18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4556 í B-deild Alþingistíðinda. (4153)

257. mál, jarðalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. öllu frekar. Það eru aðeins örfá orð út af því sem kom fram hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur. Mér fannst hún nú draga heldur í land miðað við þann málflutning sem hún hafði hér uppi fyrr í dag. Hún sagði að vísu að ég hefði ekki farið alveg rétt með það sem ég viðhafði um hennar málflutning. En ég held að það fari ekkert á milli mála að þessi hv. þm. slær því föstu í upphafi þessarar frávísunartill. að viss ákvæði frv. gangi í berhögg við anda stjórnarskrárinnar. Það er fullyrt. Það er fullyrðing um að viss ákvæði frv. gangi í berhögg við anda stjórnarskrárinnar. Og í sambandi við þetta kom hún inn á mannréttindaþátt stjórnarskrárinnar. Ef það er skoðun þessa hv. þm. að víss ákvæði þessa frv. gangi í berhögg við anda mannréttindaþáttar stjórnarskrárinnar, hvað þá? Er kannske ekki einhver mikilvægasti þátturinn að því er varðar stjórnarskrána mannréttindaþátturinn? Ég gat ekki betur skilið ummæli hv. þm. áðan, þegar hún tók sérstaklega mannréttindaþáttinn til umr. í áframhaldi af sínu máli, þá a.m.k. mátti skilja það svo að hún hefði í huga mannréttindaþáttinn þegar hún fullyrti að viss ákvæði frv. gengju í berhögg við anda stjórnarskrárinnar. Ég skildi þetta svona. Og sé þetta réttur skilningur hjá mér, þá þykir mér það furðu gegna ef þessi hv. þm. eða hvaða hv. þm. sem væri gæti hugsað sér að styðja þá menn til áframhaldandi valda sem gerðu tilraun og meira en tilraun, sem tækist að brjóta þennan mikilvægasta þátt stjórnarskrár lýðveldisins sem er mannréttindaþátturinn, þótt ekki sé nú sagt á annan hátt heldur en það gangi í berhögg við anda þessa þáttar. (Gripið fram í: Hver er skoðun þm.?) Ég geri ráð fyrir því að hafi þessi hv. þm., sem spurði, fylgst hér með atkvgr. um þetta, þá ætti honum að vera kunnugt um hver skoðun mín væri, því að ég greiddi atkv. samkv. því hvers skoðun mín er í nafnaköllum, þannig að hafi hv. þm. fylgst með, sem hann ætti vissulega að gera, þá er honum kunnugt ábyggilega um afstöðu mína til málsins þannig að ég þarf ekki að útskýra það frekar.

Ég sem sagt hef greitt atkv. með frv., jafnvel þessum umdeildu vissu ákvæðum, þannig að það fer ekkert á milli mála hver mín afstaða er, enda mun það sjaldnast vera svo að hún fari neitt á milli mála.

Sem sagt, mér finnst að hv. þm. hafi heldur dregið í land, þó að mér finnist þó enn, þegar ég lít á upphafsorð frávísunartill., að hér sé um slíka fullyrðingu að ræða, að slegið sé föstu að ákvæði frv. gangi í berhögg við anda stjórnarskrárinnar. Þá a.m.k. gæti ég ómögulega hugsað mér að styðja þá menn til áframhaldandi valda sem vísvitandi gera sér far um að meðhöndla mál að því er varðar stjórnarskrána sjálfa með þeim hætti sem þar er lýst. En nú er það upplýst að hv. þm. ætlar sér eftir sem áður að styðja hæstv. ríkisstj., þannig að það er spurning a.m.k. í mínum huga hvort það er í raun og veru, a.m.k. í öllum atriðum, sem hugur hefur fylgt máli í þeim efnum sem hér voru til umr. í dag af hálfu hv. þm.