20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (409)

22. mál, viðgerðar- og viðhaldsaðstaða flugvéla á Keflavíkurflugvelli

Flm. (Jón Skaftason):

Virðulegi forseti. Á þskj. 25 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu flugvéla á Keflavíkurflugvelli. Sjálf tillgr. orðast þannig:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga í samráði við Flugleiðir hf. og önnur flugfélög, er hagsmuna hafa að gæta, á hvern hátt hagkvæmast sé að koma upp aðstöðu til viðgerða og viðhalds flugvélum á Keflavíkurflugvelli.“

Ég flutti þessa till. seint á síðasta þingi, en hún fékkst þá ekki útrædd, fór til n., en kom þaðan ekki. Ég gerði þá grein fyrir efni till. og rökstuðningi fyrir henni og get því í þetta skipti leyft mér að hafa framsöguna nokkru styttri, þó að ég sjái ástæðu til þess að bæta nokkrum atriðum við það sem ég sagði um till. á síðasta þingi.

Eins og allir hv. þm. vita hefur flugið verið vaxandi atvinnugrein á Íslandi, eins og raunar um allan heim. Hin síðari ár hefur gætt vissra erfiðleika í flugstarfsemi, bæði hér á landi og í næstu nágrannalöndum okkar, sem hefur valdið því m. a. að lendingar á Keflavíkurflugvelli hafa orðið nokkru færri nú tvö síðustu árin en þau voru árið á undan og þess vegna eru vissir erfiðleikar í þessari starfsemi. Ég hef fengið uppgefnar á skrifstofu flugmálastjóra á Keflavíkurflugvelli fjölda lendinga og tekjur af lendingargjöldum á árunum 1970–1974 og vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa þetta upp:

Árið 1970 lentu 3 294 flugvélar á Keflavikurflugvelli og þá eru ekki taldar með þær flugvélar sem þar eru staðsettar og eru á vegum varnarliðsins. Lendingargjöld af þessum 3 294 flugvélum námu þá 64.5 millj. kr. 1971 urðu þessar lendingar 3 838 og tekjur af lendingargjöldum 88.3 millj. 1972 urðu þessar lendingar 4 043 og tekjur af lendingargjöldum 95.2 millj. 1973 voru þessar lendingar 3 823 og tekjur af lendingargjöldum 104.8 millj. 1974 urðu lendingarnar 3 664 og tekjur af lendingargjöldum 121.7 millj. kr.

Ljóst er af þessum upplestri að mikið er um lendingar á Keflavíkurflugvelli, og kunnugir menn þessum málum gera ráð fyrir því að í framtíðinni muni lendingum fjölga mjög verulega sem eðlileg afleiðing af því að flugið er sú grein samgagna sem er í örustum vexti í heiminum. Keflavíkurflugvöllur er, eins og menn vita, eini alþjóðlegi flugvöllurinn í eigu okkar íslendinga og hann er að ýmsu leyti mjög vanbúinn tækjum og þá sérstaklega á því sviði sem tillgr. þessi fjallar sérstaklega um, þ. e. a. s. hvað snertir viðgerðar- og viðhaldsaðstöðu flugvéla þar.

Í sambandi við aukna starfsemi við flug hefur risið upp hér í landinu nokkuð fjölmenn og vel menntuð stétt flugvirkja sem hefur annast viðhalds- og viðgerðarstörf hér á landi, og nú eftir að erfiðleika fór að gæta í þessari fluggrein hafa sumir af þessum lærðu flugvirkjum orðið að leita sér atvinnu erlendis. Eftir upplýsingum sem ég hef fengið hjá Flugvirkjafélagi Íslands, munu nú vera um 240 útskrifaðir flugvirkjar á Íslandi, þar af munu um 200 vera í starfi við sitt fag, 145 hér innanlands, en 45 erlendis, og 10 eru starfandi í öðrum greinum. Ég þarf ekki að taka það fram að land, sem er eins staðsett og Ísland og hefur eða á að geta haft jafngóða möguleika til þess að vera lendingarstaður fyrir flugsamgöngur yfir Norður-Atlantshafið, það land þarf að eiga vel menntaða stétt flugvirkja til þess að af þessu geti orðið.

Nú er vitað að þeir 45 flugvirkjar, sem starfa nú á erlendri grund, hafa sett fram bæði við sitt stéttarfélag hér heima og við yfirvöld hér á landi ákveðnar óskir um eð þannig verði að þessari starfsemi búið að þeir geti horfið hingað til lands til að sinna vinnu sinni hér. Og það er okkur mikið metnaðarmál að geta orðið við óskum þessara vel menntuðu íslensku flugvirkja, auk þess sem það er beint hagsmunamál alþjóðar.

Ég vil þá í fáum orðum víkja að því að þörfin fyrir að gera eitthvað róttækt í þessum málum hefur m. a. vaxið mjög við það að viðgerðarskýli Flugfélagsins á Reykjavíkurflugvelli brann í janúarmánuði s. l. og þeir 100 flugvirkjar, sem þar störfuðu, eru nú á talsverðum hrakhólum með aðstöðu til að annast þessa starfsemi. Þó að þeir hafi ekki misst starfið vegna þessa, nema þá fáir, þá er sú vinnuaðstaða, sem þeir hafa fengið, t. d. í flugskýlum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, algjörlega ófullnægjandi, og ef ekki verður brugðið fljótt á það ráð að gera eitthvað í þessum efnum, þá er fullkomin hætta á því að enn stærri hluti þessarar þjónustu, sem gæti verið unnin hér innanlands, flytjist til útlanda.

Ég birti í grg. með till. þessari viðgerðar- og viðhaldskostnað íslenskra flugvéla hjá Loftleiðum og hjá Flugfélagi Íslands á árunum 1971–1974, og ég hef skipt honum í kostnað sem fellur til erlendis og fellur til innanlands. Ég skal ekki tefja tíma hv. Sþ. með því að lesa upp þetta, enda er það hv. þm. aðgengilegt, en ég vil aðeins lesa samtölur þessara kostnaðarliða þessi 4 ár: 1971 nam þessi viðgerðar- og viðhaldskostnaður Loftleiða og Flugfélags Íslands 536 millj. kr. erlendis og 113 millj. kr. innanlands. 1972 nam þessi kostnaður 511 millj. kr. erlendis og 111 millj. kr. innanlands. 1973 nam þessi kostnaður 511 millj. kr. erlendis og 140 millj. kr. innanlands. 1974 nam þessi kostnaður 608 millj. kr. erlendis og 212 millj. kr. innanlands. Það er athyglisvert í sambandi við þessar tölur að erlendur kostnaður Loftleiða er að langstærstum hluta erlendis, en Flugfélagsins að langmestum hluta innanlands, og stafar einfaldlega af því að endastöð í flugleiðum Flugfélags Íslands hefur verið Ísland, en hjá Loftleiðum hefur endastöð verið ýmist í Luxemburg eða í Bandaríkjunum. En með þeirri sameiningu, sem orðið hefur á þessum tveim flugfélögum, á að gefast betri aðstaða til þess að færa stærri hluta af þessum viðhalds- og viðgerðarkostnaði hingað inn í landið.

Auk þessa erlenda kostnaðar, sem ég hef verið að lesa upp hver verið hefur, þá hefur fyrirtækið Hagvangur hf. í okt. s. l. framkvæmt þjóðhagslegt mat á skoðunar- og viðhaldsrekstri flugvéla að beiðni Flugvirkjafélags Íslands. Þar kemur m. a. í ljós að tekjuauki íslenska þjóðarbúsins, ef við gætum flutt meira af þessari starfsemi til landsins, er þó nokkur. Niðurstaðan er í stuttu máli sú að ef við gætum skapað atvinnuaðstöðu fyrir 30 nýja flugvirkja í landinu með því að færa aukin verkefni inn í það, þá mundi það þýða 60.8 millj. kr. auknar tekjur fyrir þjóðarbúið. Ef tækist að flytja um 40 flugvirkja til starfa hingað, þá mundi það þýða 81.4 millj. kr. auknar tekjur í þjóðarbúið. Og ef okkur tækist að flytja 50 flugvirkja hingað til starfa, þá mundi það þýða 101.3 millj. kr. auknar tekjur í þjóðarbúið. Og sjálfur ríkissjóður mundi hafa þó nokkrar tekjur af þessu. Hann mundi hafa í tekjuauka af 30 nýjum flugvirkjastörfum 26.5 millj. kr. á ári, af 40 nýjum flugvirkjastörfum 35.7 millj. kr. og af 50 nýjum flugvirkjastörfum 44.2 millj. kr.

Ég sé svo ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að fara fleiri orðum um þessa þáltill. Ég vona að með þeim fáu orðum, sem ég hef sagt hér um hana og tilganginn með flutningi hennar, hafi mér tekist að sýna að nokkru leyti a. m. k. að hér er um nokkuð stórt mál að ræða fyrir íslensku þjóðina og nokkuð á sig leggjandi að setja í gang vinnu í þessu efni. Það, sem fyrir mér vakir með tillöguflutningnum, er ekki síst að í þessum atriðum verði mörkuð einhver ákveðin stefna, þannig að allir þeir aðilar, opinberir og einkaaðilar, sem hagsmuna hafa að gæta í þessu sambandi, viti að hvaða marki á að stefna, hvaða mark hefur verið ákveðið, þannig að þeir geti tekið höndum saman um hvað vinna ætti í samræmi við það takmark sem sett hefur verið.

Ég legg svo til. herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði till. vísað til hv. allshn.