20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. 5. þm. Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, fyrir að hann skyldi koma hér í ræðustól og ræða efni þessarar till., en það er meira en sagt verður um stjórnarsinna, hv. stjórnarþm. almennt, því að staðreyndin er sú að ráðh. hafa forðast að vera nærstaddir umr. um þetta mál, hafa þar ekkert lagt fram um skoðanir sínar og fáir stjórnarþm. tekið beina afstöðu til málsins.

Ég gat ekki annað heyrt en að hv. þm. væri í meginatriðum jákvæður gagnvart því að þessum ákvæðum þyrfti að breyta. En þó verð ég að játa að mér fannst að afstaða hans væri ekki nægilega skýr í einstökum atriðum, og því miður liggur alls ekki fyrir neitt um það, sem væri þó nauðsynlegt að þjóðin fengi að vita eitthvað um, hvort Framsfl. er reiðubúinn til að koma í veg fyrir að það hneyksli sem tekjuskattsálagningin er á þessu ári endurtaki sig á næsta ári.

Hæstv. fjmrh. mun hafa lýst því yfir í ræðu fyrr á þessu þingi að tekjuskattslögin yrðu tekin til endurskoðunar, en jafnframt að þær nýju reglur, sem settar yrðu, kæmu ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1977. Er því ljóst að það er áform hæstv. fjmrh. að láta allt standa óhreyft á næsta ári. Það væri þess vegna mjög æskilegt að fá svör við því hvort Framsfl. er sama sinnis, hvort hann ætlar raunverulega að fella sig við það, sætta sig við það að ekkert sé hreyft við þessum málum á þessu þingi, þannig að breyt. verði gerð sem gildi við næstu álagningu.

Hv. þm. kom hér með nokkrar heimspekilegar hugleiðingar um eðli fyrninga. Þar sem hann er fróður á þessu sviði og má segja að þetta svið sé að nokkru leyti hans sérgrein, þá vil ég nú kannske ekki hætta mér allt of langt út í að rökræða við hann um innsta eðli fyrninga. En ég verð hins vegar að játa það hreinskilnislega að ég skildi ekki þau orð hans að fyrningaákvæðin og notkun þeirra sköpuðu ekki fjármagn og það væri sem sagt ekki hægi að skapa fjármagn með færslum í bókhaldi o. s. frv. Ég verð að játa það, að mér heyrðist að þetta væri í raun og veru fyrst og fremst orðaleikur. Ég fæ ekki séð að það þurfi að vera svo flókið mál að ef eigandi fyrirtækis beitir fyrningarreglum og kemst með þeim hætti hjá því að greiða útgjöld sem hann annars hefði þurft að greiða, í þessu tilviki skatt til ríkisins, þá hlýtur að sitja eftir í fyrirtæki hans meira fjármagn en ella hefði verið og hann hefur með þessum hætti skapað sér fjármagn. Ef þetta mál er miklu flóknara en þetta, þá þætti mér vænt um að fá nánari fræðilega útlistun á þessu, en svona lítur þetta út í mínum augum og vafalaust flestra annarra þm.

Hv. þm. nefndi að á þeim langa lista, sem ég lét fylgja till. minni, á listanum eru 432 fyrirtæki, væru þar ýmis fyrirtæki sem væru skattlaus af öðrum ástæðum en vegna fyrningarreglna, og þetta er vafalaust rétt. Því hefur enginn haldið fram að fyrningarreglur væru orsök skattleysis þessara fyrirtækja í öllum tilvikum. Það hefur einungis verið fullyrt að í mjög mörgum tilvikum væri þessu þannig hátta. Ég vil hins vegar benda á það, að að sjálfsögðu var óhjákvæmilegt að taka öll fyrirtæki með sem heyrðu hér undir. Þetta eru 432 fyrirtæki, og það hefði verið óheiðarlegt ef ég hefði sleppt einhverju þeirra úr vegna þess að það féll ekki inn í röksemdafærslu sem ég hef haldið hér uppi. Það varð að sjálfsögðu að nefna þau öll, draga þau öll fram.

Morgunblaðið hefur reynt að gera till. þessa tortryggilega, m. a. í frásögn af umr. hér á Alþ. fyrir einni viku með því að benda á að fyrirtæki að nafni Brunabótafélag Íslands sé á þessum lista. Það gilda að sjálfsögðu alveg sömu rök um Brunabótafélagið og þau fyrirtæki sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson nefndi hér áðan, að það hefði verið óheiðarlegt að sleppa því af listanum vegna þess að það fellur undir þá skilgreiningu að hafa aðstöðugjald — allnokkurt aðstöðugjald — án þess að borga tekjuskatt. Hitt er annað mál, að ég fæ ekki séð varðandi fyrirtæki, sem borga allmikið aðstöðugjald, eins og t. d. Brunabótafélag Íslands og fleiri fyrirtæki, en eru þó undanþegin tekjuskatti, af hverju þau ættu ekki að borga tekjuskatt. Ef á annað borð er talið eðlilegt að þau borgi aðstöðugjald til Reykjavíkurborgar, hví skyldu þau ekki borga einhvern skatt til ríkisins? Ella væri eðlilegast að þau væru algjörlega skattfrjáls. En það er annað mál, sem ekki er ástæða til að rökræða hér, þessi óvenjulegu undantekningatilvik sem varð samt að taka hér með til þess að listinn væri heiðarlega samsettur. Ég vil hins vegar segja að ég tel að það sé mjög til marks um málefnafátækt sjálfstæðismanna í þessu sambandi og rökþrot þeirra að Morgunblaðið skuli gera þetta algera aukaatriði að sérstöku umtalsefni í því skyni að gera þennan lista tortryggilegan. Það bendir sem sagt til þess að þeir, sem slíkum aðferðum beita, að ná þarna út úr einu eða tveimur fyrirtækjum sem eru nokkuð sérstaks eðlis, en verða að vera með á þessum lista formsins vegna, og gera þau að aðalatriði málsins, —- það bendir til þess að menn hafi ekki sérlega sterk mótrök á hendi.

Hv. þm. gat þess að aðalatriði þessa máls væri skattfrelsi söluhagnaðar að fjórum árum liðnum, og ekki skal ég bera á móti því að sú regla er einnig mjög hæpin og þarfnast endurskoðunar. Ég nefndi hana í framsöguræðu minni, og ég nefndi líka þau ákvæði sem valda því, að þegar menn eru búnir að fyrna á kannske 4–5 árum eign um allt að 90% og selja hana síðan og þurfa þá ekki að greiða neinn skatt vegna einmitt þessa ákvæðis, sem hv. þm. nefndi, þá getur næsti eigandi byrjað að fyrna á nýjan leik af fullum krafti. Þessi regla er ekki sérstaklega tekin fyrir í þessari till., enda fjallar hún almennt um endurskoðun fyrningarákvæða. En það fer auðvitað ekkert á milli mála að einmitt þessi regla að nýr og nýr eigandi skuli geta fyrnt sama hlutinn, hún er auðvitað ein sú fráleitasta af öllum þessum fyrningarreglum. Ég vil hins vegar segja það sem skoðun mína að ég er ekki samþykkur hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni að það væri nægilegt að lagfæra regluna um skattfrelsi söluhagnaðar að fjórum árum liðnum. Ég viðurkenni að vísu að með því að breyta þeirri reglu verulega væri talsvert mikið fengið, en það er samt sem áður ekki skoðun mín að það eigi að ráðast að þessu vandamáli eftir þeirri leið.

Sá, sem hagnýtir sér þessar gríðarlega miklu fyrningarreglur, kemst yfir mikinn óskattlagðan hagnað á þeim árum sem hann beitir þessum fyrningarreglum. Ég tel að það væri óeðlilegt og alls ekki nægilegt að ætla síðan að reyna að ná þessum fjármunum í ríkissjóð mörgum árum seinna þegar hugsanleg eigendaskipti verða að eigninni. Ég tel að við þá miklu verðbólguþróun sem við búum við hér, stöðuga verðrýrnun peninganna, fari að sjálfsögðu ekkert milli mála að ríkissjóður mundi bera mjög skarðan hlut frá borði ef hann ætlaði sér að ná þessu til baka, sem frestað hefði verið að leggja skatt á, einhvern tíma löngu seinna þegar eignin væri seld.

Um málflutning stjórnarsinna að öðru leyti get ég verið fáorður, en þó get ég ekki látið hjá líða að nefna eina mótbáru sem fyrst og fremst mátti greina í frásögn Morgunblaðsins af umr. sem urðu hér á fimmtudaginn var. Þar lagði blaðið megináherslu á að reyna að koma því inn hjá lesendunum, um leið og þeir fræddust um þessi mál, að það hefði verið vinstri stjórnin sem hefði sett þessar reglur, en þá væri að sjálfsögðu öllu borgið í sambandi við vitlaus lög hér í landi okkar ef hægt væri að koma því inn hjá almenningi að það sé ekki þessi stjórn eða stjórn, sem sjálfstæðismenn hafa átt sæti í, sem beri þar ábyrgðina, heldur einhverjir aðrir.

Þetta er hins vegar rangt, og ég vil nota tækifærið, sem hér gefst, til að leiðrétta þetta atriði. Lögin, sem báru með sér flýtifyrninguna inn í íslenska skattalöggjöf, voru sett á árinu 1971, nánar tiltekið fyrir kosningar 1971, að frumkvæði þáv. fjmrh., Magnúsar Jónssonar, og í tíð svonefndrar viðreisnarstjórnar. Þessi ákvæði eiga því uppruna sinn að rekja til þessa tíma. Hitt er rétt, að vinstri stjórnin og sá meiri hl., sem hún studdist við á Alþ., gerði nokkrar lagfæringar á þessum skattalögum. Það var krafa okkar Alþb.-manna að flýtifyrningarákvæðin og fleiri ákvæði af því tagi yrðu afnumin með öllu, en sú krafa náði ekki fram að ganga. Niðurstaðan varð sú að í staðinn fyrir þá 30% flýtifyrningu, sem áður hafði verið gert ráð fyrir að mætti nota á einu ári skv. þeim lögum, sem víðreisnarstjórnin beitti sér fyrir, þá var þessu breytt á þann veg að það mátti aðeins nota 6% á hverju ári í 5 ár. Þetta vil ég að komi skýrt fram, þannig að menn lifi ekki í þeirri röngu trú að þessi ákvæði séu upprunnin í tíð vinstri stjórnarinnar.

Um verðhækkunarstuðulinn er hins vegar það að segja að þar er um að ræða heimildarákvæði. Ráðh. getur ákveðið um mjög lágan verðhækkunarstuðul, og þar af leiðir að hann kemur ekki til með að vega sérlega þungt, ef svo er. En ráðh. getur einnig ákveðið mjög háan verðhækkunarstuðul og þá getur farið að muna um hann. Á árinu 1973 ákvað þáv. fjmrh., Halldór E. Sigurðsson, verðhækkunarstuðul 10%, sem þýddi það að til viðbótar hinni almennu flýtifyrningu gat verðhækkunarstuðulinn valdið 11/2% afskrifta til viðbótar þeim sem fyrir voru. En á seinasta ári ákvað hins vegar hæstv. núv. fjmrh. upphaflega 70% verðhækkunarstuðul, sem seinna var lækkaður niður í 49%. Það er af þeirri ástæðu að til viðbótar hámarkinu, hinni 15% almennu fyrningu, gátu bæst við á s. l. ári 6.35% vegna verðhækkunarstuðulsins.

Þetta vil ég að komi hér einnig skýrt fram, svo að allir geri sér grein fyrir því að verðhækkunarstuðullinn er ekki fastákveðinn í lögum, heldur er hann ákveðinn af ráðherra. Það fer því allt eftir því, hvernig á er haldið, hversu háar fyrningarreglurnar verða.