18.05.1976
Efri deild: 122. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4524 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

254. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál gerði ég grein fyrir því að ég er ekki samþykkur ákvæðum frv. um skipun stjórnar Fiskveiðasjóðs. Í þessu landi hefur það smám saman þróast svo að stofnlánasjóðir, sem fjármagnaðir eru að ýmsum leiðum sem fjárveitingavaldið ákveður, sjá um stofnlán til atvinnuveganna, en ríkisbankarnir hafa hins vegar með höndum útvegun rekstrarfjár. Þessi skipting hefur orðið nokkuð ákveðin og yfirleitt eru sjóðirnir undir stjórnum sem að verulegu leyti, ef ekki öllu, eru kjörnar af Alþ. Stundum er þetta dálítið blandað, eins og t.d. í Atvinnuleysistryggingasjóði. Þar eru fjórir kjörnir af Alþ., en þrír frá hagsmunasamtökum. Yfir Stofnlánadeild landbúnaðarins er þingkjörið bankaráð ásamt tveimur frá hagsmunasamtökum.

Annars staðar mun yfirleitt vera þingkjörin stjórn eða skipuð af ráðh. Ég tel óeðlilegt að bankastjórar, sem eru starfsmenn viðkomandi bankaráða og sjá um rekstur viðkomandi banka undir stjórn bankaráða, sitji í stjóra stofnlánasjóða. Ég sé ekki ástæðu til þess að svo sé. Ég sé ríkari ástæðu til þess hins vegar að samræma starfsemi stofnlánasjóðanna með því að þingkjörnir fulltrúar sitji í stjórnum þeirra allra. Ég viðurkenni aftur á móti að það þarf að athuga um þessar stjórnir allar og fleiri en stjórn þessa sjóðs og að alls ekki gætir þeirrar samræmingar í starfsemi stofnlánasjóðanna sem nauðsynleg er. Ég tel skakkt að bankastjórar Seðlabankans sitji í áhrifamiklum stöðum, eins og t.d. formennsku Fiskveiðasjóðs. Seðlabankinn er stofnun sem á að vera og á að starfa alveg óháð þörfum stofnana og sjóða. Hún á að vera yfir það hafin. Og ég vil vekja athygli á því að í lögum um Seðlabankann er fram tekið að seðlabankastjórum sé ekki heimilt að sitja í slíkum embættum án sérstaks leyfis. Er ljóst að löggjafinn hefur viljað a.m.k. að slíkt yrði algjört undantekningaratriði.

Af þessum ástæðum öllum taldi ég og tel það, sem lagt er til í frv., skakkt. Ég tel það fyrirkomulag skakkt, sem nú er hjá Fiskveiðasjóði, og það, sem þarna er lagt til, einnig skakkt. Ég get hins vegar fallist á að þessi mál verði betur skoðuð og ég fagna yfirlýsingu hæstv. forsrh. að það muni vera gert. Ég mun beita mér fyrir því á Alþ. að þetta verði fært til samræmingar við aðra sjóði, að bankastjórar sitji þarna ekki, en mun að fenginni þessari yfirlýsingu hæstv. forsrh, ekki leggja fram þá brtt. sem ég boðaði við 2. umr. málsins.