20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég mun reyna að svara því, sem til mín hefur verið beint í þessum umr.

Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ég held ég geti svarað með einni setningu þeim hugleiðingum hv. þm. Ragnars Arnalds sem hann kom hér fram með varðandi afskriftir, en í þeim ummælum, sem ég vitnaði í, var því einmitt svarað: Afskriftir veita aðeins skattaskjöld svo að minna af því fé, sem fékkst frá viðskiptavinum, þarf að greiða til hins opinbera. — Það er alveg ljóst. En grundvallaratriðið hlýtur að vera það, að afskriftir sem slíkar skapa ekki fjármagn, og því rangt að segja það þótt sumir líti á það sem orðaleik.

Ég ætla mér ekki að svara hér fyrir hæstv. fjmrh., en ég get ímyndað mér að ummæli hans varðandi það að slíkar reglur, sem sagt breytingar t. d. á meðferð söluhagnaðar, taki ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 1977, þau stafi einmitt af því vandamáli að skattlagning gerist eftir á og þegar skatturinn verður lagður á á árinu 1976, þá erum við að leggja skatta á fyrir árið 1975. Það er af mörgum talið mjög vafasamt og ekki víst að það fái staðist að afturvirkni laga sé með slíkum hætti að þau gildi eitt ár aftur fyrir sig, þannig að það muni reynast mjög erfitt að koma með mjög róttækar breyt. á næsta ári vegna ársins 1975. Þetta er vandamál sem menn verða vissulega að hugleiða í allri lagasetningu.

Ég vil ítreka það, að þrátt fyrir allt tal um of háar fyrningar breytist sú skoðun mín ekki að meðferð söluhagnaðar er grundvallaratriði. Ákvæðin um meðferð söluhagnaðar eru ekki ákvæði um fyrningar. Söluhagnaður af lausafé er skattfrjáls að hálfu að 2 árum liðnum, hann er skattfrjáls að fullu að 4 árum liðnum. Söluhagnaður af fyrnanlegum fasteignum er skattfrjáls að 6 árum liðnum. Breytingar á þessum reglum mundu valda algerum umskiptum í skattamálum hér á landi, það leyfi ég mér að fullyrða, og breyting á fyrningarreglum er í raun og veru lítið mál miðað við breytingar á þeim reglum, þótt ég geti ekki séð að það hafi verið hægt að skilja orð mín svo að ég telji ekki ástæðu til þess að breyta neinu í sambandi við fyrningarreglur. Ég lagði einmitt áherslu á það að ákvæðin um verðhækkunarstuðul væru ákvæði sem bæri að breyta tafarlaust.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson ræddi um það að okkar skattkerfi hefði gengið sér til húðar og við ættum að umbylta því. Það er rétt að gera sér ljóst að þrátt fyrir það að við höfum réttlát skattalög sem allir geta sætt sig við, þá hefur framkvæmd skattalaganna í raun og veru mun meiri þýðingu. Þrátt fyrir góð skattalög, þá skiptir framkvæmd þeirra öllu máli og það er vissulega áhyggjuefni hversu illa hefur tekist til við framkvæmd skattalaganna, og ég reikna með að þar megi kenna um mjög litlum mannafla við eftirlit og starf að skattamálum.

Ég vil að lokum leiðrétta þann skilning hv. þm. Ragnars Arnalds að fjmrh. geti ákveðið, eftir því sem honum sýnist, hver verðhækkunarstuðull er. Það segir svo í lögum, með leyfi hæstv. forseta: „Verði almennar verðbreytingar til hækkunar á eignum þeim, sem taldar eru í 1. og 2. tölul. A-liðs 1. málsgr. hér að framan, er skattþegni heimilt að fyrna slíkar eignir sérstakri óbeinni fyrningu sem reiknuð skal af krónutölu þeirra fyrninga sem hann notar á árinu með heimild í 1.–3. tölul. C-liðs þessarar greinar. Skulu þær ákveðnar eftir verðhækkunarstuðli sem svari til hinna almennu verðhreytinga er átt hafa sér stað á skattárinu. Við ákvörðun verðhækkunarstuðuls fyrir húseignir skal hafa til hliðsjónar breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Verðhækkunarstuðul fyrir fyrnanlegar eignir í atvinnurekstri samkv. 1. tölul. A-liðs greinarinnar skal einkum miða við verðbreytingar á þeim eignum, sem fluttar eru til landsins. Heimilt er að ákveða mismunandi verðhækkunarstuðla fyrir mismunandi tegundir eigna. Verðhækkunarstuðlar skulu ákveðnir af fjmrn. í samráði við Hagstofu Íslands.“ Þótt fjmrn. ákveði þessa verðhækkunarstuðla hljóta þeir að vera bundnir af ákvæðum laganna, og einmitt á árinu 1973 var verðhækkunarstuðullinn tiltölulega lágur á vélum vegna þess að það átti sér stað gengishækkun á árinu 1972, en aðalástæðan fyrir lágum verðhækkunarstuðli há var að vélar og tæki hækkuðu tiltölulega lítið í verði, en hár verðhækkunarstuðull á s. l. ári á rætur sínar að rekja í miklar verðhækkanir.