17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (3968)

239. mál, Orkubú Vestfjarða

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var flutt í Ed. og var samþ. þar með nokkrum breytingum. Iðnn. þessarar hv. d. hefur athugað frv. og var n. sammála um að samþykkja það með nokkurri breytingu. Tveir hv. nm., hv. þm. Benedikt Gröndal og hv. þm. Vilborg Harðardóttir, flytja sérstaka till. og skrifa undir álitið með fyrirvara. Aðrir nm. áskilja sér rétt til þess að fylgja brtt. eða flytja brtt.

Breyting sú, sem n. varð sammála um að flytja, er við 15. gr. og er lagt til að 15. gr. orðist eins og sjá má á þskj. 823.

Þetta frv. er allmerkilegt að því leyti að það fer inn á nýja braut í orkumálum. Í fyrstu var það flutt með ákvæði sem skyldi ákveða að setja á stofn orkufyrirtæki er nefnist Orkubú Vestfjarða. En í Ed. var þessu breytt í heimild fyrir hæstv. ríkisstj. og er vitanlega miklu eðlilegra að hafa þetta í heimildarformi. Þá gefst hæstv. ríkisstj. tækifæri til þess að kanna þetta mál betur og athuga hvort það er hagkvæmt að fara inn á þessa braut. Vitað er að ekkert verður úr því að þetta Orkubú Vestfjarða verði stofnað í því formi, sem frv. fer fram á, nema fullt samkomulag verði milli ríkisstj. og vestfirðinga. Það má vel vera að það takist, og það má einnig vel vera að það geti orðið til hagræðis fyrir vestfirðinga að fara inn á þessa braut. Reynslan mun skera úr því.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara fleiri orðum um þetta mál. Frv. skýrir sig sjálft og þær brtt. sem við það hafa verið gerðar.