18.05.1976
Sameinað þing: 92. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4520 í B-deild Alþingistíðinda. (4084)

124. mál, rannsóknir og hagnýting á sjávargróðri

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur haft til athugunar till. til þál. um rannsóknir og hagnýtingu á sjávargróðrinum við Ísland. Leitaði n. umsagnar hjá 5 aðilum: Hafrannsóknastofnuninni, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, verkfræði- og raunvísindadeild Háskóla Íslands, Iðnþróunarstofnun Íslands og Rannsóknaráði ríkisins. Umsagnir bárust frá öllum þessum aðilum og eru þær allar jákvæðar. Er vakin athygli á því að möguleikar eru miklir á margs konar nýtingu á sjávargróðri við strendur landsins. Ítarleg umsögn er frá Hafrannsóknastofnuninni þar sem starfsemi þeirrar stofnunar á þessu sviði er rakin, m.a. vakin athygli á því að stofnunin hefur hvað eftir annað lagt til að þessar rannsóknir verði auknar, en ekki fengið til þess fjármagn.

Það er sameiginlegt með öllum þessum umsögnum að ekki er talið nauðsynlegt að setja á fót sérstaka n. í þessu skyni, heldur talið af öllum eðlilegt að fela Hafrannsóknastofnuninni að gera till. um auknar rannsóknir á sjávargróðri. Einnig er í þessu sambandi nefnd Líffræðistofnun háskólans.

Með tilliti til þessara jákvæðu umsagna og þeirrar till. að fela Hafrannsóknastofnuninni að gera till. um málið mælir n. með samþykkt till., þó þannig að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Hafrannsóknastofnuninni að gera till. um aðgerðir til að efla rannsóknir á sjávargróðrinum við Ísland, annars vegar með tilliti til uppeldisstöðva nytjafiska og hins vegar með hagnýtingu sæþörunga fyrir augum.

Skal tillögugerðinni lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Fjarverandi við afgreiðslu málsins voru Gils Guðmundsson, Guðmundur H. Garðarsson og Karvel Pálmason.