20.11.1975
Sameinað þing: 19. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

39. mál, eignarráð á landinu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hv. 8. landsk. þm., Sighvatur Björgvinsson, flutti hér ræður af miklum tilfinningahita áðan, ræðu sem ég sé mig knúinn til að gera örfáar aths. við.

Hv. þm. hóf mál sitt á því að segja að tillöguflutningur þeirra hv. Alþfl.-manna hefði vissulega haft veruleg áhrif nú þegar og það hér á hinu háa Alþ., fyrst hefði till. þessi verið talin óalandi og óferjandi í öllum greinum, en nú væru jafnvel hinir sömu menn ýmsu sammála sem þar stæði. Ég verð að benda hv. þm. á að eins og ég gat um í minni fyrri ræðu hefur þessi till. tekið ýmsum breytingum. Hún var í byrjun miklu afdráttarlausari og skýrar orðuð, á þá lund að taka öll landsréttindi og allt land úr einkaeign og flytja í ríkiseign. Nú er, eins og ég sagði, orðalag till orðið loðið. Þar eru nokkur undantekningartilfelli og hún er teygjanleg í ýmsum greinum, svo að það má segja að hún standist ekki algerlega samjöfnuð við þá fyrri hvað orðalag snertir. Þetta tók ég allt saman fram í minni fyrri ræðu, þó að tilgangur till. sé auðvitað allur hinn sami.

En þá kom að því fyrir hv. þm. sem honum virðist vera óþarflega tamt, það er að gera mönnum upp orð og skoðanir, því að hann sagði afdráttarlaust að ég hefði látið þau orð falla að í till. þessari væri ýmislegt sem ég gæti stutt. Ég verð að taka það skýrt og skorinort fram við þennan hv. þm. að ég hef aldrei sagt það að ég styddi eitt einasta atriði í þessari till. Ég held að það sé rétt að það sé algerlega ljóst. Hins vegar lét ég þess getið að í till. þessari væri gripið á nokkrum vandamálum sem þörf væri á að huga að. En ég lét þess einnig getið að þar væru aðrar leiðir færari og réttlátari heldur en þær sem till. þessi bendir á. Þetta held ég að sé alveg nauðsynlegt að sé ljóst, svo að þessi hv. þm , — ég gruna auðvitað engan annan hv. þm. um það að hann fari að gera mér upp slíkar skoðanir, — svo að þessi hv. þm. láti sér ekki í annað skipti detta í hug að halda því fram að ég sé samþykkur einu eða öðru í þessari tillgr.

Það kom auðvitað skýrt fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að grundvallarsjónarmið okkar í sambandi við eignarrétt rekast gersamlega á — og þótti engum mikið. Hins vegar fór hann um þetta slíkum orðum að mjög var úr lagi fært, mín sjónarmið og annarra þeirra sem vilja virða eignarrétt í landinu. Hann hélt á lofti þeirri skröksögu að ýmsir þeir, sem eiga verðmæt réttindi, jarðhitaréttindi, vilji virða þau til jafns við olíuverð erlendis og að þetta sé talin sjálfsögð krafa. Þetta hef ég ekki heyrt um og aldrei tekið mér í munn. Nú er það svo, að ég gat um það, að ég taldi allskýrt, í minni fyrri ræðu að stjórnarskráin íslenska færði þjóðfélaginu ráð til þess að nýta réttindi, bæði landsréttindi, land og hlunnindi, sem ekki tækist að ná samningum um verð á, en væru óumdeilanlega nauðsynleg til almannaheilla. Stjórnarskráin færir þjóðfélaginu rétt til þess að fá eignarnámsheimild og taka slík verðmæti eignarnámi. Ég tel að það sé sjálfsagt, eins og í því tilviki, sem rætt hefur verið mest um á hv. Alþ., en það er hið svokallaða Svartsengismál, að það yrði látið reyna á það hvernig slíkt eignarnámsmat yrði. Og ég hef í rauninni aldrei skilið hverju það sætir að þegar um slíkt mál er búið að fjalla ár eftir ár og samkomulag hefur ekki náðst um verð, þá skuli ekki eignarnámslögum beitt. Ég hef ekki skilið það. Færi svo að þeir, sem meta slík réttindi til eignarnáms, miðuðu við óhæfilega háar fjárhæðir í samræmi við þetta tal um olíuverð og nýtingu jarðhitans á Íslandi í samræmi við olíugróða araba, þá væri komið að því sem ég taldi að kæmi til greina, en það væri að færa í íslensk lög ákvæði um þak á eignarnámsmati.

Ég þarf í rauninni ekki að fara um þetta efni fleiri orðum. En hitt vil ég láta koma algerlega skýrt fram, að þó að við getum sagt að það sé í rauninni orðaleikur hvort íslenska þjóðin á Ísland eða á ekki Ísland, — auðvitað á íslenska þjóðin Ísland, en kannske ekki allir jafnmikið af Íslandi, — þá vil ég láta það koma algerlega skýrt fram að þeir sérstöku hlutar af Íslandi sem einstaklingar eiga og sveitarfélög eiga, samtök sveitarfélaga, t. d. upprekstrarfélögin sem eiga mikinn hluta af hálendi Íslands samkv. skjalfestum samningum og þinglesnum, að þessi eignarréttindi verða ekki tekin af þessum aðilum nema því aðeins að almannaheill krefjist og eigna námsheimildir fáist, þau verði ekki tekin af þeim aðilum, sem eiga þessi réttindi með einfaldri lagasetningu á Alþ. á borð við það sem hér er verið að leggja grunninn að. Ég held að það sé í rauninni ekki þörf á því að fjalla um þetta frekar okkar á milli því að um þetta efni virðast skoðanir okkar rekast gersamlega á.

Hv. þm. spurði hvað eftir annað: Eru íslendingar sjálfir réttlausir leiguliðar örfárra manna:? Ég tel þessa spurningu í rauninni algerlega út í hött, vegna þess að ef sannanlegt er að almannaheill krefjist þess að einhver landsréttindi, bæði lönd og hlunnindi, vatnsföll, jarðhiti og önnur landsréttindi, séu tekin til nota fyrir almenning, þá eru leiðir í íslenskri stjórnarskrá sem heimila það.

Ég held, að ég láti þessi orð nægja um hina fjálgu ræðu hv. 8. landsk. þm., og það þarf raunar ekki að taka það fram, að ég lít á það sem borna von að við náum nokkurn tíma sameiginlegri niðurstöðu um þessi efni.

Það væru kannske örfá orð í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefáns Jónssonar. Sá hv. þm. sagði margt skemmtilega, enda er honum það lagið, hann er orðhagur og hagur að flytja mál sitt. Hins vegar var ræðan í heild, að mér virtist, einber rökleysa og rökleysa af því tagi að hann taldi sig samþykkan till. samkv. orðanna hljóðan, en taldi þó að Íslandi og íslensku þjóðinni væri best borgið með því að bændastéttin héldi áfram eignarráðum sínum á landinu, bæði einstökum bújörðum, vatnsréttindum, afréttarlöndum og öðru því sem nú er í umsjá íslenskra bænda. Ég ætla aðeins að vona að þessi síðari túlkun hv. 5. þm. Norðurl. e. vegi meira í brjósti hans og huga heldur en sú túlkun hans að hann sé í rauninni alveg samþykkur þessari till., sem hér liggur fyrir samkv. orðanna hljóðan. Þetta var nú ekki meginmál, enda kemur þetta mál lítið við mig, þessi afstöðugrautur hv. þm. Ég vil aðeins víkja að einu atriði sem hann sá ástæðu til að fjalla hér um. Það var að íslenskir bændur stunduðu okurleigu á veiðiám og ef þeir stunduðu þessa okurleigu með þeim hætti að leigja útlendingum, þá væru þeir auðvitað ekki bændur, þá væru þeir eitthvað annað, einhver fyrirbrigði sem hann hirti ekki um að skilgreina nánar. Ég vil aðeins segja það, að ég tel eðlilegt að bændur leigi þessi réttindi á frjálsum markaði. Og ég hef ekki þá reynslu af skiptum bænda — og ég tel mig í þeirra hópi —- sem hafa skipt við útlendinga, að það hafi orðið bændastéttinni, Íslandi né íslensku þjóðinni í heild til tjóns. Eitt atriði í þessu t. d. má nefna, að leiga á veiðiám til útlendinga færir auðvitað íslensku þjóðinni gjaldeyristekjur og gjaldeyristekjur eru íslenskri þjóð harla mikils virði. Það má e. t. v. leiða að því hugann hvort það sé þá ekki í samræmi við þessa skoðun hv. þm að við eigum að hætta sem mest samskiptum okkar við erlendar þjóðir, hætta viðskiptum við útlönd, hætta að semja um sölu á afurðum okkar og kaupa annað í staðinn. Það væri samræmi í slíkum málflutningi og sjálfsagt kemur hann hér á eftir.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera aths. við ræðu hv. þm. en ég vil þó láta koma fram að ég tel að bændur, eins og aðrir þeir sem eiga fasteignir og eiga réttindi, eigi að vera frjálsir, — innan vissra marka vita skuld, og íslensk lög setja skorður við leigu til útlendinga, — en innan þeirra marka, sem nú gilda, tel ég eðlilegt að þeir nýti sér þessar heimildir og geti selt hæstbjóðanda ef þeim býður svo við að horfa. Hitt vil ég einnig fullyrða, að nú er svo ástatt um íslensk veiðivötn, bæði straumvötn og stöðuvötn, að það muni í a. m. k. flestum tilfellum vera pláss fyrir þá íslenska laxveiðimenn, sem þess óska, að sækja í þennan unaðsreit, eins og hv. þm. nefndi.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta. Ég ítreka það að till. í heild fer algerlega í bága við mínar grundvallarskoðanir um eignarrétt og í bága við það sem ég tel skynsamlegt. Og ég tel að þegar slík till. er flutt á Alþ. þing eftir þing, nú í fimmta sinn, þá sé kominn tími til þess að hv. Alþ. segi álit sitt á henni og afgreiði hana. Ég efast ekki um hvernig sú afgreiðsla verður.