19.11.1975
Neðri deild: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

68. mál, almannatryggingar

Flm. (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Ástæðan til að ég hef lagt fram þetta frv. til l. er það misrétti sem börn búa við hvað snertir meðlagsgreiðslur. Samkv. núgildandi lögum er greiðslum þannig háttað að Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki meðlag fyrr en að fengnum meðlagsúrskurði hjá sakadómi. Neiti faðir að gangast við barni dregst úrskurður og þar með meðlagsgreiðslur í a. m. k. 6 mánuði eða þar til blóðrannsókn getur farið fram í fyrsta lagi. En síðan getur málið enn dregist lengi fyrir dómstólum, og dæmi eru til að barnsfaðernismál hafi dregist allt yfir 4 ár, og reyndar hef ég nýlega fengið dæmi um það í Tryggingastofnun ríkisins að þetta geti dregist upp í 7 ár. Það er nýbúið að úrskurða meðlag með barni sem er orðið 7 ára. Það var millilandamál, móðirin fær aðeins greitt 18 mánuði aftur í tímann.

Stundum næst alls ekki til barnsföður fyrr en mörgum mánuðum og jafnvel árum eftir fæðingu barns og er þá ekki hægt að sækja um meðlag á meðan. Þá kemur fyrir að ekki tekst að feðra barn þrátt fyrir tilraunir til þess, og fellur þá í hlut ríkissjóðs að greiða meðlagið. Í öllum tilfellum fær móðirin meðlagið greitt eftir á aftur í tímann, en ekki þó lengra aftur en 6 mánuði nema til komi vottorð frá sakadómi að meðlagsúrskurðar hafi verið leitað áður en barnið náði 6 mánaða aldri. Þó má aldrei greiða meðlag lengra aftur í tímann en 18 mánuði.

Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá Tryggingastofnun ríkisins, greiðir ríkissjóður nú um 18% meðlaga eða barnalífeyris sjálfur, þ. e. a. s. það er ekki endurkræft hjá barnsföður. Þar er um að ræða um það bil 1400 böru, en mikill meiri hl. þessara barna er börn ekkna, ekkla og öryrkja og aðeins örfá sem þannig er ásatt um að ekki hefur tekist að feðra þau. Samkv. sömu heimildum hef ég fengið þær upplýsingar að slík mál muni árlega vera um það bil 10 og lágmarkstími faðernismála sé yfirleitt 2 1/2 ár, sem þýðir það sem sagt að fyrsta hluta ævinnar er ekkert greitt með þessum börnum. En satt að segja er lítið gagn að meðlagsgreiðslum og fæðingarstyrk sem ekki kemur fyrr en mörgum mánuðum og jafnvel árum eftir að barnið fæðist. Það er einmitt á meðan barnið er nýfætt og ungt sem móðirin þarf mest á aðstoð að halda, þann tíma sem hún á erfiðast með að vinna fyrir því sjálf og erfiðast með að fá barnagæslu, a. m. k. á opinberum stofnunum, ef þær þá yfirleitt fyrirfinnast í hennar lögsagnarumdæmi.

Ég fékk nýlega bréf frá ungri konu úti á landi sem eignaðist barn fyrir nokkrum mánuðum, en þar sem ekki hefur náðst til barnsföður, sem nú er við vinnu utanlands, — þetta er sjómaður, — hefur hún ekki getað fengið meðlagið greitt frá tryggingunum. Sjálf segist hún ekki efast um að hann gangist við barninu og greiði með því þegar samband næst við hann, en þangað til skal hún sem sé basla hjálparlaust. Og saga þessarar ungu konu er því miður ekkert einsdæmi. Þegar ég sagði frá henni í hóp fyrir nokkru komu strax fram tvö önnur dæmi sem fólkið í hópnum þekkti persónulega. Í öðru dæminu var um að ræða mann sem hafði verið erlendis í 3 ár og vissi enginn hvar. En af því að um var að ræða íslendinga, sem stúlkurnar gátu nafngreint, mátti ekki borga meðlagið fyrr en þeir hefðu gengist við börnunum. Það liggur við að stúlkunum hefði verið betra að eignast börnin með einhverjum óþekktum útlendingum eða að barnsfeðurnir hefðu verið frá kaþólskum löndum, þá hefði þegar í stað verið samþ. að aldrei mundi nást til þeirra og ríkið hefði strax greitt meðlagið. Hér er um að ræða mikið jafnréttismál, — ekki fyrir konur, þótt allir virðist taka sem sjálfsagt mál að þegar rætt sé um jafnréttismál, þá sé verið að tala um jafnréttismál kvenna, — en hér er um að ræða mismunun á börnum. Það eru fyrst og fremst börnin sem líða við það að hafa ekki nóga peninga til þess að lifa af.

Nú kann einhver að segja að ef leyft yrði að greiða meðlag með börnunum áður en úrskurður fengist, þá mætti kannske misnota lögin. Það er hugsanlegt að hægt væri að koma í veg fyrir slíka misnotkun með því að setja nánari reglur, t. d. um að meðlagsgreiðslur fyrir úrskurð séu háðar því skilyrði að innan hálfs árs frá fæðingu barnsins sé lagt fram vottorð frá sakadómi um að unnið sé að faðernismálinu.

Nýlega var ég á fundi hjá Félagi einstæðra foreldra og þar var samþ. áskorun á alþm. um að veita brautargengi ýmsum af þeim óskum sem þetta félag hefur verið að fara fram á undanfarið, og m. a. kemur Þar fram, með leyfi forseta: „Að fyrirkomulagi meðlagsgreiðslna verði breytt Þannig að meðlag verði greitt þegar frá fæðingu barns gegn vottorði frá sakadómi innan 6 mánaða að unnið sé að faðernismáli.“ Á þessum fundi voru staddir fulltrúar frá öllum þingflokkum. Þeir voru ekki fulltrúar þingflokksins sem slíkir, en þeir sögðu sína persónulegu skoðun á málinu og lýstu allir fylgi við þessa ósk Félags einstæðra foreldra, og ég vænti þess að aðrir þm. muni einnig veita þessu brautargengi.

Að síðustu vil ég leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og til heilbr.- og trn.