18.05.1976
Efri deild: 122. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4527 í B-deild Alþingistíðinda. (4110)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég hafði nú satt best að segja haldið að eftir allt það tilstand sem var í sambandi við þessi kvennamál okkar á árinu 1975, þá mundi nú gefast eitthvert tóm til þess að athuga þessi stöðumál kynjanna betur, svo að þó að ég yrði var við það að þetta frv. var á sínum tíma lagt fram, þá reiknaði ég ekki með því að það yrði lögð svo mikil áhersla á að það yrði að lögum á þessu þingi. Ég ætla ekki að fara að halda hér langa ræðu til þess að tefja framgang þessa frv., en aðeins vildi ég láta það koma fram að það er ýmislegt í þessu frv. sem ekki er mér að skapi. Þrátt fyrir þann ágæta tilgang, sem sjálfsagt felst í ákvæðum þessa frv. um það að stuðla að jafnri stöðu karls og konu, þá er ýmislegt í ákvæðum þess, sem fullnægir ekki mínum óskum í því sambandi, og mér er til efs að þetta frv., þótt að lögum verði, verði til eins góðs og menn vilja sem að því standa.

Ég hnýt þó sérstaklega um ákvæði 5. gr. sem kveður á um að það sé lagaskylda hlutaðeigandi atvinnurekanda að hann veiti skriflegar upplýsingar um hvaða menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika sá hefur til að bera er ráðinn var í starf. Þetta er orðin lagaskylda, hann á að veita hinum aðilanum, sem ekki fékk stöðuna, þessar upplýsingar. Ég verð að segja að meiri er nú afskiptasemin, og halda svo að það sé í mörgum tilfellum alveg afgerandi hvaða menntun, starfsreynslu eða sérstaka hæfileika menn hafa. Mér þykir vera orðið farið að þrengja að málefnum ef maður getur ekki ráðið hvort eð er karl eða kona í stöðu gagnvart öðrum sem hafa sótt um stöðuna nema þurfa að gera ítarlega grein fyrir því. Og ef þarna er verið að tala um að það sé sérstaklega menntun og starfsreynsla og einhverjir hæfileikar þarna, þá er það ýmislegt annað sem kemur til greina í sambandi við það að ráða fólk til starfs. Þar kemur til greina skapgerð, aðlögunarhæfileiki til að umgangast fólk og ýmislegt fleira. Og það á ekkert endilega við við eitthvert kynferði. Það er alveg jafnerfitt að hafa kvenfólk sem stjórnendur og samskipti við það eins og það getur verið erfitt að eiga við karlmenn. Það er ekkert séreinkenni fyrir það. Ég vil bara í þessu sambandi til stuðnings þessum fullyrðingum mínum benda á að í minni heimabyggð hafa skapast geysilega mikil vandræði um sprenglærða og hálærða konu, ef svo má kalla það, kvenmann sem hefur allt það til brunns að bera sem nefnt er hér. Hún hefur starfsreynslu, menntun og annað, en hún hefur bara ekki hæfileika til þess að umgangast fólk og vera í samvinnu við fólk og hefur enga aðlögunarhæfni, þannig að það er ekki hægt að nota hana sem yfirmann og stjórnanda. Það vill enginn vinna með henni. Það er mjög vafasamt að setja lagaákvæði um þetta efni. Mér finnst það alveg fáránlegt, og ég er ekki viss um að þetta þjóni neinum tilgangi um það að lyfta kvenkyninu upp á það háa plan sem mér skilst vera tilgangur þessa frv.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en aðeins vildi ég svolítið stöðvast við 9. gr. frv., um Jafnréttisráðið. Já, ég veit það ekki, mér finnst öll þau ákvæði, sem snerta þetta Jafnréttisráð, vafasöm, að ekki sé meira sagt. Það fer nú svo í í taugarnar á mér að mér finnst þetta vera eins og það sé verið að stofna til einhverrar Gestapó eða einhverrar leynilögreglu hér eða einhverrar yfirrannsóknarlögreglu sem enginn getur verið óhultur fyrir í þessu þjóffélagi. Og hver á svo að borga kostnaðinn við þetta? Jú, það eru engin vandræði við að leysa það. Ríkissjóður á að greiða eins og vant er. Þetta Jafnréttisráð á að hafa skrifstofu, það á að ráða framkvæmdastjóra. Allir vita hvað það kostar að hafa framkvæmdastjóra. Hann þarf að hafa fulltrúa, deildarstjóra, ritara, einkafulltrúa, símavörslu og ég veit ekki hvað og hvað. Það verður ekki ýkjalangt þangað til, þau verða ekki mörg árin, eftir að þetta Jafnréttisráð er farið að starfa, þannig að þetta verður verulega stór liður á fjárl. Eins og nú er komið í okkar þjóðfélagi og þar eð þessi félagasamtök, sem fá tækifæri til þess að tilnefna fulltrúa í þetta Jafnréttisráf, hafa miklar tekjur, þá er þeim ekkert ofvaxið að greiða kostnaðinn við rekstur slíks ráðs af sínum tekjum a.m.k. í hlutfalli við þann mannafla, sem þau fá, og fulltrúatölu, sem þau fá í þetta Jafnréttisráð. Þau ættu að vera einfær um að standa undir kostnaði a.m.k. að sínum hluta.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Aðeins vildi ég láta það sjást upp á seinni tímann í þingtíðindunum að þetta frv. hefði þó valdið einum þm. svolitlu hugarangri og umþenkingum.