18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4588 í B-deild Alþingistíðinda. (4193)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Við fyrri umr. þessa máls, sem hér er nú á dagskrá, vakti ég athygli á þeirri varhugaverðu stefnu sem till. hæstv. ríkisstj. um nýja vegáætlun markaði. Ég benti þá á að það lægi fyrir alveg ljóst að niðurskurður hefði orðið á s.l. ári, árinu 1975, miðað við framkvæmdakostnað í vegagerðarmálum, í kringum 30%, og nú væri enn lagt til með hinni nýju vegáætlun að raunverulegur niðurskurður framkvæmda mundi verða 25–30% aftur. Ég sagði þá að það væri alveg augljóst, að þetta fengi ekki staðist í reynd og það væri ekki hægt að una við áætlun, sem byggð væri upp á þennan hátt. Ég benti á það að þessi niðurskurður framkvæmda í sambandi við nýlagningu vega væri mun meiri en ætti sér yfirleitt stað í sambandi við opinberar framkvæmdir. Það er því að mínum dómi alveg ljóst mál að það er ekki hægt að víkjast undan því að gera sérstakar ráðstafanir til þess að afla meira fjár til framkvæmda í vegagerðarmálum. Það er ekkert annað en að lemja höfðinu við steininn að ætla að víkja sér undan því eða neita því. Þetta framkvæmdafé, sem nú er gert ráð fyrir á áætlun, getur ekki staðist.

Ég benti á það í aths. mínum einnig, að það væri ekki aðeins það að framkvæmdafé til vegagerðar væri orðið svona lítið, heldur væri einnig verulegur galli á þeim till. sem fyrir lægju um skiptingu fjárins, þar sem svo er komið að það er gert ráð fyrir að rétt um það bil helmingur af öllu nýbyggingarfénu til vegagerðar gangi til hraðbrautaframkvæmda og þannig er hins vegar ástatt að sum kjördæmi landsins fá ekkert af þessum 50% sem ganga til hraðbrautaframkvæmda. Þannig er þessu t.d. varið á Austurlandi. Austurland fær ekkert af öllu þessu fjármagni, um helmingi þess sem gengur til nýbyggingar á vegum. Auðvitað er ekki hægt að búa við þetta lengi, og það er í rauninni alveg furðulegt, eins og ég benti á, að það skuli vera ráðh. úr hópi Framsfl., sem treystir sér til þess að koma fram með till. af þessu tagi ár eftir ár. Ég álít að það verði að takast á við þetta vandamál og viðurkenna það að stefna af þessu tagi fær ekki staðist, það á að breyta henni.

Á það var einnig bent að í sambandi við þá vegáætlunartill., sem hér lá fyrir, var ekki farið eftir gildandi lögum sem Alþ. hefur samþ. um happdrættislánsfé til vegagerðar, þar sem skýlaust er mælt svo fyrir að því fé, sem kemur inn með þeim hætti, eftir þessari fjáröflunarleið, á að verja í ákveðna vegi og í ákveðnum hlutföllum. En vegáætlunin, sem lögð var fram, tók ekki tillit til þessara laga. Nú er það staðreynd að féð er boðið út, það er auglýst sem happdrættislánsfé til vegagerðar, og ég hygg að það verði aflað fjár samkv. þeirri leið sem nemur í kringum 500 millj. kr. á þessu ári, eins og gert var ráð fyrir. Þá hefðu samkv. þessum lögum, sem ég vitna til, 2/3 af þessu fjármagni átt að renna til Norðurvegar, þ.e.a.s. til vegagerðarinnar frá Reykjavík til Akureyrar, og til Austurvegar, til vegagerðarinnar frá Reykjavík til Austurlandsins um Suðurland. En tillit til þessa er ekki tekið í vegáætlun.

Við frekari athugun málsins hefur hæstv. ríkisstj. komist að þeirri niðurstöðu, að sú áætlun, sem hér var lögð fram til vegáætlunar fyrir næstu 4 ár, það væri engin leið að samþykkja þá áætlun, og hefur tekið upp þá aðferð að samþykkja aðeins vegáætlun fyrir yfirstandandi ár, árið 1976, en hverfa frá því, sem áður var ákveðið í lögum, að gera einnig áætlun fyrir árin 1977, 1978 og 1979. Þetta er auðvitað neyðarleið, að hafa þennan hátt á. Ég álít að þessi neyðarleið sé þó skömminni skárri heldur en fara að samþykkja vegáætlun í þeim búningi sem hún var hér lögð fyrir, því að það tel ég að hefði verið alveg fráleitt. En með því að gera aðeins vegáætlun fyrir yfirstandandi ár, þá má segja að það sé ekki stefnt til mikilla breytinga, því að raunverulega er í gildi vegáætlun fyrir yfirstandandi ár. Hún lá nú aðeins fyrir til endurskoðunar.

Nú hefur meiri hl. hv. fjvn. lagt til að taka þó tillit til laga um Norður- og Austurveg og happdrættislánsfjárins með þeim hætti að taka inn á vegáætlun þessa árs 150 millj. kr. og skipta þeirri fjárhæð í samræmi við það sem segir í lögunum. En auðvitað er ljóst að þetta er eigi að síður brot á lögunum, því að í þeim segir alveg skýrum orðum, í 7. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Fjármunir þeir, er inn koma fyrir sölu happdrættisskuldabréfanna, skulu renna til Vegasjóðs og skal þeim varið að 2/3 hlutum til að greiða kostnað við gerð Norðurvegar milli Akureyrar og Reykjavíkur og að 1/3 hluta til að greiða kostnað við gerð Austurvegar milli Reykjavíkur og Egilsstaða um Suðurland.“

Hér stendur að þetta skuli gera. Féð kemur inn, það er boðið út, þetta er samkv. lögum, og vegáætlun getur ekki breytt þessu. En við þetta er ekki staðið. Það er að vísu ákveðið að verja hluta af þessu fjármagni samkv. lögunum, en geyma annan hluta eða lána hann almennt Vegasjóði til annarra framkvæmda. Það verður auðvitað að vona að þetta verði leiðrétt síðar þó að svona sé farið að í þetta skiptið í algerri nauðvörn og það verði staðið við þessa löggjöf í reynd á áætlun fyrir næstu ár.

Auðvitað kemur í ljós við meðferð þessa máls það, sem ég sagði við fyrri umr. málsins, að það er ekki hægt að víkja sér undan því lengur að það verður að afla meira fjár til framkvæmda. Það er ekki hægt að reka Vegasjóð á næstu árum með því fjármagni sem hann hefur yfir að ráða nú. En auk þess sem afla þarf frekari tekna til Vegasjóðs, þá er ég einnig á því að það verði að taka upp aðra skiptingu þessa fjár en við er miðað í þessari áætlun og var miðað við í áætluninni fyrir 4 árin. Það verður ekki unað við það að um helmingur þessa fjármagns renni til hraðbrautaframkvæmda. Það er óréttlátt. Það verður því að lækka það hlutfall sem fer til hraðbrautaframkvæmdanna, en auka hins vegar fjármagn til þjóðbrauta og landsbrauta. Það er alveg óhjákvæmilegt að gera það. Með því er ég ekki að segja að það sé ekki nauðsynlegt að leggja hraðbrautir í landinu og sinna þeirri vegagerð líka, en það er ekkert réttlæti í því að skipta þessu fjármagni á þennan hátt. Þessi mál eru að komast í slíkt öngþveiti víða á landinu að það verður að breyta þessari skiptingu.

Ég hef bent á það áður að auðvitað verður einnig að standa við þær áætlanir sem samþykktar hafa verið og gerður hefur verið samningur víð stjórnvöld um að framkvæma, eins og t.d. Austurlandsáætlun. En það stendur mjög upp á að það sé staðið við þann samning sem gerður var á sínum tíma við ríkisstj. um Austurlandsáætlun. Það var reynt að standa við þá áætlun lengi vel, en nú hefur þetta dregist mjög mikið og stendur hér mikið upp á. Og það er vitanlega ekki hægt að taka því þegjandi þegar lögð er fram till. um að svíkja framkvæmdir í þessum efnum, eins og að framkvæma Austurlandsáætlun, verulega frá því sem orðið er. En það kalla ég ef á að teygja það í 4 ár enn að framkvæma þá áætlun sem átti raunverulega að ljúka samkv. samningi þar um á árinn 1975. Auðvitað verður að reyna að standa við þessa áætlun sem þannig hefur verið umsamið. Það er ekki hægt að lækka fjárveitingu til hennar jafnt og þétt eins og hér var till. uppi um. Hið sama gildir um Norðurlandsáætlun, að það verður líka að reyna að standa við þá áætlun að því leyti sem hún hefur verið samþykkt af stjórnvöldum.

Mér er það alveg ljóst að eins og staðið er að afgreiðslu þessa máls nú, þá er ekki um mikið að tala annað en ræða hér nokkuð um þessa stefnu almennt. Hér er alveg bundin fjárhæð, raunverulega þegar samþykkt, því að í gildandi vegáætlun fyrir þetta ár, sem enn er í gildi og er aðeins í endurskoðun nú, er búið að ákveða það fjármagn sem úr er að spila til hraðbrauta og til þjóðbrauta og landsbrauta, og í þessari endurskoðun er harla lítið hægt að gera. En aðalatriðið er að mínum dómi að menn viðurkenni það nú, þegar á síðan að takast á við áætlun fyrir allt áætlunartímabilið, þ.e.a.s. fyrir árin 1977, 1978 og 1979 sem væntanlega verður þá gert á næsta hausti, næst þegar Alþ. kemur saman, að viðurkenna að það þarf að leita að meira fjármagni ef á að vera hægt að komast úr þessum vandamálum og það þarf að breyta um stefnu í sambandi við ráðstöfun á fénu. Ég hef heldur enga trú á því að þegar verður farið að takast á um þessi mál hér á Alþ., þá geti skapast samstaða um það að leysa þessi þungu fjárhagsmál á þeim grundvelli að helmingurinn af nýbyggingarfénu eigi að renna í hraðbrautir. Það er ábyggilega ekki grundvöllur fyrir því á Alþ. þó að við ætlum að sinna þeim málum einnig um leið að sanngjörnum hluta.

Ég hef með þessum orðum lýst minni almennu afstöðu til þessara mála og hvað ég álít að þar þurfi að gera. Ég er fyrir mitt leyti reiðubúinn til samstarfs og ég veit að það er minn flokkur, reiðubúinn til samstarfs við stjórnvöld um að takast á við þessi vandamál, af því að okkur er alveg ljóst að það verður ekki staðið að afgreiðslu þessara mála í þessu formi öllu lengur. En þá þarf líka að gefa sér tíma til þess að leysa málið. Þetta mál ætti að leggja fyrir Alþ. strax á næsta hausti, svo að nægur tími sé til stefnu, og leita eftir eins breiðu samkomulagi og mögulegt er á Alþ. um bað að afla fjár til þessara allra nauðsynlegustu framkvæmda og reyna að ná samkomulagi um skiptingu á þessu fé eftir því sem mögulegt er. En það vil ég taka fram hvað mig áhrærir, að bað getur ekkert samkomulag orðið við mig um það að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð er í síðustu vegáætlun og þessari sem hér liggur fyrir. Ég tel þá stefnu alranga.