19.05.1976
Sameinað þing: 95. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 4610 í B-deild Alþingistíðinda. (4228)

Þinglausnir

Forseti (Ásgeir Bjarnason):

Hæstv. ríkisstj., hv. alþm. Ég mun gefa yfirlit um störf Alþingis: Þingið hefur staðið frá 10. okt. til 20. des. 1975

og frá 26, jan. til 19. maí 1976, alls 187 daga.

ÞINGFUNDIR hafa verið haldnir:

í neðri deild

119

í efri deild

127

í sameinaðu þingi

95

Alls

341

ÞINGMÁL og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1

Stjórnarframvörp:

a

Lögð fyrir neðri deild

49

b

Lögð fyrir efri deild

70

e

Lögð fyrir sameinað þing

3

122

2

Þingmannafrumvörp:

a

Borin fram í neðri deild

27

b

Borin fram í efri deild

31

58

180

Úrslit urðu þessi:

Lagafrumvörp:

Afgreidd sem lög:

Stjórnarfrumvörp

94

Þingmannafrumvörp

14

108

b

Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Þingmannafrumvörpum

7

Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp

28

Þingmannafrumvörp

37

65

180

II. Þingsályktunartillögur:

Bornar fram í sameinuðu

þingi

67

Borin fram í neðri deild

1

Bornar fram í efri deild

8

74

Úrslit urðu þessi:

a

Ályktanir Alþingis

18

b

Felld

1

c

Vísað til ríkisstjórnarinnar

9

d

Ekki útræddar

46

74

III, Fyrirspurnir:

Í sameinuðu þingi 62. Sumar

eru fleiri saman á þingskjali

svo að málatala þeirra er ekki

nema

35

Allar voru fyrirspurnir þessar

ræddar nema 8.

Mál til meðferðar í þinginu alls

289

Skýrslur ráðherra voru

5

Tala prentaðra þingskjala

957

Eins og jafnan áður hafa mörg mál komið til meðferðar Alþingis og raunar miklu fleiri en tala þskj. segir til um. Langur tími hefur farið í umr. utan dagskrár á þessu þingi. Mest hefur þar verið rætt um landhelgismálin, en orkumálin hafa einnig tekið ærinn tíma auk ýmislegs annars. Engan þarf að undra þótt útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur þann 15. okt. s.l. og nýting fiskimiðanna innan hennar hafi leitt til umræðna og samningaþófs.

Þjóðin stendur einhuga að hagsmunamáli þessu og stendur að baki landhelgisgæslunni og metur að verðleikum þá áhættu og þær fórnir sem sjómenn á varðskipum hafa orðið að heyja á hafi úti.

Hvað eftir annað hafa varðskipin orðið fyrir árásum breskra herskipa og dráttarbáta. Sú gifta hefur jafnan fylgt því vökula liði sem annast landhelgisgæsluna, að þar hefur enginn maður til þessa hlotið teljandi líkamleg meiðsli enda þótt varðskipin beri þess glöggt vitni að þar hafa hinir bresku andstæðingar sótt vægðarlaust að. Ég vil við þetta tækifæri flytja öllum þeim, sem annast Landhelgisgæsluna, þakkir Alþ. og alþm. fyrir gifturík störf í þágu lands og þjóðar. Það er ósk mín að áfram megi heillavættir fylgja störfum þessum.

Miklir sigrar vinnast sjaldan án mikilla fórna. Þess var varla að vænta að jafnstórt spor og við höfum stigið í landhelgismálinu næðist án átaka og fórna. Það má heldur ekki gleymast að með þessu er íslenska þjóðin að helga sér þær auðlindir sem framtíð hennar byggist á, og það er mikið verk og vandasamt að semja reglur um nýtingu þeirra. Slíkar reglur þurfa líka stöðugrar endurskoðunar við, en óhjákvæmilegt er að þær séu settar og hafðar í heiðri.

Orkumálin hafa mjög verið rædd á þessum vetri, einkum þó jarðvarmavirkjun við Kröflu. Menn greinir jafnan á um nýjungar. Kröfluvirkjun er fyrsta virkjun sinnar tegundar hér á landi og ein af fáum orkuverum á jörðu hér þar sem jarðvarminn — gufan — á að knýja túrbínur og framleiða rafmagn. Það er ánægjulegt til þess að hugsa að við eigum miklar orkulindir ónotaðar í jörðu og á, og það er eðlilegt að menn greini á um leiðir þegar innlendir orkugjafar eiga að leysa erlenda af hólmi svo sem við erum öll sammála nm.

Þótt mér sé tíðrætt um þessar auðlindir fiskimið og orkugjafa — fer því fjarri að ég vilji leiða hugi manna fram hjá öðrum vandamálum.

Eins og jafnan vill verða hefur þetta þing fjallað um mál sem ekki hafa hlotið afgreiðslu. Þar með eru ákveðnar tillögur og hugmyndir komnar á umræðustig. Slíkt er oft eðlilegur og nauðsynlegur undirbúningur þess sem á eftir kemur. Það ber ekki allt upp á sama daginn. Hér vil ég aðeins nefna frv. þau sem fram hafa komið um réttarfarsmál og við eru bundnar vonir um öryggi og hagkvæmari vinnubrögð á því sviði.

Efnahagsmál og fjármál taka alltaf sinn tíma á Alþingi. Það er í mörg horn að líta, verkefnin, sem vinna þarf að, mikil og margar óskir um stuðning hins opinbera. Margir eru þættir þeir, bæði innlendir og erlendir, sem valda því að venju fremur verður að huga vel að fjármálum þjóðarinnar út á við ekki síður en inn á við. Gamlar dyggðir eins og reglusemi, sparsemi og iðjusemi halda enn þá gildi sínu. Velferð þjóðarinnar er að sjálfsögðu alltaf háð því hvernig árar til lands og sjávar. Í öllum skiptum manna við náttúruna sannast með ýmsum hætti og í ýmsum myndum það sem Stephan G. Stephansson sagði:

„Ég er bóndi, allt mitt á

undir sól og regni“

Árferði verður jafnan misjafnt, það þekkjum við öll — en ég vænti þess að reynslan staðfesti það að á þessu þingi hafi í alvöru verið leitað eftir ýmsum úrræðum til þess að íslenska þjóðin þoli betur í framtíðinni að mæta nokkrum sveiflum í árgæskunni heldur en oft hefur áður verið.

Þetta þing hefur verið mjög annasamt og ekki síst síðustu vikurnar. En það er ekki nýtt.

Ég þakka hæstv. ríkisstj. og hv. alþm., skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis umburðarlyndi í minn garð og ánægjulegt samstarf á þessu þingi. Sérstakar þakkir færi ég varaforsetum sem jafnan hafa veitt mér hina bestu aðstoð. Skrifurum þingsins þakka ég ágæt störf og sömuleiðis skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis.

Að lokum óska ég hv. alþm. góðrar heimferðar og heimkomu, og það er von mín að öll megum við heil hittast hér á næsta hausti. Landsmönnum öllum óska ég árs og friðar.