17.05.1976
Neðri deild: 112. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4499 í B-deild Alþingistíðinda. (3982)

161. mál, skipan sóknarnefnda og héraðsnefnda

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Vestf. áðan.

Ég held að það fari ekkert á milli mála að ef menn ætla að hafa lýðræðisreglur í heiðri í sambandi við kosningu á nefndum, ráðum og stjórnum, þá er það best gert með því að veita öllum áhrif til þess að koma skoðunum sínum á framfæri í kosningum. Það er auðvitað ekki gert ef málum er þannig hagað, eins og hv. þm. Páll Pétursson lýsti hér áðan, að einfaldur meiri hl. eða jafnvel samstæður minni hl. getur ráðíð öllum sóknarnefndarmönnum eða ráðsmönnum eða stjórnarnefndarmönnum í stjórn eða ráði sem kjósa á, svo að það er aldeilis ekki rétt hjá hv. 4. þm. Vestf. að óhlutbundin kosning tryggi lýðræði hefur en annar háttur sem á kosningu er hafður.

Þá er það einnig mikill misskilningur hjá hv. þm. þegar hann segir á þá leið, að ef samþykkja eigi till. okkar um að skilyrði um óhlutbundna kosningu verði fellt úr frv., þá sé verið að taka upp einhvern hátt sem ekki hafi áður verið hafður. Þvert á móti hefur þetta verið þannig í lögum um sóknarnefndir, að viðkomandi sóknir hafa ráðið því sjálfar hvernig þær haga sínum kosningum, og það er náttúrulega langeðlilegast og lýðræðislegast að þeir, sem mynda ákveðin félagssamtök, hverju nafni sem þau nefnast, fái að ráða því sjálfir hvaða reglur þeir setja sér um kosningar í trúnaðarstöður.

Þá er einnig ástæða til þess að henda á það, sem að vísu hefur verið nokkuð að vikið áður, að í raun og veru kom hvorki fram á fundi allshn. þessarar hv. d. né heldur, að því er við gátum fengið séð, nm. í allshn. a.m.k. þeir sem minni hl. skipa, að komið hafi fram hjá menntmn. í hv. Ed. hvers vegna eigi að taka þann hátt upp að kosningum sóknarnefnda skuli endilega vera þann veg hagað sem gert er ráð fyrir í till. meiri hl. Það eina, sem kom fram í því sambandi, var að dómsmrn. benti á, að það mætti teljast óeðlilegt að engin ákvæði um kjör sóknarnefnda væru í þessum tilgreindu lögum, og setti fram sem lauslega hugmynd að e.t.v. væri eðlilegast að hafa þann hátt á að þær kosningar væru óhlutbundnar. Hins vegar fengum við í allshn. Nd. það alls ekki fram, hvorki á fundum okkar né í viðræðum við menn úr menntmn. hv. Ed., hvaða röksemdir væru fyrir því, annaðhvort af hálfu Ed. eða af hálfu dómsmrn., að þetta ætti einmitt að vera svona frekar en einhvern veginn öðruvísi, eða þá að menn réðu þessu sjálfir. Það kom raunar ekki fram nein röksemd á fundum n. um þetta mál, hvers vegna ætli endilega að hafa þennan kosningahátt á. Og ég tek það fram að í skriflegri umsögn dómsmrn. er skoðun rn. ekki heldur rökstudd, heldur sett fram sem eins konar lausleg hugmynd.

Að þessu öllu athuguðu tel ég ekki réttmætt að setja í lög þessi ákvæði sem ég hef gert hér að umræðuefni og þá síst þegar þeir aðilar, sem eiga að undirgangast þessi ákvæði, hafa ekki fengið tækifæri til þess að hafa neitt um það að segja eða fjalla að einu eða neinu leyti um þetta eða þeim gefið tækifæri til þess að koma hugmyndum sínum og sínum skoðunum á framfæri um þennan ákveðna, takmarkaða þátt þessa frv.