaáætlun, úttekt orkubúskapar og framhaldsverkefni á svíði iðnþróunar- og landbúnaðaráætlana, svo og um byggingarstarfsemi í framhaldi húsnæðisáætlunar. Raunar kalla fullgerðar áætlanir einnig á framhaldsverkefni. Hefur verð svo um hraðfrystihúsaáætlun og er áformað að verði um Norður-Þingeyjarsýsluáætlun svo að dæmi séu tekin. Áformað er að ljúka öllum þessum áætlunum á árinu 1976 eða fyrri hluta árs 1977, þ. e. þeim er síðast var hafið starf við.

Að öðru leyti segir svo Bjarni Bragi Jónsson, forstöðumaður áætlunardeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins: Um ákveðin áætlunarverkefni, ókomin á vinnslustig, er tæpast að ræða þar sem stjórn stofnunarinnar hefur ekki tekið endanlegar ákvarðanir þar að lútandi. Af sömu ástæðu fellur niður svar við 5. lið fsp., þ. e. um viðbótarstarfsmenn til að ljúka þessum áætlunum fyrir árið 1980.