18.05.1976
Efri deild: 124. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (4128)

115. mál, íslensk stafsetning

Frsm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 922 hefur menntmn. athugað frv. um íslenska stafsetningu á þremur fundum. Á fyrsta fund n. í morgun komu 20 aðilar sem lýstu viðhorfum sínum til málsins og svöruðu fyrirspurnum. Þessir aðilar voru boðaðir með skömmum fyrirvara því hv. n. fékk ekki málið til meðferðar fyrr en seint í gærkvöld og þar af leiðandi ekki hægt að boða þá á fund n. fyrr en í morgun. Þetta voru ýmsir forustumenn samtaka sem sent höfðu hv. Alþ. eða menntmn. Ed. erindi og óskað eftir því að fá að koma á fund n., og einnig var að ósk einstakra nm. um það að ræða að tilteknum aðilum væri boðið að koma á fundinn, og eins og ég áður gat lýstu þeir viðhorfum sínum til málsins og svöruðu fyrirspurnum.

N. leggur til, þar sem ljóst er að ekki vinnst tími til að afgr. málið á þessu þingi, að frv. verði vísað til ríkisstj. Jafnframt bendir n. á að hún telur rétt að menntmrh, efni á þessu sumri til funda með íslenskukennurum og öðrum sérfróðum mönnum um íslenskt mál þar sem reynt verði að ná sem viðtækustu samkomulagi um meginstefnu varðandi stafsetningarreglur og ákvarðanatöku um breytingar á þeim. Undir þetta nál. skrifa allir nm. menntmn., 7 að tölu.