20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (420)

39. mál, eignarráð á landinu

Páll Pétursson:

Herra forseti. Umr. um þessa till., sem hér er til afgreiðslu, eru að verða nokkuð fastur liður í störfum Alþ., svipað eins og umr. um stefnuræðuna, fjárlagaræðuna eða eitthvað því um líkt. Það ris hér upp á hverjum vetri einhver Alþfl.- maður og mælir fyrir þessu máli. Þetta ber að sjálfsögðu vott um mikla stefnufestu, þessi þráflutningur, eins og hv. flm. orðaði það, en fremur er það nú tilbreytingalítið, finnst mér. Þó er það líkn með þraut að þeir eiga enn þá, Alþfl.- menn, frummælendur til skiptanna, og það vill svo vel til, að frummælandinn í ár mun vera upphafsmaður að þessari hugmynd og hafa fyrstur borið þetta mál fram hér á hv. Alþ. Það fer því að ýmsu leyti vel á því að hann beri sjálfur fjanda sinn, eins og sagt var að fornu.

Þessi hv. þm. var einu sinni fyrir margt löngu frambjóðandi í Austur-Húnavatnssýslu. Þá var „Hræðslubandalagið“ sæla við lýði. Mér þótti ákaflega leitt að hafa ekki aldur til þess að taka þátt í þeim kosningum og kjósa hann, en það er nú orðið langt síðan og ég er nú kominn yfir þau leiðindi. Mig hálfminnir þá að ég heyrði að hann væri þingeyingur, og a. m. k. tel ég fullvíst að hann sé sveitamaður í framætt eins og við erum allir, en einhvern veginn er hann nú og þeir Alþfl.-menn orðnir nokkuð lausir á þeirri rót. Og mér finnst kenna í málflutningi hv. þm. hálfgerðrar nepju í garð þeirra sem sitja eftir í Þingeyjarþingi, og það er annar svipur á þessari hugsun hjá honum heldur en hjá þeim mönnum sem við erum vanastir að hugsa til þegar á þingeyinga er minnst, þar sem annað hvert kot er orðið með nokkrum hætti höfuðból í vitund okkar sem álengdar stöndum, m. a, vegna þeirrar reisnar, sem það gefur þingeyingum að eiga svo dýrðlegt hérað, og þess gildis, sem það gefur þeim, að þetta hérað skuli eiga þá.

Ég ætla ekki að endurtaka röksemdir mínar frá í fyrra sem ég viðhafði þá í umr. um þessa till. Ég vil leyfa mér svona til hægri verka að vísa til Alþt. frá í fyrravetur, nr. 12 og nr. 14, þar sem þetta er allt saman prentað. En ég vil bara taka það fram að ég er enn þá sama sinnis og ég var þá. Skoðanir mínar á eignarréttindum eru gersamlega óbreyttar, og þessi till. hefur ekki samlagast með nokkrum hætti réttarkennd minni, eins og hv. flm. orðaði það að væri tilgangurinn með þessum þráflutningi. Skoðanir mínar á nauðsyn þess, að jarðalagafrv. nái fram að ganga, eru líka enn þá óbreyttar, og ég tel að sú lagasetning mundi bæta úr þeim ágöllum sem augljóslega eru á viðskiptum með jarðir. Ég tek fyllilega undir það með hv. flm. að það er ólag á þeim málum, en ég tel að það sé best lagfært með því að samþykkja það frv. Að sjálfsögðu eru eignarnámslög og fordæmi fyrir eignarnámi þar sem það er svo brýnt að ekki er hægt að fara aðra leið vegna almenningsheilla. Þetta hvort tveggja tel ég að eigi að nægja til að tryggja hagsmuni almennings.

Það er með þessu frv. löng og mikil grg., en ég vil þó, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa upp stutta mgr. Hún er svona:

„Á síðustu árum hafa augu fjölmargra opnast fyrir því, að mannkynið hefur þegar spillt umhverfi sínu stórlega á margan hátt og mengað loft og vatn, svo að jörðin kann að verða óbyggileg eftir nokkrar kynslóðir, verði ekki að gert hið bráðasta. Óspillt land, ómengað loft og vatn eru talin til hinna verðmætustu eigna hverrar þjóðar. Í þessum efnum erum við íslendingar enn auðug þjóð, en ber þó að gæta fyllstu varúðar að spilla þeim gæðum ekki, jafnframt því sem við nýtum auðlindir okkar sem best.“

Undir þetta vil ég sérstaklega taka. Og það er kannske kjarni málsins með hverjum hætti verður framtíð landsins, varðveisla landsins best tryggð. Ég tel að hún sé best komin í höndum bænda. Þeir nytja þetta land og hafa nytjað. Þeir þekkja hver sinn skika, ef svo mætti segja, og hafa tækifæri betur en allir aðrir til þess að fylgjast með ástandi landsins eða umhverfis síns. Og ég held að þeim sé öðrum ljósari nauðsyn þess að eyðileggja ekki landið. Ofbeit er staðbundið vandamál sums staðar á Íslandi, en ég hygg að bændum sé þó ljósastur af því háskinn, ljósari en t. d. þeim kaupstaðarbúum sem eiga skepnur. Lönd við þorp og bæi eru þéttar setin og meir ofbeitt, að því er mér virðist, heldur en almennt gengur með jarðir í bændaábúð.

Ég vil sem sagt nota þetta tækifæri til þess að lýsa fullri andstöðu minni við fram komna þáltill. Ég tel rétt að afgreiða þessa till., þ. e. a. s. fella hana. Ég tel ekki líkur til þess að þessi till. verði réttlætanleg í náinni framtíð eða samlagist minni réttarkennd, eins og hv. flm. orðaði það, — a. m. k. ekki í náinni framtíð. Það væri þá ekki nema bændur hættu að meta land sitt fram yfir önnur gæði, gefa það t. d. falt til eyðileggingar fyrir einhverja silfurpeninga eða annað og væru búnir að missa trúna á landið, trúna á atvinnuveg sinn og e. t. v. kannske virðinguna fyrir sjálfum sér, þannig að ljóst væri að landinu væri ekki óhætt fyrir þeim sjálfum. Þá gæti verið rétt að fara að huga að skipulagi í þá átt sem þessi till. gerir ráð fyrir, en fyrr ekki. Og ég hef það traust á íslenskri bændastétt að ég er þess fullviss að til þess kemur ekki í náinni framtíð.