20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

31. mál, endurskoðun fyrningarákvæða

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Ég skal, herra forseti, heita því að vera ekki með langa aths. að þessu sinni, en seinasta ræða, sem hér var flutt, var þess efnis að ekki er hægt að láta henni ósvarað.

Það vill nú svo til að ég var að enda við það áðan að upplýsa þá fáu þm., sem hugsanlega kynnu að hafa verið ófróðir um það, að það eru rakin ósannindi sem haldið var fram í Morgunblaðinu seinustu viku að vinstri stjórnin hafi átt upptök að þessum skattaívilnunarreglum. Mér þykir því harla merkilegt að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson skuli ofbjóða mönnum með því koma hér strax á eftir og ætla að endurtaka þessi ósannindi upp í opið geðið á mönnum sem vita þó allir hvað er hið sanna í málinu. Mér finnst að það sé býsna djarft og að slíkum þm. sem þannig hagar málflutningi sínum sé ekki ýkjaumhugað um heiður sinn. En þessu var sem sagt þegar svarað. Þessar ívilnunarreglur voru settar af stjórnarmeirihluta viðreisnarstjórnarinnar á sínum tíma og þær voru settar í andstöðu við Alþb. á sínum tíma.

Hv. þm. bætir því við að þetta séu lögin sem vinstri stjórnin hafi sett og það sé ekkert í því annað að gera heldur en að framfylgja þeim lögum sem fyrir liggja. Hann ætlar sem sagt að loka augunum fyrir því, sem allir hv. þm. vita þó, að við Alþb.-menn fluttum ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrívegis till. hér á hv. Alþ. á s. l. vetri um að fyrningarákvæði og fyrningarreglur skattalaga yrðu afnumdar, a. m. k. þessar stærstu ívilnunarreglur. En þessar till. voru felldar bæði í hv. Nd. og Ed., m. a. af hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni. Auk þess að flytja málið beint sem brtt. við skattalög í báðum deildum, þá flutti ég till. svipaðs efnis og hér er, en sú till. var svæfð af núv. stjórnarmeirihluta. Það er svo að sjálfsögðu eins og hver önnur hótfyndni þegar hv. þm., sem hefur tekið að sér það hlutverk að kenna mér og fleiri þm. hvernig eigi a.ð semja þáltill. og er alltaf að setja sig á háan hest hvað það snertir að menn kunni ekki að haga orðalagi og kommusetningum eins vel og hann geri, þegar hann heldur því fram að í till. minni komi ekki skýrt fram hvað gera skuli. Hann reynir að telja mönnum trú um, að svo sé, með því lesa hér aðeins upp fyrstu setninguna þar sem segir að ríkisstj. sé falið að undirbúa lagafrv. En að sjálfsögðu stendur það skýrt og skorinort í a-lið og b-lið og c-lið, sem hann að sjálfsögðu las ekki, hvað gera skal. Og það er að afnema fyrningarstuðulinn, flýtifyrninguna, að setja mörk fyrir vaxtafrádrætti og áætla einstaklingum, sem hafa tekjur af eigin rekstri, ákveðnar lágmarkstekjur.

Ég veit, herra forseti, að það er nú kannske heldur óvinsælt að menn séu að standa í pexi um sjálfsagða hluti hér á hv. Alþ. En það er nú svona, að þegar menn koma og halda uppi hreinum ósannindum, eins og hv. þm. gerði hér áðan, þá neyðast menn til þess að koma og leiðrétta og færa til betri vegar.