20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

39. mál, eignarráð á landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., fjallar um eignarrétt á landinu og gögnum þess og gæðum og hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hin láti sérfróða menn semja frv. eða frumvörp að l. um eignarráð og eignarréttindi yfir byggðu landi sem óbyggðu, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu.

Við samningu frv. eða frumvarpa að lagagerð þessari sé m. a. þessa gætt:

1) Allt hálendi landsins og óbyggðir, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila en ríkisins liggja ekki fyrir, sé lýst alþjóðaeign og skýrt sé kveðið á um mörk þessarar eignar.

2) Sú grundvallarregla verði mörkuð, að landið allt, eins og miðin umhverfis það, sé sameign þjóðarinnar allrar. Umráðaréttur á byggðu landi, fallvötnum, jarðhita undir 100 m dýpi, námuvinnslu, veiðiám og veiðivötnum, óbyggðum og afréttum, sé í höndum Alþingis, sem geti með sérstökum lögum og reglum veitt einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum tiltekinn rétt til þessara gæða. Bændum sé þó tryggður kaup- og söluréttur (eignarréttur) á bújörðum til búrekstrar, ef þeir svo kjósa, fremur en erfðafestu eða lífsábúð.

3) Glöggt sé kveðið á, hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkis eða sveitarfélaga og hvernig bætur skuli reiknast fyrir.

4) Kveðið skal á um umgengnisskyldur við landið og viðurlög við spjöllum.“

Þetta er í fimmta sinn sem þáltill. þessa efnis er flutt hér á Alþ. af Alþfl., og kann einhverjum að finnast um mikinn þráflutning að ræða. Þó er slíkt fjarri okkur flm. Hitt var og er okkur ljóst, að hugmyndir þær, sem liggja til grundvallar þáltill. þessari, þurftu tíma til að gerjast með þjóðinni og samlagast réttarkennd hennar, því að lagasetning, sem ekki er reist á réttarkennd almennings, er ólýðræðisleg og vinnur skaða, en ekki gagn.

Ég vil í fyrsta lagi undirstrika enn einu sinni að hér er um þáltill. að ræða, en ekki frv. Þessi undirstrikun er óþörf gagnvart þm., en er nauðsynleg gagnvart fjölda annarra. Þáltill. er einmitt ætlað að gefa svigrúm til athugunar á málinu frá ýmsum hliðum áður en sjálf lagasetningin fer fram sem vafalaust er vandsamin og þarf sérþekkingu til, af því að hugmyndir þær ýmsar, sem í till. felast, ganga þvert á ýmsar rótgrónar skoðanir og eignarhefðir sem hér hafa ríkt, enda hafa andmælendur þáltill. á þingi og utan þings borið sinn róðukross fyrir sér, 67. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um eignarrétt, og vík ég ögn að því síðar.

Átökin um þessa þáltill. eru í mínum huga fyrst og fremst átök milli félagshyggju og sérhyggju eða sérhagsmunahyggju, átök milli sameignarhyggju og séreignarhyggju. Mér finnst að grundvallasetning íslenskrar stjórnarskrár eigi að vera þessi:

Íslenska þjóðin öll, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á Ísland allt, gögn þess og gæði og miðin umhverfis það. Æðsta stofnun þjóðarinnar, Alþingi, fer með umráðarétt á þessari helgu eign okkar, en getur með sérstökum lögum og reglum veitt einstaklingum, fyrirtækjum og félagsheildum, eins og t. d. sveitarfélögum, tiltekinn rétt til þessara gæða.

Þetta er kjarni þeirrar skoðunar sem þessari till. er ætlað að gerja í réttarkennd þjóðarinnar. og afstaðan til þessarar grunnskoðunar sker úr um það að mínu mati hvort maður er félagshyggjumaður eða sérhyggjumaður.

Félagshyggjan lítur svo á að fráleitt sé að fjölmennar byggðir nái ekki að virkja nærtæk fallvötn sér til ljóss, hita og iðnaðar vegna eignarhalds landeigenda sem eru þess ekki umkomnir að koma þessum auði í almannagagn. Sérhagsmunahyggjan telur það sjálfsagt að skara eld að slíkri köku, banna notin ef ekki vill betur til. Félagshyggjan lítur svo á að þann jarðvarma, sem ríkis- eða samfélagslegt fjármagn og framtak þarf til að koma til almannanota, eigi að vera þjóðareign og eigi að taka til almannaþarfa án stórgjalds til hugsanlegs landeiganda. Sérhagsmunahyggjan lítur svo á að hér sé sjálfsagt að mata krók eftir getu. Félagshyggjunni finnst það fráleitt að t. d. einhver jarðeigandi í Borgarfirði krefðist af því stórfjár ef biksteinsnámur yrðu unnar í Prestahnjúk. Sérhagsmunahyggjan telur slíkt sjálfsagt. Félagshyggjan telur það stríða gegn eðlilegri réttarkennd að land- eða lóðareigandi grípi af því of fjár að þétt byggð hafi án hans tilverknaðar myndast í eða við landeign hans og þurfi aukið vaxtarrúm, sbr. t. d. Reykjavík og Blikastaði. Sérhagsmunahyggjunni finnst slíkt sjálfsagður hlutur. Þannig má lengur telja, en verður ekki gert hér.

En því tek ég þau gögn og gæði landsins, virkjun fallvatna, jarðhita, námur og lóðir og lendur í þéttbýli hér í sérflokk, að þetta eru eignir sem tæpast voru til í huga manna þegar 67. gr. stjórnarskrárinnar var sett, og að teygja hana umhugsunar- og skilyrðislaust yfir þessi gögn og gæði landsins tel ég a. m. k. umdeilanlegt og vel megi íhuga sem og alltaf að breyta því sem gamalt er og úrelt.

Hér vil ég líka benda á að það hefur verið og er umdeilt hver lagalegur réttur landeigenda er á rennandi vatni fyrir landi þeirra og jarðhita í iðrum jarðar þeirra. Vil ég varðandi fyrra atriði vísa til fróðlegra umr. um vatnalögin árin 1919–1921, prentaðra í Alþingistíðindum, þar sem ekki ómerkari menn en Jón Þorláksson, Gísli Sveinsson og Jakob Möller litu líkum augum á þessi mál og flm. þessarar till. Þá vil ég benda á greinar eftir dr. Bjarna Benediktsson og Ólaf Jóhannesson dómsmrh. um eignarhald á jarðhita í djúpi lands, þar sem þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu að a. m k. sé mjög vafasamt að hægt sé að álíta að jarðareigandi eigi hita dýpra í jörðu en 100 m. Hitt er mér ljóst, að breyting á eignarhaldi á bújörðum til búnytja og veiðirétti í ám og vötnum mun brenna sárt á allmörgum, enda þar um gamlar hefðir að ræða. Þó hlýtur félagshyggjan að líta svo á að hér eigi almenningseign að koma í stað einkaeignar, þó að hægt skuli fara í sakir og eignarbætur hljóti að koma fyrir. Þetta knýr á um það að setja þarf glögg lög um sanngjarnar bætur fyrir eignir sem flytjast úr einkaeign í almenningseign. Verður vonandi hægt að setja fram grundvallartillögur um slíkar eignarbætur innan tíðar.

En lítum ofurlítið nánar á bújörðina og veiðiréttinn. Að minni hyggju léttir það stórlega kynslóðaskipti á jörð ef nýr búandi þyrfti ekki að kaupa jörð, nógu erfitt væri að kaupa hús og bústofn. Ég veit mörg dæmi þess að jarðir hafa farið í eyði vegna þess að erfingjar hafa verið margir, en enginn einn haft bolmagn til kaupanna. Afvegaleidd eignarást á ættmold hefur og spaugað þar að baki, sem erfðafesta eða lífsábúð á jörð mundi varla fæða af sér svo að byggðardrepi ylli. En varðandi veiðiréttinn bendir félagshyggjan á þessi rök: Veiði í ám og vötnum er þegar orðið svo stórfellt sport, ræktunar- og hagnaðarmál, að miklu skynsamlegra er að hér haldi sameign heldur en séreign á málum, félagssamtök um ræktun eða sveitarfélagsheild fremur en einstakir jarðeigendur. Þannig yrði t. d. efnajöfnuður mun betur tryggður milli ábúenda í sömu sveit en ella. Hugsanlegt væri líka að Alþingi veitti afburða veiðiræktunarmanni á eða ár, vatn eða vötn til umsýslu, og því er einstaklingurinn hafður með í þessari mynd þáltill.

Loks vil ég drepa með örfáum orðum á afréttirnar. Það virðist vaxandi tilhneiging hjá sveitar- og upprekstrarfélögum að reyna að helga sér alger eignaryfirráð á tilteknum afréttum. Sögð eru allt að 15 slík mál á einhverju málarekstrarstigi fyrir dómstólum landsins. Þetta þarf að minni hyggju að stöðva tafarlaust. Hér hefur nær alls staðar um aldir verið um umráðarétt að ræða. Og fyrir þessari ásókn einkaeignar á almenningseign þarf að stemma stigu. Hitt er allt annað mál, að engin hindrun á að þurfa að vera á því að upprekstrarfélög haldi afnotarétti, enda sé ekki um ofnotkun að ræða. Þetta þykir mér rétt að komi skýrt fram.

Reynt hefur verið að telja bændum trú um, að þáltill. þessi væri stórfelld árás á bændastéttina í heild. En er það svo? Í fyrsta lagi gerir þáltill. ráð fyrir að bændum sé í sjálfsvald sett hvort þeir eigi jörð til búrekstrar eða taki á erfðafestu. Afnotarétti bænda til afrétta gerum við ekki ráð fyrir að raskað verði, hins vegar að eignarráð alþjóðar yfir öllum óbyggðum og afréttum séu óskoruð.

Í öðru lagi er það tiltölulega þröngur hópur landeigenda sem getur auðgast af jarðvarmaeign, lóðaeign við þéttbýli og landeign að virkjunarstöðum. Hér er því ekki verið að vinna gegn hagsmunum heillar stéttar, heldur vinna að því að fámennur hópur landeigenda grípi ekki stór gull af hagsmunum alþjóðar. Veiðiréttinn viljum við ekki láta leiða til jarðabrasks, búrekstri til óþurftar, eins og horfir nú. Þannig vil ég staðhæfa að sé þáltill. okkar skoðuð í réttu ljósi fari hún síst í bága við hagsmuni mikils þorra bænda, en auðvitað kemur hún í bága við sérhagsmuni sumra, en tiltölulega fámenns hóps.

Íslenskt þjóðfélag er á öru breytingastigi. Ný og ný gögn og gæði landsins eflast stórlega að verðmætum. Nú ber hæst virkjanleg fallvötn, jarðhita og lóðir og lendur í þéttbýli. Kannske uppgötvast námur eða olía á landgrunni innan tíðar. Um þetta allt þarf að setja glögga löggjöf hið fyrsta, annars lendir allt í öngþveiti í þessum málum innan mjög skamms tíma og er raunar komið, t. d. í jarðhitamálum okkar og sölu lóða og lenda. Við skulum ekki vera svo skammsýn að sofa á verðinum uns allt er um seinan og óbotnandi ringulreið orðin. Þetta er líka nú orðið skoðun meginþorra þjóðarinnar. Réttarkenndin hefur aðlagast breyttum staðreyndum. Það hefur skapast traustur grunnur til að reisa nýja lagasetningu á um eignarráð yfir landinu og gögnum þess og gæðum. Þennan grunn skulum við nota.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þessa þáltill. verði frestað að lokinni þessari umr. og málinu vísað til umfjöllunar allshn.