18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4516 í B-deild Alþingistíðinda. (4066)

247. mál, heimildir Færeyinga til fiskveiða innan fiskveiðilandhelgi Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim ræðumönnum, sem hafa gert grein fyrir afstöðu sinni, fyrir skýran og skilmerkilegan málflutning í stuttu máli. Það er eins og ég vissi, m.a. með hliðsjón af afgreiðslu í utanrmn., að skoðanir um þessa samninga eru nokkuð skiptar og tel ég það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt. Hv. Alþfl: þm. ætla sér að greiða atkv. með samningnum við norðmenn vegna þess hvað þar er sérstaklega skýrt ákvæði um það að íslendingar ráði þeim afla sem norðmenn mega fiska á samningstímabilinu og þetta er skýrasta viðurkenningin sem við höfum fengið á 200 mílna lögsögunni. Hv. 3. þm. Reykn. ætlar að sitja hjá við samningana við færeyinga eins og hv. Alþfl: menn, en vera mótfallnir norskum og belgískum samningum. Og hv. 5. þm. Vestf. er á móti öllum samningum. Allt er þetta eins og við var að búast, og skal ég ekki ræða frekar um það.

En hv. 5. þm. Vestf. ræddi nokkuð um landhelgismálið almennt og ásakaði ríkisstj. fyrir slælega framgöngu í því, að mér skildist. Það hefur raunar heyrst áður og kemur ekki mjög á óvart og verður hver að líta á það eins og hann hefur ástæðu til og áhuga á. En ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs er sú spurning sem hv. 5. þm. Vestf. setti fram í lok ræðu sinnar.

Ég ætla fyrst að segja það að ég hef ekki nokkra tilhneigingu til þess að bera á móti neinu af því sem hér hefur verið vitnað í ræður mínar frá því að samningarnir við vestur-þjóðverja voru staðfestir af hv. Alþ. Það er vissulega allt rétt með farið, enda skráð í þingtíðindum, að ég gerði ráð fyrir því þegar sá samningur var gerður að heimildin til frestunar þeirra samninga yrði notuð, en aðrar ástæður hafa svo valdið því að ég hef fallist á nokkra frestun. En spurningu hv. þm. um það, hvort ætlun ríkisstj. sé að bíða endalaust, vil ég afdráttarlaust svara neitandi. Ég mun nú á næstu dögum eiga viðræður við utanrrh. Vestur-Þýskalands einmitt um þessi mál sérstaklega. Að þeim viðræðum loknum og þegar ég er kominn heim mun ég gefa ríkisstj., Alþ. og landhelgisnefnd skýrslu um þær. (StJ: Þá verða alþm. farnir heim.) Þessar nefndir verða starfandi, utanrmn. starfar allan ársins hring, og landhelgisnefnd hefur verið starfhæf þó að Alþ. væri ekki á rökstólum. Ég vona að svo verði enn. Ég mun þá gefa þessum aðilum skýrslur um það hvernig þessi mál standa og þá verður tekin ákvörðun um hvort og hvenær frestunin verður látin koma til framkvæmda.