18.05.1976
Efri deild: 127. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4577 í B-deild Alþingistíðinda. (4179)

251. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal í mjög fáum orðum gera grein fyrir þeim breyt., sem hv. Nd. hefur gert á frv. eftir að það fór frá okkur hér í Ed. Breyt. þessar eru allar tiltölulega veigalitlar og vona ég að um þær geti náðst samstaða.

Í fyrsta lagi er gerð sá breyt. á liðnum B 1 og liðnum B 3 að breytt er úr „réttvísandi norðaustur frá Langanesi“ í báðum þessum liðum í „austur frá Langanesi“. Hér er aðeins um það að ræða að norðaustur ber þetta svæði inn á friðaða svæðið. Að vísu hefði samt ekki verið heimilt að veiða þar því að skv. 5. gr. getur ráðh. ákveðið friðunarsvæði þrátt fyrir heimildir, en að sjálfsögðu er skemmtilegra að þetta sé í samræmi við þá friðun sem þarna er framkvæmd.

Þá er í liðnum C 5 samþ. af hv. Nd. að fella niður síðari setninguna sem fjallar um að togveiðar verði þó ekki heimilar á svæði milli línu o.s.frv. þar sem greinir réttvísandi suður af Hvalnesi. Þetta er hinn svokallaði ánamaðkur þarna og hygg ég að hæstv. sjútvrh. muni segja eitthvað um það hér á eftir.

Þá gerði hv. Nd. tvær leiðréttingar sem okkur yfirsást. Við gerðum þær breyt. í þessari hv. d. á liðunum C 4 og C 5 að við færðum viðmiðunarstað frá Ingólfshöfða vestur að 18° v.lg. og takmörkuðum þannig togveiðar þar við tímabilið frá 1. maí til 1. mars, en okkur láðist að breyta framhaldinu, sem var í C 6 og C 7, þar sem leiðir hefjast hjá Ingólfshöfða. Varð að sjálfsögðu að breyta því þannig að það, sem þar er um fjallað, byrjaði á sama stað, þ.e.a.s. 18° v. Ig., og hefur hv. Nd. leiðrétt það.

Kem ég þá að þeim breyt. sem eru einna veigamestar.

Það er breyt. við Reykjanes- og Faxaflóasvæðið, við E 1. Þar hefur hv. Nd. breytt til baka í það sem var áður með því að breyta 10 sjómílna fjarlægð réttvísandi vestur frá Malarrifi í 6 sjómílna fjarlægð, þ.e.a.s. að togveiðiheimildin er aftur færð bar inn í það sama sem var í upphaflega frv.

Þá gerir hv. Nd. breyt, við liðinn F 1, á Breiðafirði, sama eðlis, þannig að þar er sú breyt., sem gerð var hér í þessari hv. d., tekin til baka eða breytt aftur í það sem áður var og togveiðiheimildir rýmkaðar, þ.e.a.s. á svæði sem er milli 12 og 6 mílna út af Snæfellsnesi. Því er sem sagt breytt aftur í upphaflegt horf.

Auk þessa, sem ég hef nú talið, hefur Nd. gert breyt. við 8. gr. sem er þannig að þar er bætt við 3. málsgr. einni setningu. 3. málsgr. hljóðar þannig, svo að ég lesi hana: „Hvenær sem skipstjórar eftirlitsskipa, leiðangursstjórar rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunarinnar eða sérstakir trúnaðarmenn, sbr. 2. mgr., verða varir við verulegt magn af smáfiski í afla geta þeir bannað veiðar á ákveðnu svæði, sem þeir afmarka í þessu skyni, í allt að þrjá sólarhringa.“ Þar er bætt við: „Hinir sérstöku trúnaðarmenn skulu ekki hafa framangreint leyfi nema samkv. sérstakri ákvörðun ráðh.“

Þetta er að sjálfsögðu mjög eðlilegt. Ég tel hins vegar í raun og veru að í 2. mgr. sé þessa gætt, þar sem segir að þessir trúnaðarmenn skuli hafa erindisbréf útgefið af rn. þar sem nánar er kveðið á um þeirra reglur. En þetta er sem sagt undirstrikað með þessari grein og þó að mér sýnist þarna vera raunar um endurtekningu að ræða, þá geri ég enga aths. við það fyrir mitt leyti.

Í 15. gr. er lagt til að felld verði út orðin „og í umsjá.“ Þar fjallar um vísindalegar rannsóknir og segir í seinni setningunni: „En ætíð skulu slíkar tilraunir og rannsóknir fara fram undir eftirliti og í umsjá Hafrannsóknastofnunarinnar“ — og vísast þar sérstaklega til þess að heimilt er að veita slíkt leyfi erlendum aðilum. Nd. taldi að þessi orð: „og í umsjá“ mætti skilja svo að það ætti að hafa mann um borð í hverju erlendu rannsóknaskipi sem hér væri. Út af fyrir sig teldi ég það nú rétt, satt að segja, en það er ekki rétt að skylda það og raunar getur allt þetta fallið undir orðið eftirlít. En Nd. hefur lagt til, að þessi orð: „og í umsjá“, falli brott og sýnist mér það vera satt að segja lítil breyt.

Ég hef nú lýst þessum breyt., og ég vil geta þess að við í hv. sjútvn. höfum aðeins stungið saman nefjum um þetta og erum við allir sammála um fyrir okkar leyti að mæla með því að fallist verði á frv. eins og það kemur nú frá Nd.