18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4582 í B-deild Alþingistíðinda. (4190)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1976–79 var vísað til fjvn. 12. maí s.l. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. n., hafði n. tekið málið til umr. þegar eftir að þskj. um áætlunina hafði veríð útbýtt á Alþ., en allt um það hefur fjvn. haft mjög nauman tíma til athugunar og afgreiðslu málsins. Innan fjvn. náðist ekki samstaða um heildarafgreiðslu á till. til þál. um vegáætlun, en allt um það vil ég þakka öllum samnm. mínum fyrir góða samvinnu við afgreiðslu málsins og tel reyndar að um flestar þær till., sem meiri hl. n. flytur á sérstöku þskj., hafi náðst samkomulag innan n. þó að leiðir hafi skilist við endanlega afgreiðslu málsins.

Svo sem kunnugt er eru vegalög nú í heildarendurskoðun og gert hafði verið ráð fyrir því að frv. að nýjum vegal. yrði lagt fyrir Alþ. á yfirstandandi þingi. Nú er það hins vegar augljóst mál að svo verður eigi. Það er með hliðsjón af því og þeirri yfirlýsingu hæstv. samgrh. að frv. að nýjum vegal. verði lagt fram á Alþ. þegar á næsta hausti að meiri hl. fjvn. telur, að rétt sé að bráðabirgðavegáætlun verði einungis gerð fyrir árið 1976. Er sú afgreiðsla málsins í fullu samræmi við efni frv. til l. um breyt. á vegal. sem Alþ. hefur nú samþykkt og afgreitt. Brtt. meiri hl. fjvn. eru því miðaðar við þessa afgreiðslu.

Ég vil nota tækifærið og þakka vegamálastjóra og öðrum þeim starfsmönnum vegagerðarinnar sem veittu okkur nm. ómetanlega aðstoð við afgreiðslu málsins.

Að sjálfsögðu er okkur ljóst að til þess að ekki ætti sér stað samdráttur að framkvæmdamagni, þá hefði það fjármagn, sem til skipta er, þurft að vera verulega hærri upphæð en fyrir hendi er samkv. þeim till. sem nú liggja fyrir. Talið er að nú, eftir að samþykktir hafa verið nýir verðtaxtar fyrir vinnuvélar, sé um 30% verðhækkun að ræða frá því að gengið var frá síðustu vegáætlun varðandi nýbyggingu vega og brúa. Meðan svo háttar með verðbreytingar í okkar efnahagskerfi segir sig sjálft að erfitt er að gera framkvæmdaáætlanir fram í tímann sem nokkuð er á að byggja. En nauðsynleg undirbúningsvinna og hönnun framkvæmda krefst þess hins vegar að framkvæmdaröð sé ákveðin með nokkrum fyrirvara svo að ekki standi á þeim frumgögnum þegar í framkvæmdir er ráðist.

Brtt. við heildarramma vegáætlunarinnar eru að þessu sinni frekar smávægilegar.

Varðandi tekjubálkinn er lagt til að hækkaður verði liðurinn innflutningsgjöld um 50 millj. kr. og tekjur af þungaskatti hækki einnig um 50 millj. kr. Eru þessar brtt. fluttar í samræmi við endurskoðaða áætlun Þjóðhagsstofnunar fyrir yfirstandandi ár.

Þá leggur meiri hl. fjvn. til að sú breyting verði gerð á gjaldahlið áætlunarinnar að liðurinn verkfræðilegur undirbúningur lækki um 20 millj. kr. og liðurinn vatnaskemmdir og ófyrirséð lækki um 30 millj. kr. Um þessar brtt, geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir. En með tilliti til þess að um verulegan samdrátt verður að ræða á framkvæmdamagni, þá ætti kostnaður við verkfræðilegan undirbúning einnig að geta lækkað að einhverju leyti. Um hinn liðinn, vatnaskemmdir og ófyrirséð, verður aldrei að fullu séð fyrir fram hvað raunverulega verður að áætla. En í þessum tilfellum verða þessir liðir: til verkfræðilegs undirbúnings 101 millj. kr. og vatnaskemmdir og ófyrirséð 42 millj. kr., eftir að þessar lækkunartill. hafa verið samþykktar.

Þá er lagt til að inn sé tekinn nýr liður sem verður nr. 4 undir 5. tölul., sérstakar áætlanir: Norður- og austurvegur 150 millj. kr. Er það hluti af happdrættisfé samkv. lögum og ætlað að gangi til nýbygginga á þeim vegi í þeim hlutföllum sem lögin segja til um. Varðandi þann hluta happdrættisfjárins, sem ekki verður notaður til framkvæmda í ár, mun hæstv. samgrh. gefa yfirlýsingu um að verði endurgreitt síðar.

Um aðra séráætlanir er það að segja, Norðurlandsáætlun og Austurlandsáætlun, að þær eru samdar af áætlanadeild Framkvæmdastofnunar í samráði við heimamenn, en staðfestar af ráðh., en fjvn. hefur ekkert haft með þær-áætlanir að gera. Þær eru samt sem áður prentaðar í heildaráætlun svo sem vera ber. Vísast til þess sem þar kemur fram varðandi skiptingu á fjárveitingum til hinna einstöku vegaframkvæmda.

Um sjálfa vegáætlunina er það að segja að n. gerði ráð fyrir því að hvað framkvæmdir snerti væri hún í aðalatriðum látin standa óbreytt í krónutölu, en þó gæti verið um einstakar millifærslur að ræða innan kjördæmanna eftir því sem þm. kæmu sér saman um og legðu til. Að öðru leyti var í þeim efnum, þ.e. skiptingu fé milli framkvæmda í þjóðbrautir og landsbrautir, hafður sami háttur á og áður, að þm. komu með sínar till. til n. og hygg ég að í langflestum tilfellum hafi verið stuðst við till. sem fyrir hendi voru fyrir vegáætlun fyrir árið í ár. Að öðru leyti vil ég vísa til þess sem fram kemur í brtt. á þskj. 899.

Lagt er til að lítils háttar breytingar verði gerðar á flokkun vega. Er þar annars vegar um leiðréttingu á texta að ræða vegna nafnbreytinga, aðrar till. fjalla um breytingar á landsbrautum vegna breytinga á býlum við vegarenda og nokkrar leiðréttingar frá fyrri vegáætlun. Þá eru teknir í þjóðvegatölu vegir að tveimur flugvöllum: að Gufuskálum og í Neskaupstað, en það er samkv. heimild í 12. gr. vegal., og samkv. sömu heimild var tekin í þjóðvegatölu vegur að Kirkjubæjarklaustri. Þá hafa einnig verið gerðar breytingar á flokkun vega þannig að á hraðbraut Djúpvegar kemur nýr kafli: Flugvöllur-Hnífsdalur. Þá er einnig um breytingu að ræða á þjóðbrautum, inn koma Vestfjarðavegur og Djúpvegur, þ.e. Vestfjarðavegur í Þorskafirði Flugvöllur við Ísafjörð og Hnífsdalur-Bolungarvík.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. fjvn. hefur leyft sér að flytja á þskj. 899. Um vegáætlunina og vegaframkvæmdir almennt væri að sjálfsögðu hægt að tala langt mál, en ég mun geyma mér bað þar til ný vegalög koma til umr. En það vil ég að lokum segja sem mína skoðun, að við framkvæmd núverandi vegalaga með þeim séráætlunum, sem í gangi eru, verður með ári hverju erfiðara að vinna og ég sé ekki að hjá því verði komist þegar á næsta hausti að gerð verði róttæk breyting á þeirri vegalöggjöf sem nú er í gildi.

Að svo mæltu hef ég lokið máli mínu varðandi þessar brtt. meiri hl. fjvn. og vænti þess að brtt. verði samþykktar. Ég geri ekki ráð fyrir að ég taki aftur til máls nema eitthvert sérstakt tilefni gefist til við þessa umr. um vegáætlunina. Þess vegna vil ég segja bara tvö, þrjú orð í sambandi við till. sem hér liggur fyrir á þskj. 935 frá þm. Ragnhildi Helgadóttur. Ég verð að segja það, að mér finnst það gegna furðu þetta þm. ber fram till. um að fella niður fjárveitingu til brúargerðar sem þegar eru hafnar framkvæmdir við og er komin nokkuð út í vatnsfallið. Ég verð að segja, að það liggur við að hér sé um stjórnarskrárbrot að ræða.