18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4586 í B-deild Alþingistíðinda. (4192)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við að bæta það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, frsm. minni hl. fjvn. Það verður þó aldrei áréttað um of með hvaða hætti staðið er að afgreiðslu vegáætlunar að þessu sinni. Það var mikið deilt í sambandi við afgreiðslu síðustu vegáætlunar á þau vinnubrögð sem þá voru uppi höfð, hvað áætlunin kom seint fram, en þetta tekur þó út yfir það sem þá var. Menn minnast þess líklega síðan í gær þegar uppi var haldið fundum hér í d. þingsins á sama tíma og þm. kjördæma hlupu milli húsa á fundum sínum til þess að koma kjördæmamálunum á hreint, þ.e.a.s. að skipta niður þeim upphæðum sem um er að ræða í fjárveitingum til framkvæmda í vegum á árinu 1976. Slík vinnubrögð eins og viðhöfð voru hér í gærdag eru auðvitað gersamlega óverjandi í sambandi við mál eins og þetta. Það er ótækt að þm. gefist ekki betra tóm til þess að ræða þessi mál og fjalla um þau heldur en gerðist að þessu sinni og hefur gerst áður, líka í sambandi við afgreiðslu síðustu vegáætlunar. (Gripið fram í: Og þar áður.) Og þar áður líka, kannske það. Ég held þó að það versni, það veit hæstv. ráðh. mjög gjörla. En hvað sem um það er, hverjum sem viðhefur slík vinnubrögð, stendur fyrir þeim, honum ætti að vera ljóst að slíkt er óframkvæmanlegt, að ætlast til þess af þm. að þeir vinni undir þessum kringumstæðum við þessi skilyrði. Ég skal ekki hafa fleiri orð þar um.

Það er ljóst að með þeirri afgreiðslu sem nú á að viðhafa á vegáætlun, ef vegáætlun skyldi kalla, hefur hæstv.ríkisstj. gersamlega gefist upp á því að standa að málum í sambandi við framkvæmdir í vegum eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Hér er um bókstaflega uppgjöf að ræða. Mál Vegasjóðs eru komin í slíkan hnút að líklega áður en vegáætlun var lögð fram, sem þá var reiknað með til fjögurra ára, hefur hæstv. ríkisstj. og þá kannske fyrst og fremst hæstv. samgrh. gert sér grein fyrir því að það var gersamlega útilokað að afgreiða þá áætlun eins og málum var komið. Þetta er auðvitað fyrst og fremst vegna stefnu hæstv. ríkisstj. í þessum málum sem og öðrum að því er fjármál varðar, og kemur það engum á óvart.

En aðalerindi mitt að þessu sinni var að gera með örfáum orðum grein fyrir brtt. sem ég ásamt þremur öðrum hv. þm. stend að í sambandi við þessa vegáætlun fyrir árið 1976, Það er um að ræða að enn einu sinni er reynt að fá fram breytingu sem ég og aðrir hafa talið sjálfsagða að undanförnu, þ.e.a.s. að upp yrði tekinn að nýju vegskattur sem lagður var niður fyrir nokkrum árum. Andstæðingar þessa máls hér á hv. Alþ. hafa að öllum líkindum á undanförnum árum talið að staða Vegasjóðs væri það góð að óþarfi væri að leita neitt á ný mið í sambandi við tekjur til framkvæmda. Ég trúi því vart að þeir hinir sömu, sem þessa afstöðu hafa haft til mála, hafi hana enn, miðað við þá mynd sem nú blasir við í sambandi við vegaframkvæmdir á árinu 1976. Ég a.m.k. get ekki með nokkru móti séð að það sé réttlætanlegt að hafna leið til tekjuöflunar eins og hér er um að ræða þegar málum er svo komið eins og nú er, að Vegasjóður og fjárveitingar til framkvæmda á vegum eru það langt niður úr öllu valdi að meira að segja hv. stjórnarþm. sjálfum blöskrar.

Hér er gert ráð fyrir því sem sagt í þessari brtt. að upp verði tekinn nýr tekjuliður sem yrði veggjald. Þær tölur, sem hér eru á settar í þessari brtt., eru upp færðar með hliðsjón af því sem gerst hefur í verðlagsmálum frá því að Vegagerð ríkisins tók saman skýrslu um þessi mál fyrir líklega þrem árum, og hér er einungis gert ráð fyrir því að veggjald næðist þá til innheimtu síðari hluta þessa árs, þ.e. 1976. Samkv. þessu mundi það gefa röskar 32 millj. kr. á þessum síðari helmingi ársins, en kostnaður af því yrði um 4.5 millj. ef gengið er út frá sömu forsendum og fyrir lágu á sínum tíma, en hvort tveggja fært upp eins og ég sagði áðan.

Þessi till. er til þess flutt fyrst og fremst að freista þess að ná í fjármagn nú til þess að hrinda í framkvæmd nýendurskoðuðum reglum um snjómokstur sem eins og hv. þm. minnast, hæstv. samgrh. lýsti hér yfir fyrir nokkru að tilbúnar væru, en eftir því sem gert er ráð fyrir í vegáætluninni, þá mundu þær ekki koma til framkvæmda fyrr en árið 1978. Með því að afla tekna á þennan hátt væri nú þegar á þessu ári hægt að hrinda í framkvæmd þessum nýju reglum sem eru, eins og hefur komið fram áður á hv. Alþ., mjög nauðsynlegar og verður vart lengur við unað óbreyttar reglur varðandi snjómokstur. Og ég verð að segja að mér fyndist það undarlegt ef hv. Alþ. neitaði á þessum tíma, með hliðsjón af því sem menn standa frammi fyrir, að leita fanga í þessum þætti tekjuöflunar til þess að bæta úr þessu brýna verkefni sem breyting á snjómokstursreglunum er.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa öllu fleiri orð hér um. Ég vænti þess að hvað sem er um fyrri afstöðu hv. þm., sem andvígir hafa verið þessari tekjuöflun, þá hljóti þeir að fallast á það nú að oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn. Ég vænti þess því að þessi till. nái fram að ganga og að það verði hægt með þessum hætti að koma í framkvæmd þeim nýju reglum varðandi snjómokstur.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, segja það um þá brtt., sem útbýtt hefur verið frá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, að sú till. er nokkuð góð svo langt sem hún nær. En ég er nú svolítið hissa á hæstv. forseta Nd. að hann skuli standa að flutningi á till. með þessum hætti, þar sem einungís er gert ráð fyrir því að fella niður 390 millj. kr., en hvergi að því vikið á hvern hátt eigi að fara með það fé sem þarna er um að ræða. (Gripið fram í.) Það er gert ráð fyrir því. Hv. þm. Pétur Sigurðsson hefur þá ekki lesið vegáætlunina ef hann veit ekki um þetta. Það er þá kannske fleira sem fram hjá honum hefur farið á þessum síðustu og verstu tímum. En a.m.k. eins og mál standa nú, þá eru 390 millj. ætlaðar til þessa verkefnis, og það verður því að teljast eðlilegt að um leið og till. er flutt um að fella þetta brott, þá væri þó bent á í hvaða framkvæmdaþætti það ætti að fara. (Gripið fram í.) Það þarf nú ekki svo mikið að það þurfi 390 millj. til þess, það þarf ekki nema röskar 30 millj. miðað við árið til þess að hrinda þessum nýju reglum í framkvæmd. En ef hv. þm. Jón Árnason er reiðubúinn til þess að láta okkur hafa það af þessari 390 millj. kr. upphæð, þá er ég reiðubúinn að taka við, og ég vænti þess að hann beiti sér þá fyrir því að við fáum það. Það væri hugsanlegt, ef hann beitti sér fyrir slíkri breytingu, að ég drægi þá þessa till. til baka sem ég hef hér verið að tala um. En eins og ég sagði áðan, mér finnst vanta í þessa brtt. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur hver hennar meining er með ráðstöfun á því fjármagni sem hún leggur til að þarna verði tekið út. Og með hliðsjón af því, sem gerðist hér fyrir um ári, þá minnir mig — ég skal ekki fullyrða, — að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir ásamt fleirum hafi greitt atkv. gegn því að frestað yrði framkvæmdum við Borgarfjarðarbrú um eitt ár, en nú ári siðar kemur fram till. frá þessum sama hv. þm. þar sem lagt er til að fjárveiting verði algerlega felld niður. En mér finnst sem sagt vanta á þetta. En eins og ég sagði, þetta er nokkuð góð till. svo langt sem hún nær. Það er auðvitað ástæða til þess að fara hægar í þessar stóru og miklu framkvæmdir, umdeildar, þegar slíkur fjármagnsskortur sem nú blasir við er fyrir hendi

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þessi orð fleiri.