18.05.1976
Neðri deild: 117. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

282. mál, löggiltir endurskoðendur

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Fjh: og viðskn. hefur athugað þetta frv., frv. til. um löggilta endurskoðendur, og er álit n. á þskj. 906, en eins og þar kemur fram, þá mæla allir nm. með því að frv. verði samþ.

Það verður að segjast eins og er, að það hefur ekki gefist langur tími til þess að athuga þetta mál. Það er ekki langt síðan það var lagt fram í þinginu og var lagt fram í Ed., en þaðan er það komið með lítils háttar breytingum. Það mun ekki hafa verið upphaflega ætlun hæstv. ráðh. að frv. yrði endilega afgreitt á þessu þingi. En síðan það var lagt fram hefur komið fram mjög ákveðinn áhugi á því að það yrði afgreitt og fyrir því eru ýmsar ástæður, en þó sérstaklega þær, að þeir, sem hafa hug á því að fara í nám í endurskoðun, eru nú stöðvaðir í því vegna þess að það er komið á annað ár síðan rn. ritaði löggiltum endurskoðendum bréf þess efnis að ekki yrðu haldin fleiri námskeið í endurskoðun vegna þess að ætlunin væri að breyta um tilhögun. Endurskoðunarskrifstofur eru í vandræðum með starfskrafta, og þess vegna má fullyrða að þetta mál sé komið í nokkurn hnút ef þetta frv. verður ekki samþ. Endurskoðendur sjálfir eða þeirra félag er mjög fylgjandi því að málið nái fram að ganga. Svo mun og vera um lagadeild og viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta mál miklu fleiri orðum. En það má segja að ef þetta frv. verður að lögum, þá er einkum um að ræða þrjár breytingar frá því námskerfi sem nú er. Í fyrsta lagi er það, og það er meginbreytingin, að menn öðlast ekki réttindi sem löggiltir endurskoðendur nema hafa lokið brottfararprófi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands með endurskoðun sem kjörsvið. Í öðru lagi eru breytingar samkv. 10. gr. sem varða áritun löggilts endurskoðanda á reikningsskil, þ.e.a.s. hvað það þýðir ef endurskoðandi áritar. Og í þriðja lagi eru breytingar samkv. 11. gr. þar sem talíð er upp hvaða endurskoðun löggiltum endurskoðanda er heimilt að framkvæma hjá þeim stofnunum og fyrirtækjum þar sem hann er að öllu leyti eða að hluta.

Ég sé sem sagt ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð, en ég legg áherslu á það, þótt málið sé þetta seint fram komið, að hv. þd. afgreiði það.