19.11.1975
Neðri deild: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

64. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Flm. (Ellert B. Schram) :

Hæstv. forseti. Á þskj. 69 hef ég leyft mér að bera fram frv. til l. um breyt. á l. frá 1966, um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Þetta mun vera í þriðja skipti sem ég ber fram þetta frv., og vonast ég nú fastlega til þess að það nái fram að ganga og fái afgreiðslu í hv. deild.

Frv. felur í sér breyt. á 2. gr. laganna á þann veg að við gr. bætist ný málsgr., svo hljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. er heimilt að kveða svo á í kaup- og verksamningum um hús, húshluta eða önnur skyld mannvirki, sem eigi eru fullgerð á samningsdegi, en seljandi eða verksali skuldbindur sig til að afhenda fullgerð eftir minnst 12 mánuði, að sá hluti söluverðs, sem svarar til þess byggingarhluta sem ófullgerður er, skuli breytast í samræmi við breyt. á verðlagsvísitölu til afhendingardags.“

Af efni og forsendum laga nr. 71 frá 1966, um verðtryggingu fjárskuldbindinga, má ráða að höfuðtilgangur þeirra var að skapa nauðsynlegan grundvöll að verðtryggingu lánsfjársamninga. Stefnt var að því að taka upp verðtryggingu að einhverju leyti við innlánsstofnanir, fjárfestingarlánasjóði og jafnvel lífeyrissjóði. Jafnframt mun hafa verið reynt að taka af öll tvímæli um lagagrundvöll verðtryggingar. Þó að tilgangur verðtryggingarlaga þessara hafi fyrst og fremst verið sá sem að framan greinir, var þó að því er virðist gengið lengra í lagasetningunni og er orðalag 1. gr. það viðtæk að túlka má það svo að það nái yfir allt fjármunasviðið nema löggerninga á sviði kaupgjaldsmála. Reyndin hefur orðið sú að löggjöfin hefur haft verulega þýðingu á sviði lánsfjársamninga og má telja hana fyrst og fremst eðlilega og gagnlega að því marki. Á hinn bóginn hafa lögin skapað nokkra óvissu um gildi löggerninga, sem mjög algengir og mikilvægir eru í viðskiptum manna, einkum húsaleigusamninga, sölusamninga um húsnæði og verksamninga. Í þessum efnum hefur skapast áratuga hefð um vísitölumiðviðun í samningum þessum. Vil ég í því sambandi sérstaklega benda á að í lögum um Byggingarsjóð ríkisins er beinlínis gert ráð fyrir því að tekið sé mið af vísitölubreytingum.

Nú hefur hins vegar það gerst, að dreginn hefur verið í efa réttur aðila til að setja slík vísitöluákvæði inn í samninga og dómar hafa fallið m. a. í Borgardómi Reykjavíkur á þá leið að verðtryggingarákvæði í samningum eins og hér um ræðir séu ólögmæt. Ég vitna sérstaklega til dóms, sem kveðinn var upp í Borgardómi Reykjavíkur í sept. s. l., þar sem byggingaraðili höfðaði mál gegn kaupanda íbúðar þar sem gerð var krafa um greiðslu á verðtryggingu sem samningurinn gerði ráð fyrir. Er skemmst frá því að segja að dómur féll á þá leið að þetta verðtryggingarákvæði í kaupsamningnum var dæmt ólögmætt og talið að það bryti í bága við fortakslaus ákvæði laganna frá 1966 um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Þessi dómur og fleiri slíkir hafa af skiljanlegum ástæðum mjög alvarlegar afleiðingar og raska mjög þeirri venju og þeirri viðskiptahefð sem ríkt hefur á þessu sviði um langan tíma. Í þeim efnum hefur hið opinbera jafnvel gengið á undan með því að viðurkenna og setja beinlínis inn í samninga ákvæði um verðtryggingu þegar t. d. samið er um verk eða byggingar á opinberum vegum.

Nú skal ég ekki leggja neinn dóm á þann úrskurð sem kveðinn er upp af dómstólum landsins. Þó mætti viðurkenna að strangt til tekið, ef miðað er við lögin ein, standist slíkir dómar. Á hinn bóginn er auðvitað á það að líta að mjög löng hefð hefur skapast um verðtryggingarákvæði og ætti að vera eðlilegt undir þessum kringumstæðum, að nokkurt tillit væri tekið til þeirrar hefðar. Alla vega er niðurstaðan sú að ef slíkir dómar yrðu staðfestir af Hæstarétti, þá mundu þeir hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar í samningum manna á meðal og leiða til þess að mikill fjöldi einstaklinga og aðila gæti gert kröfu um endurgreiðslu á þeim verðtryggingarupphæðum sem inntar hafa verið af hendi svo og neitað að greiða þær eða standa við þá samninga sem gera ráð fyrir verðtryggingaruppbótum. Það er mitt álit að það sé heppilegast fyrir þjóðfélagið og fyrir slíka samninga og slík viðskipti að heimilt sé að verðtryggja samninga sem eru til langs tíma. Það er mjög óraunhæft að fara fram á að aðilar, sem taka að sér verk, áætli eða geti ákveðið verð á framkvæmdum sínum fram í tímann með hliðsjón af þeim öru verðbreytingum, þeirri miklu verðbólgu sem ríkt hefur og mun því miður sjálfsagt ríkja einhvern tíma enn. Þess vegna er óraunhæft að banna verðtryggingarákvæði, og ef þau verða bönnuð og dæmd ólögmæt, þá munu aðilar leita einhverra annarra ráða og hafa ýmsa möguleika á því að setja inn ákvæði í samninga sem tryggja þá gegn slíkum verðhækkunum án þess þó að það sé beinlínis orðað svo að það sé um verðtryggingu að ræða.

Ég hef tekið fram áður, þegar ég hef gert grein fyrir þessu frv., að ég lít ekki endilega svo á að túlka megi lögin frá 1966 þannig að verðtrygging sé ólögmæt. En ég hefði talið æskilegt að taka af allan vafa í þessum efnum og heimila slíka verðtryggingu. Því hefur verið haldið fram í umr. um þetta mál áður að það gæti verið andstætt hagsmunum neytenda eða þess fólks sem t. d. festi kaup á íbúðum. En þá er því til að svara að það er meiri trygging fyrir slíka einstaklinga, sem festa kaup á íbúðum, að vita nokkurn veginn að hverju þeir ganga, þannig að þeir geta reiknað með verðtryggingunni í stað þess að vera í fullri óvissu um kaupverð, endanlegt kaupverð, og þeir geta þá búist við því, ef þeir fara út í slíka óvissu, að hvort tveggja eigi sér stað, að sá, sem byggir, verði gjaldþrota, geti ekki staðið við samninga, sem hann gerir, og að sá, sem hafi fest kaup á íbúðinni, standi uppi íbúðarlaus, hafi jafnvel innt af hendi greiðslur til hins aðilans sem hann geti ekki fengið aftur vegna vanskila og gjaldþrots þess aðila.

Ég tel svo, herra forseti, óþarfa að útskýra efni þessa frv. nánar. Það hafa verið sett hæfileg mörk um lágmarkstímalengd þeirra samninga, sem hér um ræðir, og er gert ráð fyrir því að við ákvörðun verðlagsvísitölu sé hægt að styðjast við byggingarvísitölu eða kaupgjaldsvísitölu eftir atvikum og eftir efnisþáttum samningsins.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. sé málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.