18.05.1976
Neðri deild: 118. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4564 í B-deild Alþingistíðinda. (4161)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Mál það, sem hér er nú til umr., er eitt af þeim sem enginn hægðarleikur er að ræða hér með góðu móti á hv. Alþ., og það stafar að nokkru leyti af því að hér er um talsvert tæknilegt mál að ráða þar sem ræða þarf um ýmsa hluti sem ekki er auðvelt að setja sig inn í nema þá með allstaðkunnugum mönnum og einnig með kort af viðkomandi svæðum fyrir framan sig.

Ég ætla mér ekki hér að fara í neinar ítarlegar umr. um þetta mál, allra síst úr því sem komið er, þar sem hér er aðeins um lítinn tíma að ræða enn þá af þingtímanum. Ég tel að það frv., sem hér liggur fyrir, þurfi að ná fram að ganga, það sé mjög brýnt, og við eigum ekki að ljá máls á því á neinn hátt að fresta afgreiðslu málsins. En þó vil ég segja það, að ég sé á þessari afgreiðslu verulega annmarka enn þá og því miður hefur þannig tekist til að enn eru á lagasmíð þessari svo augljósir gallar að það er ekki einu sinni hægt að framkvæma lögin eins og frv. er nú, nema hér verði gerðar á nokkrar breytingar. Það er enginn vafi á því að þeir, sem að þessari tillögugerð standa, hafa ekki ætlað sér að standa þannig að þessum málum eins og raunin er þó á.

Ég skal koma hér fyrst að þremur atriðum sem snerta þessa löggjöf varðandi það svæði þar sem ég er kunnugastur, þ.e.a.s. Austurland og Suðausturland.

Það er þá í fyrsta lagi í kaflanum um veiðiheimildir fyrir Austurlandi, þ.e.a.s. í 3. gr. frv., í B-kaflanum um Austurland, þar byrjar sú grein þannig: „Frá línu réttvísandi norðaustur frá Langanesi að línu sem dregin er“ o.s.frv. Á þessu er galli vegna þess að það er þegar búið fyrir alllöngu að gefa út reglugerð um að það skuli draga línu beint í austur frá Langanestá, réttvísandi austur, og friða síðan allt árið fyrir togveiðum allt svæðið þar fyrir norðan, þ.e.a.s. Þistilfjarðarsvæðið. Nú er hins vegar lagt til með þessu að heimila bátum að veiða að línu sem gengur í norðaustur frá Langanestá eins og áður var. M.ö.o.: það er verið að minnka friðunarsvæðið á Þistilfirði um nokkurn geira á þessu svæði, því að ég tel engan vafa á því að lagasetning nú um heimild til þess að veiða á tilteknu svæði mundi breyta þeirri reglugerð sem í gildi er. Ég hafði bent á það áður að það þyrfti að breyta þessu, en annað eins hefur svo sem sést hér þó við jafnvel samþykktum lög með svona feilstrikum í, og ég mundi frekar samþykkja frv. þó að þetta stæði áfram. En ég vil nú skjóta því sérstaklega til sjútvn. að það á að breyta þessu þannig að það sé í þessari löggjöf miðað við línu réttvísandi austur frá Langanestá, en ekki í norðaustur eins og var í eldri löggjöf. (Gripið fram í.) Alveg rétt, það efast ég ekkert um.

Þá er annað atriði sem fær ekki heldur staðist. Hv. Ed. gerði breytingu á veiðiheimildum báta og skipa yfirleitt fyrir Suðausturlandi. Á svæðinu frá Hvítingum og að Ingólfshöfða hafði verið við það miðað fyrst í till. Nd. að það skyldu ekki heimilaðar togveiðar á þessu svæði yfir netaveiðitímabilið í mars og aprílmánuði, en Ed. gerði breytingu og færði þessi mörk frá Ingólfshöfða og að 18° v.lg. eða nokkru vestar og heimilar ekki veiðar á þessu svæði öllu frá Hvítingum og að 18° yfir mánuðina mars og apríl. En af þessu leiðir að bað þarf að breyta einnig næstu gr. þar á eftir, því að það dugar ekki að segja, eins og kom í till. frá Ed. og enn stendur í C 6, þar stendur, að á svæðinu frá Ingólfshöfða að Lundadrang sé heimilt að veiða allt árið. En þarna er um nokkur svæði að ræða, þ.e.a.s. frá ca. 161/2% suður frá Ingólfshöfða og að 18°, það er þegar búið að ákveða að það megi ekki veiða með togveiðarfærum á þessu svæði í mars og aprílmánuði og af því þarf að breyta næstu grein þar á eftir. Þeim í Ed. hefur sést yfir þetta og Nd. hefur enn ekki athugað þetta, en nú er enn tækifæri að laga það.

Það var einnig það atriði að í lið C 7 í þessum kafla er enn haldið áfram þeirri ritvillu að tala um línu sem er í austur frá Ingólfshöfða. Það var búið að laga þetta í kafla C 6, en þetta á augljóslega að vera í suður frá Ingólfshöfða því að það verður engin viðmiðunarlína sem dregin er í austur frá Ingólfshöfða, hún dugar ekki í þessu falli.

Nú vil ég sem sagt biðja hv. sjútvn. að athuga þessi þrjú atriði sem öll eru aðeins að lagfæra villur sem þarna hafa slæðst inn. Ég held að fyrir utan þessa villu, sem kannske má telja sem ritvillu í C 7, þá megi raunverulega breyta kaflanum C 6 þannig að þar verði aðeins bætt við: „sbr. þó ákvæði í C 4 og C 5,“ þ.e.a.s. það er búið að gera þar breytingu sem er miðuð við 18° v.lg. Þetta er allt hægt að leiðrétta enn þá. En það er mjög hætt við því, eins og hefur verið staðið að þessu máli, að það séu fleiri villur í þessu sem gætu komið sér illa, en það verður þá að hafa það og hefur svo sem gerst hjá okkur fyrr.

En svo er að minnast aðeins á aðrar breytingar sem hv. sjútvn. Nd. leggur til að gera á frv. eins og það kom frá Ed. Í fyrsta lagi leggur Nd: nefndin til að ákveðið svæði fyrir sunnan Langanes og einkum á Héraðsflóasvæðinu þar sem var veiðiheimild fyrir togveiðibáta á ákveðnu svæði sunnan Langaness og upp á Héraðsflóann, þetta verði afnumið eða þessu verði breytt. Það er ekki rétt að segja að hér sé um það að ræða að með þessari breytingu sé verið að auka sérstaklega friðun, vegna þess að um leið og dregið er úr veiðiheimildum báta á þessu svæði, þá eru auknar veiðiheimildir stórra togara á þessu svæði. Þeir urðu að vera þarna enn þá utar en nú er lagt til. Ég fyrir mitt leyti tel að það sé afar hæpið að taka þetta svæði af þeim togbátum, sem enn eru á Austurlandi, neita þeim um þetta svæði sem togsvæði, þegar á það er litið að fyrir öllu Austurlandi megi þeir hvergi koma nær til þess að toga en upp að 12 mílum og þegar einnig er á það litið að það er búið að loka hjá þeim öllu Þistilfjarðarsvæðinu, ekki aðeins í tvo mánuði eins og áður var, heldur í 12 mánuði, og þar er ekki um neitt smáræðissvæði að ræða. Þetta bitnar auðvitað á veiðimöguleikum þeirra, og það getur ekkert annað gerst með þessu, að taka á þennan hátt fyrir veiðiheimildir bátanna á þessu svæði, en að þeir hrekjast enn meira suðaustur fyrir landið og þar verður enn meiri átroðningur. Sú till., sem hv. Ed. gerði í þessum efnum, heimilaði bátum áfram, eins og áður hafði verið, að halda nokkru veiðisvæði fyrir sunnan Langanes og Héraðsflóasvæðinu. Hún er að vísu að mínum dómi dálítið gölluð. Hún er verri en sú heimild sem var í gildi í eldri lögum vegna þess að hún heimilar aðeins veiðar nær landinu á allviðkvæmu svæði út af Vopnafjarðarflóa og út af Bakkafirði, en hún hins vegar dregur úr veiðiheimildum bátanna frá því sem áður var út af Héraðsflóasvæðinu þar sem minna gerir til. En þó er það svo að ég vildi heldur hafa það, sem kom frá Ed. í þessum efnum, heldur en það sem hér er lagt til af sjútvn. Nd. Ég mun því greiða atkv. gegn því að liðurinn B 3 falli niður. Ég tel að hann ætti ekki að falla niður, þó að ég hefði gjarnan viljað standa að breytingum á því orðalagi sem kemur frá Ed. En um það er ekki að fást því að það er ekki hægt að eltast við þetta mál fram og tilbaka á milli deilda úr því sem komið er.

Hv. Ed gerði þær breytingar á suðaustur- og austursvæðinu að hún heimilar áfram togurum að veiða á litlu svæði sunnan við Hvítinga, og Nd: nefndin fellst á það. Ég álít að þetta sé rétt. Það er búið að þrengja svo gífurlega mikið frá því sem áður var að togurum á austursvæðinu öllu að það er auðvitað ástæðulaust að taka af þeim þetta litla svæði sem hefur reynst þannig, eins og hv. frsm. sjútvn. sagði hér, að þarna hefur yfirleitt veiðst mjög vænn fiskur. Því álít ég að það sé rétt að gera þessa breytingu sem hv. Ed. gerði og Nd: nefndin vill fallast á.

Þá er um það að ræða að hv. sjútvn. Nd. leggur til að felld verði niður ákveðin friðun á svæðinu bæði nokkuð í austur og vestur frá Hornafirði, en í gildandi lögum var þarna nokkurt svæði sem sett var inn eftir till. skipstjórnarmanna á Austurlandi, þar sem þeir lögðu til að ákveðnu svæði þarna væri lokað í 5 mánuði ársins, frá 1. maí til 1. okt., fyrir öllum togveiðum, vegna þess að að þeirra áliti var á þessu svæði tvímælalaust mikið af smáýsu og smáum fiski og þannig hefur þetta verið í gildi í fyrri lögum. Hv. Ed. tók þetta atriði upp og vildi halda þessari friðun. Það kemur mér mjög á óvart að hv. sjútvn. Nd. vill endilega opna þetta aftur. Hún getur ekki fallist á þessa friðun sem Ed. hefur þó lagt til. Það er að vísu gert með því fororði að sagt er að hæstv. sjútvrh. muni gefa yfirlýsingu um að beita valdi sínu til þess að fríða þetta svæði. Ég hefði talið miklu einlægara að leyfa þessu að vera í lögum eins og það var og eins og það var komið inn í lögin, ef menn fallast á sjónarmið þeirra sem þarna eiga mest undir og hafa stundað þessar veiðar. Ég gef ekkert fyrir það eða sáralítið þó að loforð sé gefið um að lokað skuli á þessu svæði eftir skyndifriðunarreglunni. Ég hef ekki mikla trú á henni þarna. Henni hefur verið beitt gagnvart togurunum, en ekki gagnvart togbátum. Og ég hef ekki mikla trú á því, miðað við athafnir Hafrannsóknastofnunarinnar á þessu svæði, að hún geri ýkjamiklar till. um það hvernig þarna eigi að standa að þessum málum. því álít ég að þetta friðunarsvæði eigi að standa og ég mun greiða atkv. á móti því að þetta verði fellt niður, ég sé enga ástæðu til þess, þó að ég játi að það er auðvitað miklum mun betra, ef þetta verður fellt niður, að hafa þó yfirlýsingu hæstv. ráðh. um að hann muni beita þessu varlega.

Þá er eitt atriði enn sem hv. sjútvn. Nd. hefur tekið upp eftir minni ábendingu og ég tel að sé stórum betra en það var áður í frv. í frv., eins og það var komið, var sagt í 8. gr. frv. orðrétt á þessa leið: „Hvenær sem skipstjórar eftirlitsskipa, leiðangursstjórar rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunarinnar eða sérstakir trúnaðarmenn, sbr. 2, mgr.,“ þ.e.a.s. trúnaðarmenn sem skipaðir eru í einstaka fiskibáta og einstök fiskiskip, allir þessir aðilar geti tekið sjálfstæða ákvörðun um það að loka veiðisvæðum. Ég tel það alveg fráleitt að einstakir trúnaðarmenn, sem kunna að vera úti í fiskibátum og geta verið margir tugir manna, þeir geti tekið ákvörðun um það að loka ákveðnum veiðisvæðum. Ég álít að það sé algerlega nóg að þetta vald sé hjá skipstjórum eftirlitsskipanna og þetta sé hjá skipstjórum á fiskirannsóknaskipunum og get vel fallist á það að þetta sé einnig hjá öðrum trúnaðarmönnum sem ráðh. getur þá skipað sérstaklega sem trúnaðarmenn með slíku valdi. En það væri auðvitað alveg fráleitt, þegar komnir eru trúnaðarmenn í mörg veiðiskip, að láta þá hina einstöku trúnaðarmenn fá þetta mikla vald, að þeir geti lokað heilum veiðisvæðum sem skyndilokun. Við skulum gæta að því að það er ekkert grín að gera út skip sem kosta orðið um millj. kr. á dag og það er ekkert grín fyrir skipshafnirnar heldur að vera komnar á miðin og láta einhvern einn mann úr kannske 50 manna hópi ákveða það að nú verði allir að fara í burtu af því að hér sé lokað. Það er sjálfsagt að hafa ákvæðin um skyndilokun fyrir hendi í lögum. En ég álít að þetta mikla vald eigi að takmarkast við tiltölulega fáa menn sem eru í þessu eftirliti og mynda mjög fasta reglu í þessum efnum. Við getum ekki látið alls konar eftirlitsmenn, sem kunna að verða skipaðir og eru skipaðir, jafnt á landi og sjó, til þess að að hafa eftirlit með þessu öllu saman, fá leyfi til þess að loka heilum hafsvæðum. Ég tel sem sagt þessa breytingu, sem hv. sjútvn. hefur þarna tekið upp við þetta ákvæði í 8. gr., mjög til bóta og styð það.

Ég þarf svo ekki að orðlengja frekar um þetta og skal ekki gera það vegna tímaskorts hér. Mér sýnist að þetta sé æðiseint á ferðinni allt saman hér hjá okkur og komið mjög í eindaga. Ég vænti þess að sjútvn. fái tíma til þess, það verði eitthvert smáfundahlé gert til þess að lagfæra alla þá smágalla sem ég hef komið auga á og bent hér á, og einnig vil ég lýsa afstöðu minni til þessara brtt. að því leyti til sem mér sýnist að þessar brtt. séu heldur til óhagræðis í sambandi við Austur- og Suðausturlandssvæðið.

Ég vil svo einnig benda á það, að það er augljóst að þetta frv. er þannig að það gerir ráð fyrir, því miður, vil ég segja, verulegri togveiðiaukningu fyrir Suðausturlandi, einkum í Meðallandsbugtinni. Þar er um það að ræða að það er verið að auka allverulega heimildir togbáta frá því sem verið hefur, en það átti í rauninni ekki að vera höfuðatriðið. En þar er um allverulegar aukningar á heimildum að ræða frá því sem verið hefur á því svæði. En hins vegar er, eins og till. standa hér, um mjög stórfellda friðun að ræða sem búið er að skipa fyrir um áður á Austurlandssvæðinu, á Norðaustursvæðinu og Suðaustursvæðinu, þá er búið að gefa út reglugerðir um mjög verulega friðunaraukningu frá því sem áður var.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar.