17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4498 í B-deild Alþingistíðinda. (3981)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem hv. frsm. minni hl. sagði áðan. Ég hef kvatt mér hér hljóðs eingöngu til þess að leggja áherslu á orð hans og afstöðu okkar. Ég mótmæli því að þetta atriði um fyrirkomulag kosninganna hafi fengið nægilega umfjöllun á þinginu. Þegar það kom til Nd. frá Ed., þá fórum við að afla okkur upplýsinga um hvernig stæði á því að Ed. hefði bætt þessu atriði inn í og þá kom í ljós að frv. hafði ekki verið sent neinum til umsagnar nema dóms- og kirkjumrn. og biskupsskrifstofu, þ.e.a.s. það var sent til umsagnar æðstu mönnum kirkjunnar og æðstu stofnunum kirkjunnar, en ekki leitað álits hjá öðrum. Það hefði vitaskuld átt að senda þetta til héraðsfunda og til Prestafélagsins t.d. og jafnvel fleiri aðila. Og það er ekki fullnægjandi að bera það á borð fyrir Alþ. þm. geti treyst því að einhverjar stofnanir hafi áður fjallað um þetta. Við höfum enga tryggingu fyrir því og getum ekki sannreynt það. Nefndir Alþ. verða sjálfar að leita sér upplýsinga um afstöðu almennings til frv. sem hér eru á dagskrá.

Ég ætla ekki að fara að gagnrýna þm. Ed.,en það var ekki hægt að fá fram hjá þeim nein rök eða ástæður fyrir því að n. hefði sett þetta inn aðrar en þær, að þeim hefði verið bent á að það vantaði ákvæði um hvernig kosning skyldi fram fara. Það er alveg rétt, það ákvæði vantaði. En það er ekki þar með sagt að það þurfi ekki umr. við eða umhugsunar hvernig kosningar skuli fara fram. Það er ekki rétt að ákveða að þær skuli vera óhlutbundnar án þess að geta fært fram nein rök fyrir því hvers vegna þær eigi endilega að vera óhlutbundnar, en ekki hlutbundnar.

Ég tel að þetta mál þurfi miklu meiri athugunar við en það hefur fengið, og með hliðsjón af því, sem fram kom í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar, að nú er mjög knúið á um að samþykkja að prestskosningar skuli niður falla og vald sónkarnefnda verður þá væntanlega gríðarlega mikið, þá tel ég óverjandi fyrir Alþ. að fara að samþykkja ákvæði sem þetta að óathuguðu máli, — ákvæði sem við minni hl. teljum að muni mjög skerða lýðræðið. Hefði verið betra að láta vanta ákvæði um kosningafyrirkomulag í frv. heldur en dengja þessu inn eins og málum er háttað.