18.05.1976
Sameinað þing: 93. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4605 í B-deild Alþingistíðinda. (4210)

178. mál, veiting prestakalla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vænti þess að ég níðist ekki um of á hæstv. forseta að því er varðar ræðutímann, en ég þakka honum fyrir að gefa mér kost á því að mæla hér örfá orð fyrir brtt. Ef umr. verður haldið áfram, sem ég vænti nú að ekki verði, þá munu að sjálfsögðu síðar við þessa umr. hér í nótt taka til máls menn sömu skoðunar og ég og halda áfram umr. um þetta mál.

Þetta mál hefur hlotið miklar umr. hér í þinginu, fyrst og fremst vegna þess að í framsögu og raunar líka í grg. fyrir þessari þáltill. var alveg ótvírætt gefið í skyn að hverju væri stefnt af stuðningsmönnum og talsmönnum þessarar þáltill., þ.e.a.s. það er stefnt að því að leggja niður almennar prestskosningar í landinu. Það er ástæðan og grundvöllurinn fyrir því að þessi till. er flutt. Þetta kom fram í framsögu fyrir málinu, og nokkrir flm. auk frsm. till. tóku í sama streng undir umr. Sumir þessara hv. þm. hafa nú dregið í land og gefið í skyn að þetta væri ekki meining þeirra með flutningi þessarar þáltill. Við höfum því nokkrir hv. þm. leyft okkur að flytja brtt. á þskj. 509 varðandi þessa þáltill og viljum gefa þeim hv. flm., sem eru nú komnir á þá skoðun að þeir vilji ekki breyta í þá átt að nema úr gildi almennar prestskosningar í landinu, gefa þeim hér með færi á því að styðja við bakið á okkur sem höfum haldið uppi vörnum fyrir þau almennu mannréttindi að íslendingar eigi þess kost að velja sjálfir prest við sitt hæfi. Brtt. þessi er að aftan við 1. mgr. tillgr. bætist: „Þó skal endurskoðunin ekki hafa í för með sér afnám prestskosninga í núverandi mynd.“ Með þessu er það tryggt að þeim hv. flm. sem látið hafa í það skína á síðari stigum umr. um málið að þeir vildu ekki, a.m.k. beint, halda því fram að þeir væru að afnema prestskosningar, — þeim er hér með gefinn kostur á því að staðfesta þetta álit með því að greiða atkv. þessari brtt. En þáltill. er um það að kjósa n. 7 þm. sem hafi það verkefni að endurskoða lög um veitingu prestakalla.

Ég, eins og ég sagði í upphafi, skal ekki níðast á góðvild hæstv. forseta. Ég er búinn að tala tvisvar í málinu, þetta er í þriðja skiptið. En eins og ég sagði ef það er meining hæstv. forseta að halda hér áfram umr. um málið, þá eru að ég vænti nægilega margir sömu skoðunar og ég hér þó að áliðið sé orðið nætur til þess að taka þátt í umr. og halda þeim áfram. En ég vænti þess að hæstv. forseti ætli sér ekki slíkt. Það væri að mínu viti óskynsamlegt að gera það nú á þessari stundu. Ég vænti þess því að hann fresti umr., helst nú þegar búið er að mæla fyrir brtt., það væri eðlilegast. En nú mun þegar einn hv. þm. hafa kvatt sér hljóðs, og við látum því sjá, ég og mínir skoðanabræður, hvernig framvinda mála verður, en tökum að sjálfsögðu þátt í málinu eftir því sem tilefni gefast til í áframhaldi umr.