18.05.1976
Efri deild: 126. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4575 í B-deild Alþingistíðinda. (4174)

257. mál, jarðalög

Frsm. meiri hl. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. til jarðalaga kemur að nýju fyrir d. vegna breyt., sem hafa verið gerðar á því í hv. Nd. Ég hef haft samband við landbn.- menn Ed. og við höfum rætt það hvort ástæða væri til að halda sérstakan nefndarfund um málið vegna þessara breyt. Hefur okkur komið saman um að þess gerðist ekki þörf, þær væru þess eðlis. Þær eru auðskýranlegar og í sumu falli aðeins til þess að gera ótvíræðara orðalag á greinunum heldur en var áður. Ég vil þó til glöggvunar fyrir þá menn, sem ekki hafa fylgst fyllilega með vinnubrögðunum í þessum málum, fara fáeinum orðum um þessar breytingar. Ég tek þá fyrst þar til sem er breyt. á 3. gr. frv., að niður falli úr gr. orðið „lóða“. Þar sagði svo: „Lög þessi taka til jarða, jarðarhluta, afréttarlanda, öræfa, lóða og landspildna.“ Lóða er þar með fallið burt, enda kemur það fram annars staðar í lögunum að þau eru ekki talin taka til lóða í þéttbýli.

Í öðru lagi er brtt. frá landbn. Nd. við 10. gr. sem er eingöngu til samræmingar við náttúruverndarlög sem í gildi eru. Endurskoðunarnefndin, sem undirbjó þessi lög, vissi vel af þessu ákvæði, en var þeirrar skoðunar að ekki væri þörf á því að taka það upp í þessi lög þar sem það eru alveg. bein fyrirmæli í náttúruverndarlögunum að sveitarstjórnir megi ekki leyfa byggingu sumarbústaða nema hafa leitað umsagnar náttúruverndarnefndar. En Náttúruverndarráð sætti sig ekki fyllilega við að þetta væri ekki í jarðalögunum og óskaði eftir því að sú breyt. yrði gerð. Við því er orðið og var sjálfsagt að gera það, því að það hlaut alltaf að verða farið að um þessi efni eins og segir fyrir um í náttúruverndarlögum. Það er önnur breyt. sem gerð hefur verið í Nd.

Í þriðja lagi er brtt. við 13. gr. Það er sú gr. sem mjög hefur verið umdeild og talin vera hæpin. Þess vegna þótti eðlilegt að gera orðalag gr. skýrara að því er varðar ráðherraheimild. Það sagði svo í gr.: „Þar sem skipting jarðar hefur átt sér stað, og bú er ekki rekið á úrskiptum jarðarhluta, er ráðh. heimilt að leyfa eiganda og ábúanda jarðar þeirrar, sem skipt var úr, að fengnum meðmælum sveitarstjórnar, jarðanefndar og landnámsstjórnar, að leysa til sín hinn úrskipta jarðahluta.“ Það var dregið í efa að þetta væri í samræmi við önnur lög landsins. En til þess að taka þarna af allan vafa og árétta það sem meint var í lagagr., þá er bætt inn þessu: að „ráðh. er heimilt, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, að leyfa eiganda“ o.s.frv.

Sama er að segja um fjórðu brtt. sem er við 14. gr. laganna. Þar er um þetta sama að ræða, í öðru tilviki að vísu. Þar sagði í frv.: „og getur ráðh. þá leyft honum að leysa til sín eignarhluta meðeiganda sinna.“ Fyrir það kemur: „og getur ráðh. þá, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, leyft honum að leysa til sín“ o.s.frv.

Í báðum þessum tilvikum er sett inn í frv. með ótvíræðum hætti það sem átt var við með orðalagi gr. Hér er því ekki um efnislega breyt. að ræða aðeins skýrara orðalag.

Hins vegar má segja að brtt. sú, sem hæstv. landbrh. flutti við jarðalagafrv., sé lítils háttar annars eðlis og breytir um nokkru frá því sem var í frv. Það er breyt. við 26. gr., þar sem sagt var svo í niðurlagi gr.: „Falli fasteignarréttindi við erfðir til annarra en þeirra, er greinir í 1. tölulið, á hreppsnefnd rétt á að fá þau keypt því verði sem þau voru lögð erfingjum til arfs.“ Hér er sú breyt. gerð á, að fyrir orðin: „því verði sem þau eru lögð erfingjum til arfs“ komi: „Náist ekki samkomulag um verð skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám“. Það var sæst á þessa breyt., og ég hygg mig mega fullyrða það að nm. landbn. Ed. gera ekki athugasemd við þetta og mæla með því að frv. verði samþ. í því formi sem það kemur frá Nd.