18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4594 í B-deild Alþingistíðinda. (4196)

278. mál, bráðabirgðavegáætlun 1976

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég ætlaði nú raunverulega ekki að taka til máls við þessa umr. og ætla ekki að ræða þáltill. sjálfa, en ræður tveggja eða þriggja hv. þm. hér í kvöld hafa gefið mér tilefni til þess að segja örfá orð.

Þegar hv. þm. Karvel Pálmason mælti hér fyrir brtt. sinni um álagningu veggjalds, þá komst hann að orði eitthvað á þá leið, að oft hefði verið þörf, en nú væri nauðsyn og að andstæðingar veggjaldsins til þessa hlytu nú að greiða atkv. með þessari till. vegna ástands Vegasjóðs, að því er mér skildist. Satt að segja gat maður komist við af umhyggju hv. þm. vegna þessa bágborna ástands Vegasjóðs. En nú langar mig til þess að spyrja hv. þm., vegna þess að það kom ekki fram í ræðu hans, af hvaða umferð á að innheimta þetta gjald, af hvaða vegum á að innheimta gjaldið. Gjarnan vildi ég líka vita hvaða hugmyndir hv. þm. hefur um upphæð gjaldsins á hinar ýmsu stærðir bifreiða sem um vegina aka. Það er ekki nóg að segja í þessari till. að veggjaldið muni gefa Vegasjóði 32.1 millj. kr. það sem eftir er af árinu. Það verða að fylgja þessu einhverjar skýringar. Ég held nefnilega að bifreiðaeigendur, sem um þessa vegi koma til með að aka, vilji gjarnan fá að kynnast umhyggju hv. þm. Karvels Pálmasonar fyrir þeim.

En ég vil aðeins segja hv. þm. það, að við, sem höfum verið andvígir álagningu veggjalds, erum það enn þá vegna þess að víð höfum alveg óbreyttar skoðanir á þessari óréttlátu skattheimtu sem veggjaldið er. Satt að segja nenni ég ekki að fara að telja upp allar þær ástæður sem við höfum máli okkar til stuðnings. En það er sem sagt enn reynt að koma hér á skattheimtu sem vart þekkist nokkurs staðar, nema í ýmsum þjóðlöndum að vísu á vegum sem eru þá yfirleitt í einkaeign og eru lagðir af einkafyrirtækjum og greiddir af fjármagni sem kemur inn fyrir þetta veggjald. Ég vil aðeins ráðleggja hv. þm. Karvel Pálmasyni að heita nú sjálfum sér því, þegar þessi till. hans hefur verið felld, að reyna nú ekki aftur. Það er nóg komið af þessum fíflaskap hér á hv. Alþ.

Ég þarf ekki að segja í sjálfu sér fleira um þessa till. Ég varpaði fram þessum spurningum í upphafi máls míns til hv. þm., en ég vil aðeins segja að það skiptir mig í raun engu máli hvort hann svarar þeim, vegna þess að ég held að bað geti ekki orðið vit í svörunum hvort eð er.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði í ræðu sinni. að það þyrfti að lækka framlag til hraðbrauta. en auka til þjóðbrauta. Ég held að hann hafi svo bætt við að ekki væri þar með sagt að ekki ætti að leggja hraðbrautir. En inntakið í máli hans var að það þyrfti að leita að meira fjármagni og fyrst og fremst að breyta um stefnu við ráðstöfun fjárins, breyta stefnunni í þessa átt sem hann sagði, að lækka hraðbrautaframlagið, en auka til þjóðbrauta. Að sjálfsögðu tók hv. þm. Steingrímur Hermannsson undir með hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og talaði um þessa óþolandi stefnu sem flokksbróðir hans, hæstv. samgrh., rekur. Þetta minnir mann á stefnu annars flokksbróður hv. þm. Steingríms Hermannssonar, hæstv. utanrrh., hún fer eitthvað á svig við stefnu þm. líka.

En hvað eru þessir hv. þm. raunverulega að segja. Mér sýnist þeir vera að segja það, að við eigum að aka áfram á moldarvegunum, við eigum að aka á vegum sem eru þá ófærir nánast allt árið.

Aukin bifreiðaeign landsmanna hefur að sjálfsögðu í för með sér aukna umferð, — umferð sem vegirnir, eins og þeir eru nú, þola ekki, og þessi aukna umferð kallar á það að vegirnir verði lagðir slitlagi. Hin aukna umferð og aukin bifreiðaeign þýðir auðvitað líka auknar tekjur í Vegasjóð, þar með fæst meira fé til vegagerðar, og vaxandi hluta af því fé er nauðsynlegt að verja til hraðbrautaframkvæmda. Annars hljóta vegirnir að verða ófærir allt árið, eins og ég sagði áðan.