17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4496 í B-deild Alþingistíðinda. (3978)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. fjallaði um frv. til l. um breyt. á l. nr. 26 frá 16. nóv. 1907, um skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda. Frv. þetta er flutt af Ingiberg J. Hannessyni, hv. 2. þm. Vesturl., sem hér sat á þingi um tíma í vetur. Frv. á rætur að rekja til samþykktar Kirkjuþings árið 1972. Það er flutt til þess að setja nánari ákvæði um störf sóknarnefnda og safnaðarfulltrúa og afmarka starfssvið þeirra, auk þess að stytta kjörtímabil þeirra til samræmis við ríkjandi venjur.

Frv. þetta var lagt fyrir hv. Ed. og samþ. þar með nokkrum smávægilegum breytingum. Í 2. gr. var sett inn „má“ í staðinn fyrir „skal“, sem er til bóta, og nokkrar breytingar á kosningafyrirkomulagi í 3. gr. og bætt við þar einni setningu: „Kosningar skulu vera óhlutbundnar“. Þessi regla er sett þarna að till. rn. til þess að hafa einhverja ákveðna reglu við að styðjast í þessum efnum.

Frv. var í menntmn. Ed., en í Nd. hefur allshn. fjallað um það og er það ekki talið skipta máli. En í n. varð ekki eining. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. óbreytt eins og það var afgreitt frá Ed., það eru 4 af 7 nm., en væntanlega mun minni hl. gera grein fyrir sínu máli.