18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4551 í B-deild Alþingistíðinda. (4149)

257. mál, jarðalög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að gera úrslitatilraun til þess að forða Alþ. frá því að gera alvarleg mistök í mannréttindamáli. Það hryggir mig mjög að við atkvgr. eftir 2. umr. þessa máls samþykktu hv. alþm. ýmsar lagagr. sem að mínu viti mundu þýða, ef þær yrðu samþykktar við lokaafgreiðslu frv., lögfestingu á verulegu misrétti í þjóðfélaginu. Það er lögfesting á forréttindum einnar stéttar fram yfir aðra. Það er lögfesting á því sem aldrei hefur gerst í íslenskri löggjöf, að einstaklingar fái að taka eignir annarra manna eignarnámi. Og það er lögfesting á því að Alþ. afsali sér úrskurðarvaldi um það hvað sé almannaþörf, svo brýn að eignarnámsákvæði í samræmi við stjórnarskrána geti þar um gilt. Með samþykkt brtt. við 13. og 14. gr. frv. afsalaði löggjafinn því valdi í hendur sveitarstjórnanna í landinu án þess að tilgreint væri nánar í hvaða skyni eða á hvaða sviði sú almannaþörf þyrfti að vera. Einungis er þarna um að ræða geðþóttamat hinna ýmsu hreppsnefnda og sveitarstjórna í landinu.

Það kom fram hér við 2. umr. málsins að það væri svo sannarlega fordæmi fyrir þessu í sambandi víð skipulag Reykjavíkur t.d., að þá væri heimild til þess að taka lóðir eignarnámi. Slíkar heimildir eru í sérstökum lögum, skipulagslögum. Ég veit engin dæmi til þess að slík almenn heimild sé gefin sveitarstjórnum í landinu né yfir höfuð neinum öðrum aðila en lög gjafanum sjálfum sem ber sú heimild að ákveða hvað sé almannaþörf.

Ég vara við því að hér er verið að ganga frá máli sem augljóslega kemur til með að valda miklum deilumálum milli einstaklinga í þjóðfélaginu. Menn skulu hugsa til allra þeirra vandamála meðal vina og fjölskyldna og sameigenda sem samþykkt þessa máls veldur. Ég ætla ekki að halda langa ræðu við þessa umr. málsins. Ég flutti langa ræðu hér við 2. umr. Ætlun mín er ekki að halda uppi málþófi. Ég vil gera í ítrustu tilraun til þess að vekja athygli hv. þm. á því hvað hér er raunverulega að fara fram.

Með þessu væri Alþ. að skapa hættulegt fordæmi fyrir því að slíkar heimildir yrðu samþykktar öðrum stéttum til handa.

Ég held að í þessu máli séu hv. alþm. á hálli ís en þeir hafa haft tíma til þess að gera sér grein fyrir. Þess vegna tek ég undir þær röksemdir, sem komu fram í máli hv. 7. þm. Reykv., að það hefði verið mikil nauðsyn á því að betri tími gæfist til þess að athuga þetta mál og leiðrétta hina alvarlegu ágalla. Ég veit vel að við hv. 7. þm. Reykv. erum ekki sammála að því er varðar eignarrétt einstaklinga almennt. Sú stefna, sem Sjálfstfl. hefur í þeim málum, er allt annars eðlis en stefna flokks hv. 7. þm. Reykv., mér er það vel ljóst. En þó held ég að við séum bæði í raun og veru og að ég held allir hv. þdm. sammála um það að stefna a.m.k. að því eftir bestu vitund að ná sem mestu jafnrétti meðal þegna þjóðfélagsins. Ég trúi því ekki að við viljum raunverulega lögfesta misrétti. Þetta, sem Alþ. er hér komið á fremsta hlunn með að lögfesta, gengur að minn mati í berhögg við anda okkar stjórnarskrár, eins af hinum mikilvægu mannréttindaákvæðum þar, og það gengur einnig nærri því ákvæði sem fjallar um meðferð dómsvaldsins vegna hins víðtæka úrskurðarvalds sem landbrh. er falið með þessu frv.

Ég ætla ekki að tíunda alla hina gallana sem einnig eru á þessu frv. og ég gerði að umtalsefni í ræðu við 2. umr. málsins. Ef ég hefði komist að til að halda aðra ræðu við þá umr. hefði ég borið fram þá till. sem ég ætla að gera nú. En með þeirri till. skal ítrasta tilraun af minni hálfu vera gerð til þess að afstýra þeirri hneisu sem ég tel að samþykkt þessa máls sé. Ég vil taka fram að ég held að við getum bjargað þessu máli og látið endurbæta það með því að samþykkja till. mína. Ef hún verður ekki samþykkt mun ég greiða atkv. gegn frv., eins og ég hef áður sagt. Ég er á móti þessu frv. sem þm. Sjálfstfl. Það gengur í berhögg við hugsjónir Sjálfstfl. Ég er á móti þessu frv. sem þm. Reykv. Það gengur í berhögg við hagsmuni og áhugamál reykvíkinga og annarra þéttbýlisbúa, yfir höfuð allra sem ekki stunda landbúnað. Ég er á móti þessu frv. vegna hins viðtæka afsals á ýmsum hlutum landsins sem það getur haft í för með sér. Og ég er á móti þessu frv. sem alþm. vegna þess að ég tel mér skylt að haga mínu atkv. svo að það sé í samræmi við það sem ég tel vera anda stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Frávísunartill. mín hljóðar svo:

„Þar sem viss ákvæði frv. ganga í berhögg við anda stjórnarskrárinnar og frv. hefur auk þess aðra alvarlega ágalla í veigamiklum greinum er lagt til að því sé vísað aftur til ríkisstj. til frekari umfjöllunar.“